Drífand góður Land Cruiser 150

Um langt árabil hefur Land Cruiser-jeppinn frá Toyota verið í slíkum metum hjá stórum hópi landsmanna að við liggur trúarbrögðum. Það er út af fyrir sig skiljanlegt; í honum fer saman drifgeta og þónokkur broddborgarabragur.

Eigendur hafa því jöfnum höndum komist leiðar sinnar í vegleysum og snjóþyngslum annars vegar, og eins hafa þeir getað ekið um götur borgarinnar drjúgir með sig á bónuðum jeppanum enda situr maður hátt í Land Cruiser og ökuferð í slíkum kostagrip gefur ökumanni á að líta með velþóknun á samferðafólk sitt.

Á síðustu 15 árum eða svo hefur orðið til ný stétt jeppa sem kalla má með réttu lúxussportjeppa (sjá umfjöllun annars staðar í blaðinu), og eru slíkir í grunninn lúxusbílar með skikkanlegri veghæð, fjórhjóladrifi og sportlegum aksturseiginleikum. Segja má að flokkurinn hafi komið til sögunnar þegar Porsche hleypti Cayenne af stokkunum árið 2003. Toyota gerir auðvitað hárrétt í því að eltast ekki við þann flokk bíla en hefur þess í stað sífellt betrumbætt drifbúnað og dugnað um leið. Nú er svo komið að Toyota Land Cruiser 150 er hreint framúrskarandi torfærujeppi. Það fékk blaðamaður að reyna í óbyggðum Namibíu í síðasta mánuði.

Snyrtilega uppfært útlit

„Það er óþarfi að laga það sem er ekki bilað,“ segir einhvers staðar og má til sanns vegar færa, alltént hér á landi. Land Cruiser hefur notið slíkra vinsælda hér á landi síðasta aldarfjórðunginn eða svo að ekki þarf að vonast eftir útlitsbyltingu hvað hann varðar. Jeppinn hefur tekið varfærnislegum breytingum, en þó vel sýnilegum, undanfarin ár og það sama er uppi á teningnum að þessu sinni. En að einhverju leyti er staðreyndin engu að síður sú að Toyota tekst að flétta inn uppfærslur sem fanga Land Cruiser-andann með þeim hætti að fæstum finnst ýkja mikið hafa breyst. Framgrillið er þó sýnilega frábrugðið því sem var og sama má segja um framljósin. Ásýnd bílsins er því nokkuð breytt og það til hins betra. Manni finnst nýjasti Land Cruiserinn sá flottasti hingað til og það þýðir að vel hefur tekist til. Þá fær Toyota prik fyrir verulega flottar felgur sem setja sinn svip á nýja Land Cruiserinn.

„Form skal fúnksjón fylgja“

Eins og framar greindi er drifbúnaður Land Cruiser-jeppans í meira lagi öflugur og það sem meira er, það hefur tekist einkar vel að setja fram stjórntæki þar að lútandi í mælaborði og innréttingu jeppans. Meira að segja þeir sem ekki eru sprengvanir vegleysufarar (eins og tilfellið er með greinarhöfund) eru fljótir að átta sig á því sem þarna er til staðar og ná í framhaldinu góðum tökum á búnaðinum. Allt fyrirkomulag stjórntækja er eins og best verður á kosið og tækni sú sem í boði er fellur þar af leiðandi ekki á milli þilja; hér er leikur einn að taka tæknibúnaðinn í sína þjónustu. Hér miðar flest við að bíllinn fái notið sín sem torfærubíll þegar á því þarf að halda.

Efnisvalið að innan er þá prýðilegt, lúxusinn til staðar með lágstemmdum hætti, sem er einmitt vel, og frágangur innréttingar er allur hinn rammgerðasti. Stýrishjólið hefur fengið nýja hönnun sem féll í kramið og sætin ljómandi góð að sama skapi. Þá er innanlýsingin orðin hreint frábærlega útfærð. Toyota Land Cruiser 150 er í stuttu máli sagt fantavel lukkaður að innan. Þá er mikils um vert að aukasætin í skottinu falla núorðið ofan í gólfið í stað þess að fellast saman og festast upp til hliðanna þar sem þau taka allt of mikið pláss.

Ætlar hann að fara upp þetta?

Það var allra besta skemmtun að taka nýja Land Cruiserinn til kostanna í Afríkuríkinu Namibíu og þar gafst kostur á allra handa ófæruakstri. Það reyndist sama hvað jeppanum var boðið upp á, klöngur upp klettótta troðninga, akstur í sandi, öslast um í sveittum fenjum eða þaðan af ófélegri aðstæður, allt hafði jeppinn það af. Reyndar voru sumar brekkurnar þess eðlis að blaðamenn fengu bara að fylgjast með sérfræðingum fara þær upp og svo niður, enda vart á færi leikmanna, og þá var aðdáunarvert að sjá hvers hann er megnugur. Þarna mætti segja mér að Toyota séu á ný að marka Land Cruiser ákveðna sérstöðu hvað vegleysuakstur varðar, eða „off-road capabilities“ eins og það heitir á ensku. Drifgeta þessa jeppa er aðdáunarverð og það er dagljóst að það þarf hreint hrikalegar aðstæður til að koma í veg fyrir að hann komist leiðar sinnar. Hann komst alltént allt sem honum var boðið upp á í Namibíu og þar var sko fráleitt verið að mylja undir hann – öðru nær.

Á malbikinu siglir Land Cruiser svo hljóðlega um og fjöðrunin á þeim vettvangi silkimjúk. Borgarakstur fer bílnum því fullt eins vel.

Þegar á allt er litið er Land Cruiser í auknum mæli að staðsetja sig sem torfæruþjarkur með lúxusbrag, í stað þess að eltast við að vera lúxusjeppi með fjórhjóladrifi, eins og tilfellið er með keppinautana frá Þýskalandi og Svíþjóð. Þetta er skynsamleg strategía og markar Toyota Land Cruiser 150 meiri sérstöðu og meiri aðgreiningu á markaði. Það er hægt að fá jeppa með sportlegri aksturseiginleika, vissulega, en landsmenn verða að gera upp við sig hvaða eiginleika þeir vilja hafa í jeppa sem á að aka hér á landi. Land Cruiser smellpassar við Ísland og verður áfram með vinsælustu jeppum, trúi ég.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina