Forkunnarfagur fólksvagn

Þess hefur verið beðið með eftirvæntingu um allnokkurt skeið að nýjasta tromp Volkswagen – Arteon – lenti á landinu. Út spurðist á haustdögum að bíllinn sá væri ekki bara gullfallegur á að líta heldur líka rammur að afli.

Þetta tvennt veit á gott þegar bílar eru annars vegar og nú þegar vagninn er kominn á götuna í Reykjavík er skemmst frá því að segja að sögurnar voru sannar og bíllinn stendur undir væntingum. VW Arteon er einkar laglegur á að líta og það sem meira er, hann er hreint ekki leiðinlegur að keyra.

Framúrskarandi útlits

VW hefur löngum haft lag á að hanna fallega bíla og þaðan koma sjaldnast beinlínis ljótir bílar, nokkuð sem margir aðrir framleiðendur eiga til endrum og sinnum. Arteon bætir um betur og sleppur ekki bara við ljótuna, hann er beinlínis bráðfallegur. VW hafa hannað talsvert djarfan framenda á Arteon, ólíkan öðru sem komið hefur frá verksmiðjunum í Wolfsburg, og fyrir bragðið „sést“ bíllinn vel í umferð. Það fékk undirritaður að reynda er hann prófaði bílinn á götum borgarinnar um næstsíðustu helgi. 20" álfelgur með þotuhreyfilslagi voru þá síst til að slá á eftirtekt annarra vegfarenda.

Afturendinn er að sama skapi ferlega vel heppnaður, og aflíðandi skottið ljær Arteon þónokkuð „Coupé“ útlit, ef svo má segja, og fyrir bragðið verður þessi bíll – sem í prinsippinu er í sedan-flokki – býsna sportlegur á að líta. Hvort Arteon er beinn arftaki VW Passat CC skal ósagt látið, en sé svo þá er hann verðugur arftaki. CC var þeim sem þetta ritar ávallt að skapi og það er Arteon líka.

Einstaklega rúmgóður fólksbíll

Það fyrsta sem vekur athygli þegar inn í bílinn er komið er ótrúlegt plássið. Ökumaður og farþegi í framsæti hafa gríðarlegt andrými og gott útsýni til allra átta – nema aftur fyrir sig. Þá er átt við að afturrúðan er með knappara móti og þegar við bætist hauspúði fyrir þriðja farþegann í aftursætinu (þennan í miðjunni) þá er útsýni ökumanns um baksýnisspegilinn heldur takmarkað, og þá erum við að tala um í akstri; þegar bakkað er tekur bakkmyndavélin við og ljær ökumanni allt það útsýni sem hann þarf á skjánum í innréttingunni. En hauspúðinn fyrir miðjusætið er ekki út í bláinn því það er vel viðunandi pláss fyrir þrjá fullorðna í aftursætinu. Fótarýmið er líka yfirdrifið. Séu aðeins tveir í aftursætinu er plássið nánast eins og í limósínu og þá er lag að kippa bara miðjuhauspúðanum úr og geyma í skottinu svo ökumaður sjái þokkalega. Innréttingin er stílhrein og einföld, mjög Volkswagen-leg þannig lagað og ekkert að því. Þá er farangursrýmið heilir 563 lítrar sem er dúndurgott og aðgengið að skottinu fínt sömuleiðis enda skotthlerinn heljarstór.

Urrandi góður gangur

Þegar Arteon var prófaður hér í borg var leiðinda krapi á flestum götum svo ekki þótti skynsamlegt að taka hann ærlega til kostanna. Þó var hann þaninn tilhlýðilega og stóð Arteon skemmtilega undir væntingum. Sérstaklega var gaman að hlýða á óbeislað vélarhljóðið í Sport-stillingunni og ennfremur var fjórhjóladrifið duglegt að sjá til þess að bíllinn lá eins og klessa á veginum, jafnvel þó aðstæður á vegi væru ekki eins og best yrði á kosið.

Því er ekki að neita að gaman væri að prófa Arteon í góðu veðri í langkeyrslu því það mætti segja mér að þarna væri kominn verulega góður Gran Turismo-bíll, með aflið, þægindin og stöðugleikann til að takast á við þjóðveginn – eða autóbanann.

Meira svona, takk!

Það þótti sæta tíðindum, og það ekki svo litlum, þegar Kia sendi frá sér Stinger síðasta haust, bíl sem er í sama sportlega GT-flokknum, og svipuðum verðflokki þess utan. Erum við að sjá móta fyrir bylgju slíkra bíla á markaði? Þá er það vel. Bæði Stinger og Arteon eru dúndurgóðir akstursbílar, flottir útlits, gríðarvel búnir af allskonar og það sem meira er, báðir eru þeir í verðflokki sem er ekki alveg út úr kortinu fyrir launafólkið. Ef fleiri slíkir eru væntanlegir í bráðina ber því að fagna og það rækilega.