Litli bróðir leggur í'ann

Áfram bætist í úrvalið af jeppum frá Jeep, fyrirtækinu sem léði okkur Íslendingum heitið yfir vegleysubifreiðir – jeppi.

Grand Cherokee hefur verið framleiddur í meira en fjörutíu ár og telst í dag orðinn góðkunningi hér á landi, í fyrra var Jeep Renegade kynntur til sögunnar með sínu allsérstæða útliti, og nú er röðin komin að Jeep Compass, sem auglýstur er sem „litli bróðir Grand Cherokee“.

Það er út af fyrir sig satt og rétt, og segja má að Compass hafi útlitið með sér, alltént með allmennari hætti en Renegade-jeppinn sem fellur helst þeim í geð sem sækja sérstaklega í „spes“ bifreiðar.

Svipfríður að sjá

Það kveður við annan tón í tilfelli Jeep Compass því hann er hinn snoppufríðasti að sjá. Það er reyndar sérstakt að Jeep Cherokee sé ekkert líkur Jeep Grand Cherokee, á meðan Jeep Compass er eins og minni útgáfa af Jeep Grand Cherokee; eruð þið að fylgja mér? Allt um það, Compass-jeppinn er líklega sá fallegasti af allri fjölskyldunni og eins og framar greindi munar þar ekki minnst um framendann sem er virkilega flottur og vel heppnaður.

Hliðarnar á yfirbyggingunni eru þær sömu að sjá og á Jeep Renegade, eilítið inndregnar um hurðaflekana. Þarna eru greinilega ákveðin samlegðaráhrif í gangi, nokkuð sem á eftir að dúkka upp aftur.

Sama er að segja um afturendann, sem er að megninu til skotthlerinn. Hann er í línu við annað í útliti bílsins, sem er heildstætt og gengur vel upp. Ljóst má vera að mun fleiri munu renna hýru auga til Jeep Compass heldur en nokkurn tíma hinna sérstöku bræðra hans, Renegade og Cherokee.

Plastið allsráðandi inni

Það er ekki alveg jafn skemmtilegt um að litast innandyra því þar er plastið alltumlykjandi, í svolítið sérstakri gervileðuráferð. Slíkt fyrirgefst jafnan að einhverju marki þegar um ódýrari bíla er að ræða en hér er grunnverðið vel á sjöttu milljón króna og þá vill maður helst sjá svolítil tilþrif í innanstokkshönnuninni. Innréttingin er aftur á móti haganlega hugsuð, aðgengi og viðmót fínt og ökumaður er fljótlega heima í öllu saman. Reyndar var stýrishjólið heldur kunnuglegt þegar ég ók Compass og það rifjaðist upp fyrir mér að það er greinilega steypt í sama mót og stýrið í Fiat Tipo. Svo er undir hælinn lagt hvort maður gerir veður út af því. Eins og framar greindi er fólkið hjá Fiat Chrysler að nýta sér ákveðin samlegðaráhrif og ekkert að því í sjálfu sér. En það væri óneitanlega gaman að sjá svolítið veglegra efnisval í bíl sem að öðru leyti kemur manni vel fyrir sjónir. Plássið er þá fínt fyrir höfuð herðar og hné, bæði í framsætum og aftur í.

Góður á vegum sem vegleysum

Um þessar mundir er stærðarflokkur Jeep Compass heitasta heitt í bílabransanum og nærfellt allir bílaframleiðendur berjast þar um hylli kaupenda. „Borgarjeppi“ er dagskipunin og það taka sumir fullbókstaflega. En ekki Compass, því hann er hinn reffilegasti á möl og nýtur sín þar fyllilega jafnvel og á malbikinu. Þar nutu aksturseiginleikar hans sín virkilega vel og þó ekið væri nokkuð greitt um þvottabretti í nærsveitum höfuðborgarinnar þá plumaði hann sig bara þrælvel. Vinnslan er ágæt í dísilvélinni en hún glamrar helst til mikið í hægagangi.

Jeep Compass á sjálfsagt eftir að fara langt á útlitinu enda hefur hann það með sér. Þeir sem eru vandfýsnir á innréttingar gætu þó sett spurningarmerki þar við og það er hætt við að með því að spara þar aurinn séu Jeep að kasta krónunni. Þetta er ekki bíll í lægsta verðflokki, þó að hann sé á fínu verði fyrir þann jeppa sem hann er, og skynsamlegt væri að djassa innviðina lítið eitt upp fyrir næstu uppfærslu. Kaupendur eiga heimtingu á slíku þegar bíll er jafn huggulegur að sjá hið ytra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: