Mitsubishi minnir á sig

Þegar undirritaður hugsar til baka um svo að segja tvo áratugi – aftur til aldamóta eða svo – er merkilegt hve mjög hefur lækkað risið á hinu fornfræga japanska bílamerki Mitsubishi.

Í þá daga voru námsmenn margir hverjir á Mitsubishi Colt, húsmæður áttu Lancer, spaðarnir urruðu um bæinn á grásilfruðum Galant, þeir allra svölustu á Eclipse-sportbíl og heimilisfeðurnir áttu Pajero-jeppa, væru þeir á réttum stað í tilverunni. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og nú er Snorrabúð stekkur, eins og þar stendur. Pajero er ekki lengur auglýstur sem „konungur jeppanna“, fólksbílarnir frá MMC eru liðin tíð. En batamerki hafa sést í Outlander-jeppanum sem hefur rokselst hér heima og nú er kominn annar nettur sportjeppi til sögunnar sem gæti lagt sitt af mörkum við að auka hróður framleiðandans á ný.

Sver sig í ættina – og þó

Nýliðinn heitir kunnuglegu nafni, vel að merkja Eclipse að viðbættu Cross, sem væntanlega er stytting á Cross country eða álíka enda um sportlegan jeppling að ræða með fína veghæð. Hvers vegna MMC afréð að færa nafn sportbíls yfir á jeppling blasir ekki við, en allt um það. Tilsýndar er Eclipse Cross ekki svo galinn, og framendinn minnir talsvert á hinn söluháa stóra bróður, Outlander. Það er vel, og vonandi til marks um að heildstæð hönnunarstefna sé í farvatninu hjá Mitsubitshi. Eclipse Cross er semsé andlitsfríður, og hliðarsvipurinn heilt yfir ágætur. Heldur vandast þó málið þegar afturendinn er skoðaður; þar er helst eins og hönnuðir hafi ætlað sér að sækja í hugmyndasmiðju Volvo XC60 (sbr. afturljósin) en hafi svo fyllst eldmóði í þá átt að búa til eitthvað í ætt við Pontiac Aztec. Afturendinn er sérkennilega margbrotinn að sjá og einhverra hluta vegna hafa hönnuðir MMC talið það góða hugmynd að kljúfa rúðuna í afturhleranum með þverbita. Hið undarlegasta mál. Framúrstefnulega þenkjandi bílkaupendur sjá ef til vill eitthvað áhugavert í þessu en íhaldsmenn á við undirritaðan fá ekki skilið hvers vegna ekki var farin einfaldari leið við fráganginn. Fyrir bragðið er heildarsvipur Eclipse Cross nokkuð nýstárlegur og eflaust smekksatriði hvernig til hefur tekist.

Vel búinn bíll í bak og fyrir

Þegar inn í bílinn er sest er allt á sömu ágætisbókina lært; þessi jepplingur er drekkhlaðinn allskonar búnaði og allt leikur í höndum ökumanns. Lítill skjár lyftist upp úr innréttingunni aftan við stýrið þegar bíllinn er ræstur og gefur þar ökumanni til kynna hraða bílsins, til að lágmarka viðbrigðin við að taka augun af veginum og skoða hraðamælinn í mælaborðinu. Heads-up display kallast það víst og er algengur búnaður í talsvert dýrari bílum. Annað er eftir þessu, tengimöguleikar við snjallsíma og annað sem nútíma ökumenn sækja í, og engin leið er að halda öðru fram en að Eclipse Cross sé í takt við tímann. Sætin eru þægileg og ökumaður situr nokkuð hátt. Þrátt fyrir að innréttingin sé úr plasti þá er hún smekkleg og passar bílnum vel. Þá eru helstu hljóðrænu skoðunaratriði í góðu lagi, hurðaskellir eru þéttir og traustvekjandi, og stefnuljósið hljómar að sama skapi vel. Plássið í framsætum er feikigott og drjúgt í aftursætum líka. Fullorðnir sleppa þar vel, en fyrir barnafjölskyldu er bíllinn framúrskarandi rúmgóður. Skottið er einnig fínt en ég saknaði króka í hliðum innréttingarinnar þar til að festa innkaupapokana, nokkuð sem ætti að vera staðalbúnaður í bílum sem á annað borð skarta farangursrými í skottinu.

Við hittumst þá aftur, CVT

Lesendur þessa blaðs vita sjálfsagt núorðið að sá er þetta ritar mun seint sækjast eftir formennsku eða öðrum ábyrgðarstöðum í aðdáendaklúbbi CVT sjálfskiptinga, en þessar stiglausu sjálfskiptingar njóta allnokkurrar hylli hjá ýmsum bílaframleiðendum, illskiljanlegt sem það er. Ekki var því tilfinningin jákvæð fyrst í stað enda talsverðir fordómar til staðar, en viti menn, CVT-skiptingin reyndist bara vel sómasamleg og ekkert til að fárast yfir. Eclipse Cross er sprækur af stað og merkilega lítið af aflinu við inngjöf hvín bara af yfirsnúningi og beint út í kosmósinn eins og CVT-skiptingum er tamt að gera; þvert á móti skilar skiptingin aflinu úr vélinni með góðu móti til hjólanna. Bíllinn nýtur sin vel á greiðri langkeyrslu milli bæjarfélaga en heldur fannst mér hann þó hnika til hliðanna þegar ekið var um hringtorg, þó hafa beri í huga um leið að bíllinn sem hér um ræðir er ekki hannaður eða kynntur sem sportbíll. Fjöðrunin er líka góð, mjög mátulega stíf, svo hún plumar sig líka vel á holóttum malarvegum; þvottabretti koma Eclipse Cross ekki úr stuði.

Annað skref í rétta átt

Þrátt fyrir að ákveðinn fyrirvari sé settur í hönnun bílsins að aftanverðu þá er Eclipse Cross til marks um að MMC ætli sér hluti á næstu mánuðum og misserum. Þetta er áhugaverður bíll, ferlega skemmtilegur í akstri og framúrskarandi vel búinn margvíslegum aukahlutum. Þegar haft er í huga að verðið er í kringum fimm milljónir þá er ekki við öðru að búast en að bíllinn komi til með að auka enn við sölu MMC-bíla hér á landi, en eins og kunnugt hefur Outlander mokselst undanfarna mánuði, svo eftir var tekið. Hvað útlitið varðar þá hafa skrýtnari bílar tínst út –Citroën Cactus og Nissan Juke koma upp í hugann í fljótu bragði –og hver veit nema Eclipse Cross falli í kramið. Hann er alltént prýðilega búinn, fínn í akstri og skaplega verðlagður. Hljómar eins og söluvara hvað mig varðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: