Sænska sigurförin heldur áfram

Það viðrar vel í Volvo-landi um þessar mundir, og hefur reyndar gert um nokkurra ára skeið þegar hér er komið sögu. Hinn sænsk-ættaði framleiðandi sem áður fyrr þótti ferkantaður og þunglamalegur í flesta stað, þó sannarlega væri hann öruggur, hefur undanfarin misseri ekki sent frá sér annað en framúrskarandi bíla sem eru í senn hörkuflottir að sjá, skemmtilegir að keyra og sem fyrr þrælöruggir, bæði fyrir farþega og í auknum mæli gangandi vegfarendur sömuleiðis.

Jepparnir tveir sem fyrirtækið hefur státað af undanfarið, XC90 og XC60, hafa rakað saman verðlaunum og vegtyllum, og nú hefur sá þriðji lent hér á landi; sá minnsti þeirra, XC40. Skemmst er frá því að segja að hann er enginn eftirbátur stóru bræðranna, nema síður sé.

Sérlega svipfríður

Hönnunarteymi Volvo datt fyrir fáeinum árum niður á grunnútlit sem þeir hafa útfært á alla framleiðslulínuna hjá sér með frábærlega vel heppnuðum hætti; hver einasti bíll hefur sín einkenni en hópurinn er engu að síður tengdur sterkum böndum. Rauði þráðurinn er augljós frá einum bíl til annars. Framendinn rímar þannig einna helst við S90 bílinn, með framgrilli sem er lítillega innfellt, á meðan afturljósin eru í stíl við XC60 og V60 bílana. Eftir sem áður er XC40 algerlega frístandandi týpa og á heildina litið engum líkur. Í stærðarflokki þar sem gróskan hefur verið mest undanfarna 18 mánuði og hver framleiðandinn á fætur öðrum sendir bíl í samkeppnina, þá hefur Volvo tekist að teikna bíl sem vekur athygli og af góðu einu. XC40 er sérlega fallegur bíll að sjá og hvort sem maður virðir hann fyrir sér að framan, aftan eða þá hliðarsvipinn, þá er allt á sömu bókina lært. Þessi bíll er „bjútí“ í einu orði sagt.

Fantavel heppnuð innrétting

Volvo XC40 gefur semsagt fögur fyrirheit með ásýnd sinni og góðu heilli stendur hann við þau öllsömul þegar inn er komið. Hér minnir allt á áðurnefnda stóru bræðurna, XC60 0g 90, og hreint ekki leiðum að líkjast. 9 tommu snertiskjár fyrir allar mögulegar aðgerðir, þar á meðal loftræstingu, afþreyingu, leiðakerfi og annað, með svo kristaltærri grafík og myndgæðum að til mikillar fyrirmyndar er. Stýrið er kunnuglegt að sjá, sömuleiðis gírstangarstubburinn og fyrirkomulag stjórntækja – þetta höfum við allt saman séð áður og ekki nokkur ástæða til að breyta því sem vel er heppnað. Nýlundan er svo skrautlisti úr burstuðu áli með eins konar rúðumynstri sem setur skemmtilegan svip á innréttinguna. Volvo kallar þennan þátt innréttingarinnar „Cutting Edge“ – en ekki hvað! Eins og er með yfirbygginguna þá eru hér semsagt ýmsir þræðir sem tengja XC40 við familíuna en um leið eitt og annað sem ljær bílnum ákveðna sérstöðu.

Það má segja að hér sé að finna þá fágun sem er í stærri og dýrari jeppunum en með dassi af flippi í hönnun því bíllinn er eflaust miðaður að yngri og ævintýragjarnari kaupendum. Fyrir þann hóp er líka boðið upp á meira val í litum og frágangi en í XC60 og 90. Þetta er jú ungt og verður þar af leiðandi að fá að leika sér með liti og þess háttar. Íhaldssamari kaupendur geta eftir sem áður siglt lygnan sjó og valið sér hefðbundna og rólega liti.

Bíllinn sem prófaður var er búinn Harman / Kardon hljóðkerfi og var það prófað með dæmigerðu dúndurlagi, I'm Deranged með meistara David Bowie. Kerfið plumaði sig með sóma og skila góðri gæsahúð á framhandleggi undirritaðs.

Annað er vert að nefna og það er innanrýmið. Hér er á ferðinni eitt tilfelli þess þegar 1+1 = 3. Þegar bíllinni er skoðaður að utan og sest inn í hann er nánast óskiljanlegt hversu gott innanplássið er. Hátt til lofts, vítt til axla og það loftar feikivel um hné farþega í aftursæti; þau eru víðsfjarri framsætisbökunum. Þegar farangursrýmið er tekið með í reikninginn – 460 lítrar og hreint gímald þegar aftari sætaröðin er felld niður – verður að teljast að unnið sé með plássið eins og best verður á kosið í Volvo XC40.

Getiði hvað – frábær í akstri!

Þessi bíll lúkkar semsé að utan, hann virkar að innan og til að fullkomna þrennuna þá er þrælgaman að keyra hann. Frábær díselvélin skilar heilum 400 Nm í togi og bíður ekki boðanna þegar slegið er í klárinn. XC40 er firnasnarpur og svarar frábærlega á alla lund. Stýringin er hreint afbragð, hann bremsar nánast á punktinum og fjöðrunin er svo góð að ég man vart annað eins – hún er hreinasta hraðahindranaæta! Meira að segja hinir válegu vegakoddar sem yfirvöldum hefur þóknast að stinga niður hér og hvar hverfa hreinlega í yfirferðinni og er þá mikið sagt. Það eina sem mögulega má setja út á er að þegar bílnum er gefið rækilega inn þá virkar sjálfskiptingin stundum lítið eitt tvístígandi; eigum við að vinda okkur í næsta gír eða taka þennan upp í næsta þúsund snúninga? Tjah, seg þú mér.

Ég hef á tilfinningunni að þetta sé ekki vandamál með R-Design útfærsluna af XC40 og hlakka til að prófa hana. Þegar bílnum var hins vegar ekið á skynsamlegum hraða var skiptingin áreynslulaus og silkimjúk.

Allt í allt er Volvo XC40 fortakslaust með bestu bílunum í sínum flokki, þ.e. dýrari smájeppar, og verður ekki til annars en að bæta í meðbyrinn sem fyrirtækið nýtur nú þegar. Feilspor finnast einfaldlega ekki hjá Volvo um þessar mundir og það viðrar áfram vel í Volvo-landi.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »