Lipur og sportlegur Frakki

Undirritaður hefur átt nokkra bíla um ævina, og af misjöfnum gæðum. Sá fyrsti var Lada 1200, en að aka henni var ekki ósvipuð upplifun og að keyra gamla dráttarvél. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, en meðal þeirra bifreiða sem blaðamaður hefur borið gæfu til að umgangast síðan Ladan safnaðist á vit feðra sinna, eru þrír franskir bílar, tveir af Peugeot gerð og svo hinn einkar áhugaverði Citroën Picasso.

Hann upplifði ég á sínum tíma sem hálfgerðan strumpastrætó, enda var rými í bílnum gott fyrir alla, og hægt að spígspora á milli sæta án vandræða. Þá var hægt að taka aftursætin úr með einu handtaki og þar með var Picasso orðinn sendiferðabíll.

Franskir bílar eru rómaðir fyrir lipurð í akstri og það er nákvæmlega sú reynsla sem ég hef af þessum þremur frönsku bílum mínum. Samanburðurinn við Lada 1200 er amk. þeim sovéska ekki í hag, með fullri virðingu fyrir vel meinandi hönnuðum Lödunnar.

Þegar ég fékk nýjan Citroën C4 Cactus í hendur á dögunum og settist undir stýri helltust yfir mann ljúfar minningar frá „frönsku árunum“. Þegar aksturinn hófst fann ég strax sama lipurleikann í akstrinum og ég mundi eftir, stýrið var létt og næmt og fjöðrunin einkar skemmtileg á malbikinu, enda skilst mér að framleiðendur hafi lagt sérstaka natni í þann þátt í bílnum. Úti á holóttum malarvegi var hann ögn hastari, sem gæti tengst dekkjunum.

Ekki jafn „skrítinn“

En nú er rétt að spóla aðeins til baka og ræða aðeins ytra útlit bílsins. Citroën Cactus hefur hingað til vakið athygli fyrir plastfleti á ytra byrðinu, þar á meðal áberandi upphleypt svart mynstur á báðum hliðum. Þetta útlit höfðaði vafalaust til þeirra sem vildu ekki falla í fjöldann, og hugsuðu út fyrir boxið. Af einhverjum ástæðum, hefur Citroën nú dregið til muna úr hinu „skrítna“ útliti bílsins, þó að enn eimi eftir af þessum útlitseiginleikum. Þó má segja að bíllinn falli nú mun betur í fjöldann en áður, hvað sem fólki kann að finnast um það.

Bílnum verður nú best lýst sem sportlegum í útliti, með snoturt yfirbragð.

En hvernig er að umgangast Cactus og komast inn og út úr honum? Ég fékk til liðs við mig ungan hávaxinn mann, ríflega 190 cm á hæð, og hinsvegar eldri borgara í fínu formi, meðalmann á hæð. Báðir voru þeir ánægðir með hve auðvelt var að setjast inn í bílinn að framan, bæði í ökumannssætið, sem og í farþegasætið. Þegar í sætið var komið var hæðin síðan enn næg fyrir þá báða. Það segir ýmislegt um bílinn, því hann lendir frekar í flokki með bílum af smærri gerð en stærri.

Þegar maður sest í aftursætin er fótapláss þó mun takmarkaðra fyrir fullorðna einstaklinga, en rétt eins og fyrir framsætisfarþega, er nægt loftrými. Í aftursætinu eru sameinað handfang og geymsla fyrir smáluti í hurðum.

Sætin í bílnum eru stinn og fín, og gott að sitja í þeim. Krafturinn í bílnum, var þéttur og góður, en vélin er 110 hestöfl og það var sérlega ánægjulegt að gefa honum vel inn á völdum köflum úti á þjóðveginum.

Þrjóskur skjár

Bíllinn sem ég ók hafði ríkulegan staðalbúnað. Bakkmyndavélin skilaði sínu og fyllti mann trausti, og upplýsingaskjárinn og virknin í honum var margvísleg, en full flókinn. Það tók smá tíma að finna aksturstölvuna sem sýnir manni hve mikið eftir er af eldsneyti, og hverju hann er að eyða þá og þá stundina. Þá lét skjárinn ekki alveg nógu vel að stjórn og þurfti stundum að þrýsta nokkrum sinnum á valmyndirnar til hliðanna. Kannski reiknuðu hönnuðirnir ekki með hinum köldu íslensku sumrum.

Og talandi um upplýsingaskjái var það fyrsta sem ég tók eftir hve misráðið það er að hafa rautt letur og táknmyndir á svörtum bakgrunni. Þetta var allt í lagi þegar það var myrkur úti, eins og Hvalfjarðargöngunum, en um leið og komið var út í dagsljósið var erfitt að greina til dæmis bensínmælinn. Hjá þeim þar sem sjónin er farin að daprast gæti þetta verið enn bagalegra. Þá þótti mér skrýtið að þurfa að beygja mig niður til að sjá á hraðamælinn þegar ég keyrði með stýrið í efri stöðu, sem hentaði mér betur.

En útlitið að innan svíkur engan. Hlutir eins og leðurhanki til að loka framdyrum, stamir gúmmípunktar ofaná flötu hanskahólfi sem opnast upp í loft, og skyggður afturgluggi og skyggðir aftursætisgluggar. Einhverjir gætu sett út á að geta ekki rúllað niður gluggum aftur í. Einungis er boðið upp á smávægilega opnun með spennu, en þetta er víst gert til að létta bílinn, og gera hann þar með sparneytnari.

Gott útsýni fram en ekki aftur

Þar sem húddið er niðurhallandi, er einkar gott útsýni úr bílnum fram á veginn, þrátt fyrir að framrúðan sé fremur lítil. Þetta er mikill og góður kostur og gefur góða tilfinningu í akstri, sérstaklega þegar akstursskilyrði eru ekki eins og best verður á kosið. Speglarnir eru sömuleiðis góðir. Allt þetta gefur manni betra sjálfstraust. Útsýnið afturúr bílnum mætti þó vera betra, en bæði er glugginn lítill, höfuðpúðarnir byrgja sýn og glugginn er skyggður.

Ein golfferð í bílnum við annan mann upp á Akranes gaf góða raun. Sú staðreynd að Citroën hefur skipt aftursæti sem einungis var hægt að leggja niður í heilu lagi, út fyrir tvískipt aftursæti, kom vel út, og nokkuð auðvelt var að koma fyrir tveimur golfsettum með þessu móti, ásamt golfkerru. Samt hefði einn farþegi getað setið í aftursætinu. Í ferðinni kom glögglega í ljós hve bíllinn er vel einangraður, en veghljóðið var vel viðunandi.

Bíllinn drepur á sér á ljósum til að spara bensín, en hægt er að slökkva á þeirri virkni. Þá er hann með sjálfvirkri hraðastjórnun, og margs konar öðrum eiginleikum eins og gæjalegum raf-fellanlegum speglum, og innbyggðu leiðsögukerfi. Fyrir þá sem vilja nota Google Maps frekar en innbyggða kerfið, þá er auðvelt að koma farsímanum fyrir í sérstakri hillu í miðri innréttingunni, tengja hann í USB innstungu og fá hann þannig upp á aksturstölvuskjáinn.

Í stuttu máli er hér á ferðinni sportlegur bíll sem er þýður í akstri, og vel innréttaður á ágætu verði. Akstursupplifunin var góð, og satt að segja gæti ég alveg hugsað mér að eiga Citroën C4 Cactus.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: