Hondzilla!

Hondzilla rís upp úr malbikinu, til í að tæta í ...
Hondzilla rís upp úr malbikinu, til í að tæta í sig hvern þann sem á vegi hans verður.

Eftir langa bið leit nýr Honda NSX dagsins ljós árið 2016. Japanski bílarisinn hefur hlaðið bílinn nýjustu tækni og skapað framúrskarandi ökutæki á gjafverði miðað við aðra ofursportbíla.

Í stuttbuxum á leið til Fuji. Aka þarf pínlega hægt ...
Í stuttbuxum á leið til Fuji. Aka þarf pínlega hægt í Japan.


Fyrsta kynslóð NSX var framleidd frá 1990 til 2005 og var tímamótabíll á marga vegu; hann var fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn með yfirbygginguna alla úr áli og útlitið innblásið af orrustuþotu. Kappaksturshetjan Ayrton Senna veitti Honda ráðgjöf við smíði bílsins svo að úr varð framúrskarandi ökutæki sem þótti sameina áreiðanleikann sem japanskir bílasmiðir voru þá þegar orðnir þekktir fyrir, og aksturseiginleika dýrustu og bestu sportbíla Evrópu. Sagan segir að gamli NSX hafi fengið Ferrari til að taka sig á og stórauka hjá sér framleiðslugæðin.

Bílaheimurinn beið spenntur, og fékk að bíða lengi, eftir arftaka hins goðsagnakennda Honda NSX. Það var loks árið 2007 að Honda tilkynnti að nýr NSX væri væntanlegur á markað 2010 en svo leið og beið. Alþjóðlega fjármálakreppan setti strik í reikninginn svo að verkefninu var slegið á frest og ekki fyrr en 2012 að frumgerð af NSX kom fyrir sjónir almennings. Fyrstu bílarnir af nýju kynslóðinni voru ekki seldir fyrr en 2016.

Kröfuhörðustu gagnrýnendur vilja meina að nýja Honda NSX beri þess merki að hafa verið lengi að fæðast: að hugmyndin að baki bílnum sé ekki nægilega heilsteypt og að hann marki ekki jafn afgerandi tímamót í bílasögunni og fyrirrennarinn.

Sjálfur veit ég ekki hvað þessir gagnrýnendur eru að fara: Honda NSX er mergjaður bíll allt frá framljósum að púströri, og mesta synd hvernig þetta japanska undur hefur einhvern veginn náð að falla á milli þilja í bílaheiminum.

Rymur eins og súmókappi

Óargadýrið hvílir sig á plani japanskrar stórverslunar á meðan bærinn ...
Óargadýrið hvílir sig á plani japanskrar stórverslunar á meðan bærinn sefur. Honda hefur gert allt rétt í þetta skiptið.


Leiðin lá til Tókýó í maí og stóð ekki á Honda-mönnum að lána NSX í nokkra daga. Ég notaði tækifærið til að skjótast upp að fjallsrótum Fuji og heimsækja villtan og trylltan rússíbanagarð sem þar er að finna í bænum Fujyoshida. Nema hvað rússíbanareiðin byrjaði strax í Tókýó, þökk sé 500 hestafla vélinni, sem fer upp í allt að 573 hestöfl þegar rafmótorarnir hjálpa til.

Verður reyndar að segjast eins og er að japönsku hraðbrautirnar eru ekki besti staðurinn til að spana. Japanirnir virðast hafa haft íslenskar reglur til viðmiðunar þegar þeir ákváðu leyfilegan hámarkshraða á þjóðvegunum, og þó svo að skilti eigi að vara ökumenn við hraðamyndavélum þá eru skiltin á japönsku og gagnast því útlendingum lítið.

Að því sögðu þá var samt hægt að gefa bílnum inn hér og þar – þó ekki nema væri fyrir lesendur blaðsins – og þá fékk NSX hárin til að rísa. Það er merkilegt að vélin sé ekki aðeins sex strokka, því hún rymur eins og súmóglímukappi og lætur hvína fallega í forþjöppunum á meðan krafturinn lætur sitjanda og bak þjappast ofan í sætið.

Útlínurnar er erfitt að standast. Eins og hann gæti umbreyst ...
Útlínurnar er erfitt að standast. Eins og hann gæti umbreyst í róbóta á hverri stundu.


Ökumaður finnur það líka fljótlega hvað NSX er afskaplega þægilegur í akstri. Oft hafa ofursportbílar stressandi nærveru og eru afkáralegir í venjulegri borgar- og þjóðvegaumferð, en NSX fyllti mig sjálfstrausti, faðmaði mig með þægilegum sætunum og allt var nokkurn veginn eins og það á að vera: sýnileikinn góður í allar áttir, stýrið í réttri hæð, pláss fyrir langa leggi og háan koll á nærri 190 cm háum Íslendingi.

Svo, eins og nútímalegra sportbíla er siður, má láta NSX skipta um ham með því að snúa hnappi. Á sportstillingu stífnar hann allur upp, hreinlega hnyklar vöðvana, og vélin verður háværari. Skrímslið lætur á sér kræla. Hondzilla rís upp úr malbikinu, til í að tæta í sig hvern þann sem á vegi hans verður.

Ef hnappinum er snúið aftur á þægindastillingu verður bíllinn aftur mjúkur og prúður fyrir hversdagsakstur. Hann er líka svo vel hljóðeinangraður að tiltölulega lítið vegarhljóð berst inn í farþegarýmið, án þess samt að einangrunin kæfi óminn frá vélinni. Viltu hlusta á uppáhaldstónlistina frekar en hvininn í dekkjunum? Ekkert mál fyrir hreint ágæt hljómtækin í NSX.

NSX er eins og hnífur sem verkfræðingar Honda hafa fengið ...
NSX er eins og hnífur sem verkfræðingar Honda hafa fengið að slípa í áratug.


NSX er erfiður bíll að skrifa um, því það er svo fátt sem truflar. Sjálfskiptingin er leiftursnögg, rétt eins og vélin, og tæknimenn Honda hafa fullkomnað hugbúnaðinn í bílnum til að gera kappakstursbíl sem kallar ekki allt ömmu sína – þeir höfðu jú nægan tíma til þess.

Hann er meira að segja tiltölulega sparneytinn miðað við það sem vélin getur. Aðrar eins eldsneytistölur sjást ekki hjá öðrum sportbílum í sama flokki, s.s. Porsche 911 Turbo S, McLaren 570S eða Audi R8.

Verðmiðinn er líka hálfgerður brandari, miðað við hversu safaríkur bíll NSX er og reikna má með að kominn á götuna á Íslandi myndi Honda NSX kosta í kringum 35.000.000 kr.

Hvað segir hjartað?

Á sportstillingu stífnar hann allur upp.
Á sportstillingu stífnar hann allur upp.


NSX er tækniundur sem Honda hefur lagt alla þekkingu fyrirtækisins í og ekkert í bílnum sem hefur verið látið ráðast af tilviljun. Hver rauf og skrúfa þjónar úthugsuðum tilgangi, og á kappakstursbraut gætu fáir bílar staðist þessu japanska óargadýri snúning. Sumum finnst NSX meira að segja of fullkominn, vinna aðeins of mikið af vinnunni fyrir ökmanninn og ekki skapa sömu hráu tenginguna við malbikið og aðrir sportbílar.

Ég neita því ekki að ég varð meira en skotinn í Honda NSX þessa tvo daga sem við áttum saman. Sama gilti um marga vegfarendur sem gátu ekki staðist að smella mynd af bílnum. Að ganga upp að NSX þar sem hann bíður manns bílastæðinu fær hjartað til að slá örar, og það var tregablandin stund þegar ég þurfti að kveðja silfurlita drauminn á bílastæðinu undir Honda-höllinni í Tókýó.

Á sportstillingu hnyklar hann hreinlega vöðvana, og vélin verður háværari.
Á sportstillingu hnyklar hann hreinlega vöðvana, og vélin verður háværari.


Nema hvað skömmu áður en ég skilaði Hondunni renndi ég við á bensínstöð, þar sem nýbónaður Lamborghini Huracán Performante og McLaren 570S biðu eftir eigendum sínum, svona eins og von er á að gerist þegar fylla þarf á tankinn í einu af betri hverfum Tókyóborgar. Þó NSX kitli taugar djúpt í hjartanu, og hafi breytt því hvaða augum ég lít bílana frá Honda, þá skortir hann öfgarnar og rökleysuna – sem og geggjunina – sem hinir bílarnir á bensínstöðinni höfðu. Ef ég ætti að velja mér ofursportbíl í bílskúrinn þá myndi ég ekki velja NSX, en það væri gert með miklum semingi.

Skottið rúmar ekki mikið meira en íþróttatösku og góða skapið.
Skottið rúmar ekki mikið meira en íþróttatösku og góða skapið.
Skrímslið lætur á sér kræla.
Skrímslið lætur á sér kræla.
Skrímslið lætur á sér kræla.
Skrímslið lætur á sér kræla.
Skrímslið lætur á sér kræla.
Skrímslið lætur á sér kræla.
Skrímslið lætur á sér kræla.
Skrímslið lætur á sér kræla.
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »