Í jeppaleik í Frankfurt

Suzuki Jimny-smájepparnir hafa lengi verið vinsælir hér á landi, bæði meðal almennings og einnig hjá bílaleigum, enda er hægt að aka bílnum eins og greifi úti á vegi, en einnig böðlast á honum um torfærur sem hinn venjulegi fólksbíll kemst ekki yfir.

Í Frankfurt í Þýskalandi beið mín það skemmtilega verkefni nú á dögunum að verða á meðal fyrstu Íslendinganna til að aka nýrri kynslóð Jimny, þeirri fjórðu í röðinni, en 20 ár eru síðan þriðja kynslóðin var upphaflega kynnt til sögunnar. Myndir af bílnum á netinu gáfu til kynna að hann væri mikið breyttur frá fyrri útgáfu, sem jók spennuna fyrir akstrinum þeim mun meira. Satt að segja minnti bíllinn strax á G-Class eðal-Benzinn með sitt kassalaga útlit, eins og lesendur geta glöggvað sig á með því að skoða myndirnar hér á síðunum.

Jimnyinn hefur þrætt götur og krákustíga heimsins allt frá árinu 1970, þegar fyrstu bílarnir af þessari tegund komu á markaðinn, en síðan þá hafa selst um 2,85 milljón eintök af bílnum í 194 löndum. Þessi góða sala smájeppans sýnir glöggt hve vel hann hefur fallið í kramið allan þennan tíma, þrátt fyrir örar breytingar í tísku og tíðaranda.

Beið stífbónaður eftir blaðamönnum

Hitamælirinn í útjaðri Frankfurt sýndi 35 stig dagana sem prufuaksturinn fór fram, og allir viðstaddir bílablaðamenn því í sannkölluðu sólskinsskapi á fimm stjörnu hótelinu sem hýsti viðburðinn. Beint fyrir utan inngang hótelsins var búið að stilla einum stífbónuðum Jimny upp, og á stóra bílastæðinu biðu fagur-gulgrænir Jimny-arnir í röðum, skínandi fínir og tilbúnir fyrir blaðamennina, sem var nú farið að kitla allverulega í bensínfótinn.

Eftir að hafa fengið stutta kynningu frá starfsmönnum Suzuki, þar sem farið var nákvæmlega yfir akstursleiðina sem átti að fara, hve lengi við áttum að keyra á hraðbrautinni og hve lengi á sveitavegi, og útskýra fyrir okkur að á búgarði uppi í sveit myndum við svo skipta um bíl, eins og Ethan Hunt í Mission Impossible, þá var gengið fylktu liði út á bílastæði.

Jeppa-eiginleikar bílsins komu strax í ljós þegar sest var upp í bílstjórasætið. Bíllinn er smíðaður á grind, og maður fann hann vagga mjúklega undan þunga ökumanns og farþega. Eftir að hafa heilsað upp á aðstoðarkonuna í leiðsögukerfi bílsins, sem var búið að forrita fyrir mann svo maður týndist nú ekki á leiðinni, var ekið af stað. Út á hraðbrautina var haldið, en eins og menn geta svo sem gert sér í hugarlund, þá hafði Jimny ekki roð við öllum þeim BMW- og Benz-bílum sem þar þjóta um á 200 km hraða á klukkustund. Jimny er frekar léttur bíll, um eitt tonn á þyngd, og það var ekki laust við að hann feyktist aðeins til hliðar þegar ofurkaggarnir brunuðu á ljóshraða fram úr honum. Ég og samferðamaður minn í bílnum vorum sammála um að á 100-120 km hraða á klukkustund stæði Jimny sig bara prýðilega, en eftir því sem bensínfóturinn þyngdist, því órólegri varð maður. Meiri hraði en 120 er líka frekar ónauðsynlegur fyrir íslenskar aðstæður, þar sem hámarkshraði er víst eingöngu 90 km á klst. Í bílnum er ný og kraftmeiri 1,5 lítra bensínvél, sem fer betur með eldsneytið en fyrri útgáfa, og hægt er að skipta yfir í fjórhjóladrif á ferð, sem getur verið hentugt ef aðstæður á vegi breytast snögglega.

Rúðuopnari fannst ekki

Jimny er fjögurra manna bíll, nokkuð hrár að innan, þar sem víða sést í stálbyrðið. Að ytra byrði er hönnunin einföld og falleg, og í einu orði sagt þá svínlúkkar bíllinn! Innréttingin er smekkleg, og öllu haganlega komið fyrir, þar á meðal aksturstölvunni í miðjunni, þar sem útvarp, leiðsögukerfi og annað er að finna. Allir takkar eru snyrtilega staðsettir á afmörkuðum stöðum í innréttingunni, svo haganlega reyndar að maður átti í mestu vandræðum með að finna rúðuopnara, sem var ekki á sínum stað á hurðunum. Hann fannst að lokum í miðri innréttingunni fyrir framan gírstöngina. Þá er útsýni úr bílnum til mikillar fyrirmyndar.

Eftir að hafa ekið á hraðbrautinni og í gegnum nokkra smábæi í þýskri síðsumarstemningu beið manns nýr frumskógargrænn bíll á herragarðinum uppi í sveit. Þetta var bíllinn sem átti að skíta út og nota í torfærurnar.

Það er gaman að segja frá því hér í framhjáhlaupi að bíllinn verður boðinn í fimm mismunandi litum frá framleiðanda, auk þess sem hann kemur í þremur tvílitum. Hönnunarforsenda gulgræna bílsins var „öryggisvesti“ en hönnunarforsenda þess frumskógargræna var „veiðimenn og útivistarfólk“.

En aftur að akstrinum. Það má hrósa Suzuki-mönnum fyrir vel útfærða, þurra og blauta torfærubraut, þó að mér hafi hálfpartinn liðið á köflum eins og ég væri staddur í einhverjum Disney-skemmtigarði. Þetta var nú eftir allt saman bara „gervi“-akbraut. Veðrið var frábært, enginn lífsháski var í kortunum, en ég skemmti mér mjög vel.

Skrið- og stoppstilling

Eftir að hafa ekið í röð á eftir fremsta bíl, sem starfsmaður Suzuki ók og notaði talstöð til að leiðbeina ökumönnum í bílalestinni af mikilli nákvæmni, var komið inn í skóg. Smátt og smátt fór vegurinn að versna þar til þetta fór að verða verulega skemmtilegt og jeppalegt. Á meðal þeirra eiginleika sem leiðsögumaðurinn lét okkur prófa í þessari torfærubraut voru sérstaklega þrír hlutir. Notkun háa og lága drifsins, skriðstilling sem hægt er að setja bílinn í þegar farið er niður mikinn halla, þar sem bíllinn heldur sama hraða eins lengi og maður vill, og svo var það sá eiginleiki að bremsa í miðri brekku upp í móti og láta bílinn halda sér þar kjurrum. Allt þetta prófaði maður og virkaði vel. Engin torfæra var bílnum um megn, þó á köflum hafi hann verið næstum kominn á hliðina, sem jók eingöngu á skemmtigildi ferðarinnar.

Það er eiginlega óþarfi að minnast á það en ég geri það nú samt, þar sem Jimny er frekar einfaldur bíll, en Jimny er búinn sjálfvirkum hraðastilli (e. cruise control). Hann les hliðarlínur á götunni og lætur vita ef maður er farinn að skruna eitthvað úr akstursleið, auk þess sem hann kveikir og slekkur á háu ljósunum þegar hann mætir bíl. Þetta eru eiginleikar sem er að finna í mörgum bílum í dag, en maður býst ekkert endilega við þeim í Jimny.

Stresstaska í skottið

Í „skottið“ á Jimny kemst vart meira en ein stresstaska, en þegar sætin tvö eru lögð niður, verður plássið þokkalegt, eða 377 lítrar, auk þess sem búið er að færa afturljósin niður í stuðarann niðri sem skapar meira rými aftur í. Allt í allt er breidd skottsins 1,3 metrar. Einnig mætti sérstaklega minnast á þann eiginleika að auðveldlega er hægt að leggja sætin í bílnum þannig niður að hægt er að sofa ofan á þeim, sem gerir bílinn enn ferðavænni.

Ennfremur má nefna að ytra byrðið hefur verið hannað þannig að regn drýpur ekki á ökumann og farþega þegar stigið er út úr bílnum.

Í stuttu máli þá varð ég mjög skotinn í þessum bíl strax við fyrstu sýn, og sú hrifning átti ekkert eftir að dvína þegar á leið. Auk þess hefur bíllinn mikið notagildi. Verst að maður er ekki bóndi, eða útivistarfrík, en úr því má nú alltaf bæta.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »