Urrandi vél í fallegum umbúðum

Veloce er ítalska orðið yfir hraða og hafa kraftmeiri útgáfurnar frá Alfa Romeo hlotið þessa nafnbót í gegnum tíðina. Giulietta Veloce kom fyrst á markað erlendis árið 2016 en er núna í fyrsta sinn fáanleg hér á landi.

Ég hafði ekki mikla reynslu af Alfa Romeo áður en ég fékk Giulietta Veloce að láni hjá Ísband en vissi samt vel að það er einhver rómantískur blær yfir þessu ítalska merki, og margir lofa framleiðandann fyrir að smíða bíla sem bjóða upp á einstaka akstursupplifun. Um leið og ég sá Ölfuna fylltist ég spennu, langaði helst að setjast beint inn og keyra af stað inn í sólarlagið. Ég náði þó að stilla mig og gaf mér örlítinn tíma til að skoða bílinn betur, enda var klukkan ekki nema rúmlega 11 fyrir hádegi og ekkert sólarlag í vændum.

Einkennandi útlit

Þegar kemur að útlitshönnun hefur Alfa Romeo, eins og svo oft áður, hitt naglann beint á höfuðið. Framsvipurinn er sérstaklega vel heppnaður; þríhyrningslaga grillið er gullfallegt, ljósin falla einkar vel inn í heildarformið og öll smáatriði spila mjög vel saman, gefa bílnum fágaðan lúxusblæ en halda útlitinu samt sportlegu og vígalegu. Það eina sem ég set spurningarmerki við er staðsetningin á númeraplötunni, til hliðar við grillið. Það var reyndar ekki búið að festa númeraplötuna á bílinn sem ég fékk í hendurnar, heldur hafði henni verið komið fyrir í glugganum og verð ég að viðurkenna að mér þætti freistandi að hafa hana þar til frambúðar. Séð frá hlið er bíllinn kúptur og rennilegur en ekki jafn grípandi og ef horft er á hann að framan. Bakhlutinn skartar ágætlega digru útblástursröri að neðanverðu, eins og góðum sportbíl sæmir, og rauða röndin á stuðaranum bindur slaufu á öll herlegheitin, enda er samsvarandi rönd að framanverðu. Á heildina litið er Giulietta Veloce ákaflega laglegur bíll en framhlutinn stendur óneitanlega upp úr.

Af innanrýminu er svipaða sögu að segja; æpandi rauð leðursætin eru skemmtilega „sportuð“ og innréttingin smekkleg. Einkennislitirnir rauður og svartur eru hér í aðalhlutverki eins og sést glöggt á saumunum í stýrinu og gírstönginni. Skjárinn er þó frekar lítill, ekki nema 6,5 tommur, en sambærilegir bílar eru jafnan með töluvert stærri skjá. Ekki hefði þurft að breyta innréttingunni mikið til að hafa hann örlítið stærri, takkarnir sem stjórna miðstöðinni eru t.a.m. óþarflega fyrirferðarmiklir.

Erfðaefni þróað að akstri

Þegar ég hugðist ræsa bílinn ætlaði ég að leggja lyklana frá mér og ýta á „start“ takkann en komst að því ég þyrfti að ræsa bílinn á gamla mátann sem er óvenjulegt fyrir nýjan bíl í þessum verðflokki. Fyrir framan gírstöngina er valrofi fyrir akstursham og er um þrennt að velja; Dynamic, Natural og All Weather, eða „DNA“. D býður upp á meiri kraft, sem og næmara stýri og bremsur, N er hefðbundin akstursstilling og A stillingin tæklar erfið veðurskilyrði.

Í fyrstu notaðist ég við Natural-stillinguna og var bíllinn þægilegur, lipur og skemmtilegur í akstri. Eftir að hafa brugðið mér örlítið út fyrir bæjarmörkin skipti ég svo yfir í Dynamic og þá fyrst kynntist ég Giulietta Veloce. Hún lifnaði öll við, snúningsmælirinn tók kipp, vélin urraði og við þutum af stað. Mikið stuð, en bíllinn er ekkert sérstaklega sparneytinn og ekki erfitt að koma eyðslunni upp fyrir 8L/100 km í innanbæjarakstri, jafnvel í Natural-stillingu.

Hvar á síminn að vera?

Það fór vel um mig í akstrinum og framrýmið er rúmgott. Geymslupláss er þó af skornum skammti; glasahaldararnir litlir, hólfin í hurðunum fremur fátækleg og enginn augljós staður til að leggja símann frá sér. Aftur í er hins vegar þrengra um fólk og ég átti erfitt með að koma mér í þægilega stöðu fyrir aftan ökumannssætið eftir að hafa stillt það af. Væri eflaust óhentugt fyrir þrjár fullorðnar manneskjur í meðalhæð að sitja þar dægrin löng. Svo er skottið frekar lítið en alls ekki ónothæft, u.þ.b. 350 lítrar.

Þá galla sem ég hef talið upp hingað til finnst mér tiltölulega auðvelt að fyrirgefa en ég hef meiri áhyggjur af skorti á öryggisbúnaði, t.d. eru blindpunktsaðvörun og akreinaskynjari ekki til staðar. Ég á auðvelt með að ímynda mér að sumir, þó ekki undirritaður, gætu gleymt sér örlítið í akstrinum, einfaldlega vegna þess hversu gaman er að keyra þennan bíl. Nálægðarskynjararnir eru prýðilegir og skjár í mælaborðinu sýnir með ágætis nákvæmni hvar hættur í umhverfinu er að finna. Það má jafnvel segja að þeir séu óþarflega „varkárir“ því þegar Giuliettunni hafði verið lagt, jafnvel eftir að sett er í „park“, halda nemarnir áfram að vara mann við með tilheyrandi látum.

Á heildina litið er Giulietta Veloce þó stórskemmtilegur bíll og býr óneitanlega yfir ákveðnum sjarma, jafnvel þó beri á ákveðinni sérvisku á köflum, og þetta ökutæki henti ekki öllum. Fyrir fólk sem lítur einungis á bíla sem tæki til að komast frá A til B með sem skilvirkustum hætti er þetta hugsanlega ekki rétti valkosturinn, en fyrir okkur hin sem finnst akstursupplifunin sjálf skipta máli mæli ég sterklega með því að gefa honum séns. Ef ég ætti að velja mér bíl til að keyra hringveginn á væri Giulietta Veloce klárlega ofarlega á lista.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: