Kona sem kveða mun að

Kona er rennilegur og ber mörg augljós einkenni rafbíls, einkum …
Kona er rennilegur og ber mörg augljós einkenni rafbíls, einkum grillið sem tryggir sem minnsta loftmótstöðu. mbl.is/Árni Sæberg

Undir lok síðasta árs opnaði BL fyrir þann möguleika að fólk gæti skráð sig á biðlista eftir nýjasta rafbílnum úr smiðju Hyundai. Strax varð ljóst að um yrði að ræða meiri byltingu en fylgdi hinum mjúka Ioniq sem seldur hefur verið í útfærslum með þrenns konar aflrásum á síðustu árum.

Og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Tugir væntanlegra kaupenda skráðu sig á listann, jafnvel þótt þeir hefðu ekki átt þess kost að prófa bílinn með rafmagnsaflrásinni fyrirfram.

Nokkrar ástæður liggja væntanlega að baki áhuganum en þar hefur án nokkurs vafa spilað inn í það fyrirheit að verð bílsins yrði nærri 5 milljónum króna. Svipaða sögu er að segja af viðbrögðum markaðarins við Kia Niro Ev en sá bíll er á svipuðum slóðum hvað verðið varðar og stærð bílsins er einnig áþekk.

400 km á einni hleðslu

En verð og stærð duga ekki til ein og sér. Þá var sannarlega einnig áhrifaþáttur í vali fólks sú staðreynd að bíllinn sem í boði er hefur á að skipa 64 kWh-rafhlöðu sem tosar raundrægi hans mjög nærri 400 km markinu (og við bestu aðstæður jafnvel örlítið yfir). Það hefur einmitt setið í mörgum sem annars hefðu stigið skrefið til fulls, þegar drægi þeirra bíla sem í boði hafa verið, hefur staðið nærri 100 til 200 km en ekki hinu krítíska og dulsálræna drægi sem gefur fyrirheit um að hægt sé að komast frá Reykjavík til Akureyrar á einni hleðslu.

Þeir eru orðnir ótrúlega margir, hreinu rafbílarnir, sem ég hef ekið á síðustu árum og því er það sannarlega ekkert áhlaupsverk fyrir framleiðendur að draga fram eitthvað það sem raunverulega vekur fiðringinn sem maður fann þegar maður fyrst settist undir stýri á bíl sem líður nær hljóðlaust áfram og með því feiknaafli sem rafmótorar geta spýtt út í hjólabúnaðinn á undraskömmum tíma.

Vel búinn bíll

Og Kona líður nokkuð fyrir þetta. Sú staðreynd að það er ýmsum orðið hversdagsleg reynsla að aka rafbíl veldur því að framleiðendur verða að horfa til annarra þátta en aflrásarinnar sem slíkrar. Og það reynir Hyundai sannarlega þegar kemur að Premium-útgáfunni af Kona. Það eru litlu atriðin sem þar skipta máli. Og þar hefur BL tekið skynsamlega ákvörðun í því að bjóða aðeins Premium-útfærsluna hér á landi. Á sama tíma og það einfaldar innkaupin og eykur líkurnar á því að fyrirtækið fái marga bíla í sölu (framboðið er mjög takmarkað og flestallir markaðir sveltir af bílum af þessu tagi), þá styrkir það upplifun fólks sem er að stíga sín fyrstu skref á rafbílabrautinni að setjast upp í vel búinn bíl með ýmsum þeim tækniútfærslum sem fólk hefur ekki kynnst í öðrum og eldri bensín- og dísilbílum. Þar má nefna mjög góðan akreinavara, blindhornsviðvörun sem virkar sérdeilis vel, gagnvirkan hraðastilli sem virkar vel á þjóðveginum, ekki síst þegar umferð er mikil og annar einfaldari búnaður hjálpar til við aksturinn, s.s. fjarlægðarskynjarar að framan og aftan og afar skýr og góð bakkmyndavél.

Það er þó tvennt sem vekur helst eftirtekt í bílnum þegar sest er inn í hann. Annars vegar sérstakur sjónlínuskjár fremst í mælaborðinu framan við ökumanninn en hann lyftist upp þegar bíllinn er ræstur.

Þessi skjár, sem er glær, varpar með skýrum hætti fram upplýsingum um hraða bílsins, leiðsögn þar sem hún á við og eftir henni er óskað og viðvaranir sem tengjast akstrinum. Upplýsingagjöfin er sannarlega til fyrirmyndar en þarna hefði Hyundai sennilega átt að fara sömu leið og framleiðendur á borð við BMW og Volvo sem varpa þessum upplýsingum beint á rúðuna en ekki sérstakan plastskjá. Upplifunin af skjánum er því nokkuð „ódýr“ þótt hann geri mikið gagn.

Hitt atriðið sem strax vekur eftirtekt er búnaðurinn sem kemur í stað hinnar hefðbundnu gírstangar. Skipanir eru gefnar með takkaborði með hinu hefðbundna merkjamáli, P, D, R og N en takkarnir eru afar aðgengilegir og undirstrika að um hátæknibúnað er að ræða.

Þrír bílar í einum

Það verður einnig að lofsama Kona fyrir útfærslu hönnuðanna á tveimur atriðum. Annars vegar þær þrjár stillingar sem ákvarða kvikleika bílsins en á klassískan hátt eru útfærslurnar nefndar Eco, Comfort og Sport. Skilin milli þessara stillinga er mjög skýr. Á meðan Eco er skynsamleg stilling hvað varðar orkunýtingu þá er Sport-stillingin sú allra skemmtilegasta. En í þeirri stillingu er bíllinn hreinlega of kvikur fyrir hæga borgarumferð og þá getur verið betra að notast við Comfort eða Eco. Hitt atriðið sem vert er að nefna, og tengist fyrrnefndum stillingum, er rafmagnsbremsan í stýri bílsins. Þar er um að ræða tækni sem einnig er að finna í Ioniq en þegar maður kemst upp á lagið með að nota hana, til þess að hægja á bílnum þar sem það á við, t.d. þegar stöðva þarf við rautt ljós,án þess að stíga á hina hefðbundnu inngjöf, leiðir það til þess að það hleðst inn á rafhlöðu bílsins og „sportleg“ upplifun í akstrinum eykst talsvert. Það er ástæða til að hvetja fólk til að kynna sér þennan spræka bíl.

Hyundai Kona EV Premium

» Hestöfl 204

» Hámarkstork 395 Nm.

» Rafhlaða 64 kWh

» Drægi 449 km.

» Hröðun:7,6 sek. 0-100 km/klst.

» Hámarkshraði: 164 (km/klst)

» Framhjóladrifinn

» Eigin þyngd 1.685 kg.

» Farangursrými 332 (L)

» Mengunargildi: 0 C02 (g/km)

» Meðal rafnotkun 14,3 (Kwh/100 km)

» Verð frá 5.390 þúsund

Innanstokkur er einfaldur og aðgengilegur fyrir ökumann og farþega.
Innanstokkur er einfaldur og aðgengilegur fyrir ökumann og farþega. mbl.is/Árni Sæberg
Skottplássið, sem er ekki mikið, má drýgja með því að …
Skottplássið, sem er ekki mikið, má drýgja með því að fella niður aftursætin. mbl.is/Árni Sæberg
Stjórnborð bílsins er aðgengilegt. Þar undirstrikar að þetta er rafbíll.
Stjórnborð bílsins er aðgengilegt. Þar undirstrikar að þetta er rafbíll. mbl.is/Árni Sæberg
Kona sver sig útlitslega nokkuð í ætt við Tuscon-jeppann og …
Kona sver sig útlitslega nokkuð í ætt við Tuscon-jeppann og i40 wagon. Hann er sambland ólíkra bíla. mbl.is/Árni Sæberg
Mælaborðið er aðgengilegt en tekur breytingum eftir því hvort bíllinn …
Mælaborðið er aðgengilegt en tekur breytingum eftir því hvort bíllinn er í sport-, eco- eða comfort-stillingunni. mbl.is/Árni Sæberg
Upplýsingaskjárinn er aðgengilegur og 8 tommur.
Upplýsingaskjárinn er aðgengilegur og 8 tommur. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: