Skrúfað alveg frá adrenalín-krananum

Radical er keppnisbíll sem á engan sinn líka.
Radical er keppnisbíll sem á engan sinn líka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það kemur fyrir, sárasjaldan þó, að reynsluakstur hefur djúpstæð áhrif á mig og breytir því hvernig ég hugsa um bifreiðar. Af þessum sjaldgæfu tilfellum má nefna þegar ég prófaði Caterham 7 í nokkra daga í London og nágrenni; fékk Hondu NSX að láni yfir helgi í Japan; og varði degi í félagsskap Rolls-Royce Dawn í suðurhluta Bretlands. Upplifunin kemur mér jafnan í opna skjöldu og lifir með mér lengi á eftir.

Í lok mars lagði ég af stað til Spánar til að verja einni helgi á Ascari-kappakstursbrautinni rétt norðvestan við Malaga til að prófa Radical-kappakstursbíl. Nokkrum vikum áður hafði ég aldrei heyrt minnst á Radical, og seint hefði mig grunað að ég ætti eftir að snúa heim úr þessu ferðalagi breyttur maður.

Þannig er að ég hef lengi leitað að hinum fullkomna bíl: einu ökutæki sem hakar við öll boxin. Þessi fullkomni bíll er vitaskuld eintóm fantasía, og á litlum lista í kollinum á mér hafa drossíur og ofursportbílar sem kosta á við íbúð eða einbýlishús slegist um að fylla þetta eina lausa stæði í draumabílskúrnum. Stundum er það Dawn sem situr í stæðinu, enda blandar hann saman lúxus, glamúr, krafti og hæfilega miklu notagildi. Aðra daga trónir Lamborghini Huracán efst á óskalistanum, fyrir það hvað hann er hraðskreiður, djarfur, töffaralegur, geislandi af ítalskri lífsgleði og með vélarhljóð sem fær hárin til að rísa. Í draumórunum fer ég á Huracáninum nokkra skemmtilega hringi á kappakstursbraut, renni svo við í stórmarkaði til að gera helgarinnkaupin, og held því næst af stað í nokkurra daga þjóðvegaleiðangur og stelst til að spana aðeins of hratt þegar aðstæður leyfa.

En núna átta ég mig á að það gengur ekki að hafa aðeins eitt stæði í draumabílskúrnum. Að það er álíka mikið vit í því að reyna að velja einn fullkominn bíl, og það er að reyna að finna eina flík sem hentar jafnt til að hlaupa maraþon, bruna niður skíðabrekkur og fara á Wagnerfestival í Bayreuth. Að velja einn bíl sem á að geta allt er ekki sniðugt, því það er ávísun á að þurfa að gera málamiðlanir frekar en að njóta akstursupplifunar í efstastigi.

Það þurfa að vera a.m.k. tveir bílar í draumabílskúrnum, og annar þeirra er Radical.

Blaðamaður með Radical SR8 á Ascari brautinni.
Blaðamaður með Radical SR8 á Ascari brautinni.

Mikill hraði fyrir peninginn

Sennilega þarf að kynna Radical fyrir flestum lesendum. Um er að ræða ungt breskt fyrirtæki, stofnað 1997 í kringum þá hugmynd að bjóða frístunda-kappakstursfólki upp á öflugan og lipran bíl fyrir brautina sem væri samt ekki óhóflega dýr í rekstri. Útkoman varð stórmerkilegt lítið tveggja sæta ökutæki sem er skjótara en flestir ofursportbílar, liggur eins og límt við veginn og skýst inn í beygjurnar alveg áreynslulaust.

Í dag eru sjö tegundir í boði hjá Radical. Minnstur er SR1 sem kalla mætti framúrskarandi byrjendabíl; opið og tiltölulega ódýrt leikfang, sem lendir einhvers staðar miðja vegu á milli go-kart og Formúlu 1. Efst situr RXC GT; 650 hestafla og 1.130 kg koltrefjaskrímsli sem tæknilega séð má aka á vegum úti þó hann komist kannski ekki rispulaust yfir hæstu hraðahindranir, þrátt fyrir stillanlega veghæð.

SR1 kostar nýr 44.500 pund fyrir skatta, og fylgir þá með tveggja daga akstursþjálfun, kappakstursskírteini, alklæðnaður og keppnisgjöld í Radical-mótaröð fyrir áhugamenn. RXC GT kostar rétt undir 100.000 pundum fyrir skatta.

Á Ascari-brautinni varði ég mestum tíma með SR8, sem lendir n.v. miðja vegu milli minnsta bróður og stærsta bróður, með 411 hestafla vél og 2,8 sekúndur í hundraðið, en á kappastursbrautinni í Kapelluhrauni hugsa ég að SR1 og SR3 eigi betur við eins og staðan er í dag.

Farþegasætið kemur sér vel s.s. til að fá leiðsögn þjálfara …
Farþegasætið kemur sér vel s.s. til að fá leiðsögn þjálfara í akstri eða leyfa vini að upplifa hraðann.

Kaflaskil í íslenskum akstursíþróttum

Radical opnaði á dögunum útibú á Íslandi og er það Baldur Björnsson sem stendur að verkefninu. Baldur er forfallinn frístunda-kappakstursmaður og vonast til að með komu Radical skapist nýir möguleikar á íslensku akstursíþróttasenunni sem byggist nú hratt upp þessi misserin eftir opnun hringakstursbrautar Kvartmíluklúbbsins í Hafnarfirði. Það gefur kannski einhverja hugmynd um hvers konar tímamót Radical kann að marka, að í fyrstu atlögu setti Radical SR1 brautarmet á hringakstursbrautinni.

Verða nokkrir bílar teknir inn í fyrstu og áhugasamir munu geta fengið að spana á hringakstursbrautinni á SR1 gegn vægu gjaldi, hvort heldur á hópeflisdegi með vinnufélögunum, í æfingarakstri eða keppni, nú eða einfaldlega til að gera sér dagamun og fá að upplifa kraftinn og aksturseiginleikana. Gangi vel er ekki ósennilegt að smám saman verði til nægilega stór hópur Radical-eigenda á Íslandi til að megi setja af stað mótaröð en umboðið verður með kynningu fyrir áhugasama á hringakstursbrautinni um næstu helgi.

Minni gerðirnar af Radical, SR1, SR3 og SR8, kosta sitt, en ættu samt að vera vel á færi margra þeirra sem geta í dag látið eftir sér kaup á þýskum sportbílum af dýrari gerðinni og munar þar ekki síst um að rekstrar- og viðgerðarkostnaður Radical-bíla er hóflegur fyrir önnur eins brautarskrímsli, og þarf ekki heilt teymi af bifvélavirkjum til að halda þeim í horfinu. Þá virðast Radical-bílar halda virði sínu vel, og þó gera megi góð kaup í notuðum bíl er eins og afföllin fylgi allt öðrum reglum hjá Radical en hjá venjulegum framleiðendum.

Ökumaður og bíll renna fljótlega saman í eitt, og þjóta …
Ökumaður og bíll renna fljótlega saman í eitt, og þjóta yfir landslagið.

Eins og hugur manns

Ekki er hægt að dæma Radical eins og aðra bíla. Upplifunin er af allt öðrum toga, og í senn hrá og krefjandi, innileg og gefandi. Ökumaður er ekki lengi að finna algjöra tengingu við bílinn, og eins og skrúfað sé frá adrenalín-krana þegar stigið er hvort heldur á bensíngjöf eða bremsu. Getu SR8 hefur verið líkt við bíla í LMP-flokki Le Mans og það er hreinlega andleg upplifun að þjóta um brautina: finna hvernig bíllinn hvorki hjálpar né hamlar, heldur gerir nákvæmlega eins og honum er sagt. Hafa þeir sem til þekkja einmitt lýst Radical-bílunum þannig að þeir geri fólk að betri bílstjórum, því engin flókin tölvukerfi og annar búnaður bætir upp mistök í akstri.

Það er samt alls ekki erfitt að aka Radical, og hvort sem það var á bak við stýrið á SR1 eða SR8 voru það aðallega taugarnar sem réðu því hversu hratt ég treysti mér til að bruna inn í beygjur. Mesta kúnstin var, líkt og á við um aðra alvöru keppnisbrautarbíla, að halda af stað úr kyrrstöðu án þess að vélin dræpi á sér.

Upplifuninni verður annars varla lýst með orðum. Það er eins og einhverjar stöðvar djúpt inni í heilanum virkist á bak við stýrið á svona tæki. Er helst að það að aka Radical sé eins og blanda af jóga og rússíbana: Hraðinn er algjör, en um leið færist smám saman einhver ró yfir hugann með hverri bugðunni og beygjunni sem bíllinn rennur inn í alveg eins og maður hafði ætlað sér. Í lok hvers hrings langar ökumann ekki að hætta, heldur fara annan hring, og svo annan – hleypa klárnum þar til ýmist tankurinn tæmist eða vöðvarnir í líkamanum þurfa hvíld frá þyngdarkröftunum sem toga í hverri beygju.

Í Radical er maður hinn alsæli nafli alheimsins og vill hvergi annars staðar vera. Og það skrifar bílablaðamaður sem reynir alla jafna að vara sig á oflofi í reynsluakstursgreinum.

Græna ljósið logar og ekki eftir neinu að bíða.
Græna ljósið logar og ekki eftir neinu að bíða.

Mikið fyrir peninginn

Radical er alls ekki eini framleiðandinn sem smíðar bíla fyrir frístunda-kappakstursfólk en er sennilega sniðugasti kosturinn. Við höfum Caterham, sem gerir skemmtilega bíla sem duga mjög vel í innanbæjarakstri og eru tiltölulega ódýrir að kaupa og halda við, en þar er kappakstursupplifunin ekki nándar nærri jafn hamslaus og í Radical. Einnig eru til leikföng á borð við Ariel Atom, KTM X-Bow, Lotus 2-Eleven og hinn gullfallegi BAC Mono sem gjalda ýmist fyrir það að gera of miklar málamiðlanir fyrir notkun á almennum vegum, eða kosta of mikið. Fyrir BAC Mono, snotur sem hann er, þarf t.d. að reiða fram 125.000 pund fyrir skatt (nærri 20 milljónir króna) og X-bow kostar ekki mikið minna. Þá held ég, að fyrrnefndum bílum ólöstuðum, að akstursupplifunin sé varla sú sama. Í Radical vantar ekki nema hársbreidd í formúlu-bíl.

En svo verður líka að taka rekstrarkostnaðinn með í reikninginn. Ef ökumaður er lafhræddur við að þurfa að slá lán hjá bankanum ef eitthvað brotnar, þá heldur hann meira aftur að sér á kappakstursbrautinni. Það er ekki ókeypis ef eitthvað gefur sig þegar farið er of geyst svo að Radical rennur út af brautinni, en ekki þarf að veðsetja heimilið til að skipta um eða sjóða aftur saman það sem gaf sig.

Það er líka hér sem við komum aftur að hugmyndinni um að hafa fleiri en einn bíl í draumabílskúrnum. Það er nefnilega ekkert sérstaklega sniðugt að fara reglulega með forláta Porsche, Ferrari eða sportlegan Golf R á kappakstursbraut. Vissulega er gaman að aka greitt á sportbílum sem hafa kröftugar vélar og láta vel að stjórn, en hætt við að þeir láti á sjá og hver viðbótarhringur verði dýr þegar upp er staðið. Er allt annað að skipta um bremsur eða fjöðrun á Radical en á 911 GT2 RS.

Framleiðandi Radical fór þá leið að nota i hann vél …
Framleiðandi Radical fór þá leið að nota i hann vél sem upphaflega var hönnuð fyrir mótorhjól.

Uppáhaldsleikfélaginn

Það þarf mikið til að snúa bílafantasíum á hvolf. Ef ég væri aflögufær myndi ég ekki geta hugsað mér betri leið til að nota eins og 7-10 milljónir króna en að fjárfesta í Radical SR1 eða SR8, og leika mér úti í Kapelluhrauni – eða jafnvel úti á Ascari-brautinni í góða veðrinu á Spáni – hvenær sem tækifæri gæfist. Spurningin er þá bara hvaða bíll fær að vera í hinu stæðinu í draumabílskúrnum, og hvort það myndi ganga að hengja dráttarkúlu á Huracán eða Dawn til að koma Radical-kerrunni út á kappakstursbraut.

Fimm punkta belti tryggir að ökumaður bifast ekki úr stað.
Fimm punkta belti tryggir að ökumaður bifast ekki úr stað.
Ascari brautin er að margra mati ein skemmtilegasta kappakstursbraut sem …
Ascari brautin er að margra mati ein skemmtilegasta kappakstursbraut sem finna má.
Hver lína á Radical er til þess gerð að auka …
Hver lína á Radical er til þess gerð að auka hraða og bæta grip.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: