Praktískari en margir bílar sömu stærðar

Grænblár liturinn vakti svo sannarlega athygli á samfélagsmiðlum og hverfur …
Grænblár liturinn vakti svo sannarlega athygli á samfélagsmiðlum og hverfur seint í fjöldann í bílastæðahúsi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maður veltir stundum fyrir sér hvort fólksbílar séu að deyja drottni sínum, nú þegar bílaframleiðendur keppast við að setja á markað jepplinga sem dansa á grensunni við það að vera smábílar með mikilmennskubrjálæði.

T Cross er innlegg Volkswagen í þennan flokk, byggður á sama grunni og VW Polo, en er hærri, lengri og rúmbetri. T Crossinn er þó ekki, eins og stundum vill verða, einhverskonar unglingsútgáfa af Polo, í miðjum vaxtarkipp og einkennilegum hlutföllum, heldur hefur Volkswagen náð að skapa honum sjálfstætt útlit og tekist vel til.

Snjallar lausnir í farangursrými

Fyrir bíl af þessari stærð stendur T Cross sig vel í akstri. Hann er þéttur og stöðugur þrátt fyrir aukna hæð, sem veitir líka góða sætisstöðu fyrir ökumann og prýðilegt útsýni yfir veginn. Hér er kannski ekki boðið upp á neina flugeldasýningu, en allt eins og það á að vera. Sjálfskiptingin var kannski full skynsöm fyrir minn smekk, snögg að skipta upp í hærri gír en alls ekki jafn viljug til að gíra niður þegar manni fannst vanta meira fútt. Öryggisbúnaður í staðalútgáfunni er veglegur, svo sem framskynjari, neyðarhemlun, og akreinavari. Þá er eCall neyðarkallskerfi, sem kemur upplýsingum sjálfkrafa til neyðarþjónustuaðila ef slys verður.

Innandyra er nægt rými og ætti að geta farið vel um að minnsta kosti tvo fullorðna farþega í aftursætinu. Það er fullmikið um hart plast í innréttingunni, en sætin eru þægileg, upplýsingakerfið gott, þráðlaus hleðsla er fyrir farsíma og sjaldséður möguleiki á geislaspilara. Það sem gerir T Cross praktískari en marga bíla svipaðrar stærðar er ákveðinn sveigjanleiki í farangurs- og farþegarými. Til að auka farangursrýmið er hægt að renna aftursætunum til og fella þau saman, og möguleiki er á að fella niður sætisbak farþegasætisins fram í. Með góðum vilja ætti að vera hægt að koma flestu því fyrir sem manni á annað borð dettur í hug að flytja í fólksbíl, og allavega öllu sem meðalfjölskyldan þarf í útilegu.

Litadýrðin heillar

Það er sjaldnast mikið út á nútímabíla að setja. Þetta rifjaðist upp fyrir mér á dögunum, í taugatrekkjandi en áhugaverðum bíltúr á '86 árgerð af Skoda. Hann virtist vera með sjálfstæðan vilja, það var allur gangur á því hvort mælar virkuðu og hurðir og hanskahólf áttu það til að opnast í akstri. Þó bílar nú til dags séu vissulega með ólíkan karakter og eiginleika, eru þeir í grunninn flestir frambærilegir, sem útskýrir kannski af hverju framleiðendur virðast í auknum mæli nota innvols og útlit til að heilla kaupendur. Og T-Cross ætti að höfða til þeirra sem vilja að bíllinn sjatteri við fataskápinn. Þrír hönnunarpakkar eru í boði sem aukabúnaður: Black, Bamboo Garden Green og Energetic Orange, sem skilar manni til dæmis appelsínugulum felgum, miðstokk og hurðaklæðningum. Reynsluakstursbíllinn var á óræðum mörkum þess að vera grænblár og blár. Ég er ekki enn búin að gera upp við mig hvað mér finnst, en lausleg könnun í instagram-sögunni minni leiddi í ljós afskaplega skiptar skoðanir um litinn, sem fólk virtist ýmist elska eða hata af ástríðu. Hvað sem öðru líður eru engar líkur á því að maður týni honum á bílastæði.

Nýr VW T-Cross

» 1,0 l bensín

» 115 hö/200 Nm

» Sjálfskiptur DSG7

»4,9l/100 km

» 0-100 á 10,2 sek.

» Hámarkshraði 193 km/klst

» Framhjóladrifinn

» Dekk 205/60 R16

» Þyngd 1.270 kg

» Farangursrými 385 til 1281 l

» Koltvísýringslosun 111g/km

» Verð frá 2.990.000 kr.

Nýr T-Cross
Nýr T-Cross mbl.is/Kristinn Magnússon
T Crossinn er ekki, eins og stundum vill verða, einhverskonar …
T Crossinn er ekki, eins og stundum vill verða, einhverskonar unglingsútgáfa af Polo, í miðjum vaxtarkipp og einkennilegum hlutföllum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nýr VW T-Cross
Nýr VW T-Cross mbl.is/Kristinn Magnússon
Fella má niður aftursætin og einnig bak farþegasætisins frammí
Fella má niður aftursætin og einnig bak farþegasætisins frammí
T-Cross byggir á grunni Polo en er stærri og rúmbetri …
T-Cross byggir á grunni Polo en er stærri og rúmbetri sem því nemur. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nýr VW T-Cross
Nýr VW T-Cross
Nýr VW T-Cross
Nýr VW T-Cross Kristinn Magnússon
Nýr VW T-Cross
Nýr VW T-Cross
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »