Dreki með sterka nærveru

Oft eru blæjubílar mis-fallegir eftir því hvort þakið er opið …
Oft eru blæjubílar mis-fallegir eftir því hvort þakið er opið eða lokað. Það á ekki við um blæju-Áttuna frá BMW. Liturinn, Dravit Grey, kallar á sérstaka umfjöllun því hann virðist í senn mattur og glansandi, eftir birtuskilyrðum. Ljósmyndir/Ásgeir Ingvarsson

Ég hef lengi verið veikur fyrir bílum sem eru í senn stórir og sportlegir. Þeir blanda saman kraftalegu útliti, ágætis hraða og snerpu, og notagildi – rúma nokkrar töskur eða innkaupapoka og fórna ekki aftursætunum.

Held ég hafi komist endanlega á þessa skoðun þegar ég sá, fyrir nokkrum árum, bandarískum Mustang lagt við hliðina á ítölskum Ferrari fyrir framan verslunarmiðstöð í Istanbúl. Þó að hann væri langtum dýrari og sneggri bíll, þá virtist sá ítalski ósköp væskilslegur við hliðina á vöðvastæltum Fordinum.

Þegar fyrstu myndir birtust af nýjum BMW 8 varð ég því að vonum spenntur. Þarna hlaut hann loksins að vera kominn, bíllinn fyrir mig. Töffaralegur dreki; stærri og praktískari en litli tveggja sæta Z4, án þess samt að vera eins forstjóra- eða ráðherrabílslegur og Sjöan eða Fimman. Nýr kyndilberi fyrir Áttu-línuna, sem fyrst kom fyrir sjónir heimsins í Frankfurt árið 1989 og var tímamótabíll á svo marga vegu, með tólf strokka V12-vél og sex-gíra beinskiptingu, og hrikalega fallegur frá öllum sjónarhornum. Hvílík arfleifð! Svo eiga bílarnir sem þeir hanna í München mjög vel við mig; virðast smíðaðir fyrir hávaxna og leggjalanga ökumenn og með viðbragð og viðmót sem mér líkar svo vel.

Skiljanlega var ég fullur tilhlökkunar þegar tækifæri bauðst til að fá BMW 8 að láni í Stokkhólmi, og það meira að segja M-útgáfu með blæju og öllu tilheyrandi. Um leið og komið var út á sænsku hraðbrautirnar hugsaði með mér hvers lags kjáni ég væri: þessum bíl ætti miklu frekar að aka á heimaslóðunum, og sleppa lausum á þýskum hraðbrautum. Sænsk stjórnvöld eru nefnilega einstaklega dugleg við að setja upp hraðamyndavélar, og á vegunum umhverfis Stokkhólm vogar enginn maður sér að fara hársbreidd yfir löglegan hámarkshraða.

Góður en ekki gallalaus

Mér þykir afskaplega leitt að ég skuli ekki geta skrifað langa lofræðu um nýju áttuna, en þegar ég fékk loksins að kynnast þessum draumaprinsi eftir að hafa dáðst að honum úr fjarlægð í langan tíma rann upp fyrir mér að hann er ekki alveg mín týpa. Eins og stundum gerist á stefnumótum lítur allt vel út á pappír, en neistinn kviknar ekki sama þó að allir skemmti sér vel og ekki sé yfir neinu að kvarta.

Jú, allt þetta venjulega góða frá BMW er á sínum stað. Leiðsögukerfið og framrúðuskjárinn með því allra besta sem finna má á markaðinum í dag; útlitið óaðfinnanlegt jafnt að innan sem utan, og viðbragðið alveg eins og það á að vera í M-útgáfu. Með blæju verður Áttan ennþá fallegri og leitun að betra dæmi um þá glæsilegu en jafnframt hæfilega lágstemmdu hönnun sem einkennir bestu bifreiðarnar frá Þýskalandi. Hann hefur óneitanlega sterka nærveru.

Samt náðum við ekki alveg saman. Kannski var það vélarhljóðið; M8 hefur ekki hátt, en þegar vélin er sett í sport-ham fnæsir hún út um púströrið með látum sem virkuðu ekki traustvekjandi á mig. Ef til vill var það leiðsögukerfið sem gerði mig svolítið órólegan því það staðsetti bílinn ekki alveg nógu vel inni í miðborg Stokkhólms svo að skeikaði sennilega 20 metrum. Þeir sem reynt hafa vita að það er ekkert grín að saka um Stokkhólm, og allt annað en fyndinn brandari að misreikna sig lítilsháttar og fá svo senda í pósti rándýra mynd úr nálægri umferðareftirlitsvél. Virtist jafnvel á köflum eins og stefnumótið mitt væri að reyna að láta mig fá sekt, því tölvubúnaðurinn um borð virtist ekki þekkja sænsku 30 km/klst merkin, sem eru blá og ferhyrnd. Reyndi bíllinn að láta mig halda að óhætt væri að aka um á 50 km/klst. þar sem það er kolbannað.

Hann er stór, en þar sem hann beygir bæði með bæði fram- og afturhjólum þá virkar BMW 8 ekki fyrirferðarmikill í þröngum bílastæðum og hliðargötum. Þrátt fyrir stærðina eru aftursætin samt svo lítil að þar er varla hægt að bjóða nema smábörnum að sitja og blæjan étur upp svo mikið pláss í skottinu að með þakið opið mætti með herkjum koma þar fyrir eins og tveimur flugfreyjutöskum.

Til að bæta við nöldrið, þá kom bensíneyðslan mér á óvart á annars stuttum og mjög varfærnislegum bíltúr rétt út fyrir bæinn. Samt vildi bíllinn allt fyrir mig gera, og m.a. búinn fullkomnum sjálfstýringarbúnaði sem gat séð hjálparlaust um aksturinn úti á hraðbrautunum.

Vert að skoða aðra möguleika

Myndi ég kvarta ef það yrði hlutskipti mitt í lífinu að aka BMW M850i blæjubíl ævina á enda? Nei, svo sem ekki. Þeir sem kunna að meta allt það besta frá BMW fá það í þessum bíl, og finna líklega lítinn mun í daglegum akstri ef M-týpunni er skipt fyrir venjulega bensín- eða dísilútgáfu sem ætti að vera ódýrara að eignast og aka. Ég ferðast líka létt og sýni hófsemi í innkaupum, svo að skortur á plássi í skottinu truflar mig lítið.

En fyrir sama verð myndi ég skoða aðra valkosti. Óvíst er hvort einn einasti bíll þessarar gerðar verði nokkurn tíma fluttur inn til landsins, en þau hjá BL áætluðu fyrir mig að BMW M8 myndi kosta frá 28 milljónum króna kominn á götuna á Íslandi, og hægt að fá áhugaverða bíla fyrir töluvert lægri upphæð – eða fara upp í allt annan klassa fyrir ögn meiri pening.

Þannig ætti ekki að vera svo mikið dýrara að eignast nýja Bentley Continental GT. Ég fékk að prófa gamla Continentalinn í Speed-útgáfu árið 2016, og var það akstursupplifun af allt öðrum toga – og feikinóg pláss í skottinu þrátt fyrir að sá bíll hafi líka verið með blæju. Svo mætti skoða valkosti á borð við rafmagnsbílinn Porsche Taycan, sem frumsýndur var fyrr í mánuðinum og kemur von bráðar til landsins. Af umsögnum að dæma slær sá bíll hvergi af í krafti og sportlegum aksturseiginleikum, en með álíka gott pláss fyrir farþega og farangur og Panameran. Verð Taycan er á reiki en ekki ólíklegt að hann verði helmingi ódýrari á Íslandi en BMW M8.

En svo er ég líka farinn að hallast að þeirri skoðun, með aldrinum, að akstursupplifun eigi að vera í efsta stigi. Frekar en að fara meðalveg krafts og notagildis ætti að velja öfgarnar í aðra hvora áttina. Ef maður á annað borð getur ekki notað aftursætin, og skottið rúmar tvær handfarangurstöskur með herkjum, hví ekki að fara alla leið og splæsa á Lamborghini Huracán?

Með blæjuna niðri er varla hægt að koma tveimur handfarangurstöskum …
Með blæjuna niðri er varla hægt að koma tveimur handfarangurstöskum í skottið.
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. …
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. Um það verður ekki deilt. Hann skortir samt notagildi, miðað við stærð, og t.d. sama sem ekkert pláss í aftursætunum.
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. …
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. Um það verður ekki deilt. Hann skortir samt notagildi, miðað við stærð, og t.d. sama sem ekkert pláss í aftursætunum.
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. …
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. Um það verður ekki deilt. Hann skortir samt notagildi, miðað við stærð, og t.d. sama sem ekkert pláss í aftursætunum.
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. …
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. Um það verður ekki deilt. Hann skortir samt notagildi, miðað við stærð, og t.d. sama sem ekkert pláss í aftursætunum.
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. …
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. Um það verður ekki deilt. Hann skortir samt notagildi, miðað við stærð, og t.d. sama sem ekkert pláss í aftursætunum.
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. …
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. Um það verður ekki deilt. Hann skortir samt notagildi, miðað við stærð, og t.d. sama sem ekkert pláss í aftursætunum.
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. …
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. Um það verður ekki deilt. Hann skortir samt notagildi, miðað við stærð, og t.d. sama sem ekkert pláss í aftursætunum.
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. …
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. Um það verður ekki deilt. Hann skortir samt notagildi, miðað við stærð, og t.d. sama sem ekkert pláss í aftursætunum.
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. …
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. Um það verður ekki deilt. Hann skortir samt notagildi, miðað við stærð, og t.d. sama sem ekkert pláss í aftursætunum.
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. …
Hönnuðum BMW hefur tekist að búa til ofboðslega fallegan bíl. Um það verður ekki deilt. Hann skortir samt notagildi, miðað við stærð, og t.d. sama sem ekkert pláss í aftursætunum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »