Einfaldur og þægilegur rafmagnaður ferðafélagi

„Hraði og viðbragðsflýtir var mjög viðunandi og öll nútímaöryggiskerfi sömuleiðis …
„Hraði og viðbragðsflýtir var mjög viðunandi og öll nútímaöryggiskerfi sömuleiðis til staðar, eins og akstursvari í hliðarspeglum, veglínuskynjari, bakkmyndavél, og þess háttar.“ mbl.is/​Hari

Rafmagnsbílar hafa verið fyrirferðarmiklir í umræðunni síðustu misseri, enda leika um þá jákvæðir og hlýir straumar hvernig sem á er litið. Ekki er nóg með að þeir séu umhverfisvænir í akstri heldur eru þeir ótrúlega ódýrir í rekstri, a.m.k. miðað við hinn hefðbundna bensínbíl.

Þá verða þeir sífellt langdrægari og þægilegri í meðförum. Það var því sérstaklega ánægulegt að fá loksins tækifæri til að setjast bak við stýrið á bíl af þessu taginu. Rafbíllinn Renault Zoe varð sem sagt nú á dögunum minn fyrsti rafbíll.

Söluhæsti rafbíll Evrópu

Zoe er söluhæsti 100% rafbíllinn í Frakklandi og í Evrópu 2016 og 2017, og þessi nýja útgáfa sem ég fékk til afnota er af þriðju kynslóð en bíllinn kom fyrst á markaðinn árið 2012. Hverri kynslóð hafa fylgt breytingar og stöðugt aukið drægi og nú er svo komið að bíllinn gæti mögulega náð alla leið frá Reykjavík til Akureyrar á einni hleðslu á góðum sumardegi.

Það var þó ekkert sumarveður þegar ég fékk bílinn í hendur; frostkuldi úti og hleðslan entist langtum styttra en við bestu aðstæður. Ég var með bílinn frá hádegi á miðvikudegi og fram á miðjan dag á föstudegi. Ég bý í Garðabæ, en vinn í Hádegismóum, sem er 15 km akstur hvora leið, og nokkrar ferðir til og frá vinnu plús aðeins meira náðu að vinda batteríið skraufþurrt. Aðvörunarorð og viðvörunarljós í öllum regnbogans litum voru farin að kvikna í mælaborðinu þegar ég skilaði bílnum til BL. Auk þess var komin mynd af skjaldböku í hraðamælinum, sem táknaði líklega að ráðlegast væri fyrir mig að aka hægar til að spara rafmagnið.

Opinbert raundrægi miðað við mat Renault er annars 375 km yfir sumartímann en 240 km yfir vetrartímann. Reunault setur þá þann eðlilega fyrirvara að margir þættir hafi áhrif á drægni, t.d. veður, aksturslag, hraði o.fl., sem á auðvitað einnig við um bíla sem notast við annars konar orkugjafa.

Lítið pláss aftur í

Renault Zoe er smábíll með takmarkað pláss aftur í fyrir fullorðna og þá sérstaklega hávaxið fólk og lappalangt. Á móti kemur að ég upplifði Zoe sem sérstaklega einfaldan bíl, í góðri merkingu þess orðs, og lipran sömuleiðis.

Að utan er Zoe laglegur bíll. Ljósin að framan og aftan eru ögn útstæð. Bætt hefur verið led-ljósum að aftan og framan og ýmsar aðrar útlitsbreytingar hafa verið gerðar, eins og á húddi og grilli, sem allar eru til bóta.

Afturdyraopnarinn er áhugaverður og olli smá uppnámi hjá fólki sem ég bauð far. Fyrst átti fólkið erfitt með að átta sig á hvernig í ósköpunum það ætti að opna afturdyrnar, en ég benti þeim á lítið upphleypt fingrafar á svarta þríhyrningnum á hurðinni. Þegar þar er þrýst á ýtist húnninn fram og hægt er að opna. Í frosti eins og var þegar ég prófaði bílinn gat þetta staðið aðeins á sér.

Skottið kom á óvart. Þar er plássið meira en ég bjóst við, en aftur á móti er pláss í hanskahólfi lítið.

Hægt er að hlaða tvo farsíma í tveimur USB-tengjum aftur í og aftan á hægra framsætinu er hliðarvasi þar sem hægt er að smeygja inn möppu eða blöðum. Þá væri með lagni hægt að smeygja vatsnflösku í hólfið í hurðunum að aftan.

Í akstri fann maður ekkert sérstaklega fyrir því að bíllinn væri mögulega eitthvað öðruvísi en hefðbundir jarðefnaeldsneytisbílar. Hraði og viðbragðsflýtir var mjög viðunandi og öll nútímaöryggiskerfi sömuleiðis til staðar, eins og akstursvari í hliðarspeglum, veglínuskynjari, bakkmyndavél, og þess háttar, sem og íslenskt leiðsögukerfi, sem er mjög smekklega komið fyrir í mælaborði rétt eins og í upplýsingaskjá. Þá er skriðstillir (e. cruise control) til staðar, sem og mjög fínt upplýsingakerfi með flottum snertiskjá í miðju bílsins og mælaborði. Ég set spurningarmerki við stjórnun útvarpsins fremst á sveif hægra megin bak við stýrið, finnst að það hefði mátt vera á skemmtilegri stað, til dæmis í stýrinu, eins og í mörgum öðrum bílum.

Alltaf í bremsu

Gírstöngin býður upp á tvær stillingar. Stillingin D er hefðbundið „Drive“, en svo er það B – bremsu – still sem er ný í þessari gerð af bílnum. Þegar maður notar hana er eins og Zoe sé alltaf í bremsu, og gerir í raun að verkum að maður þarf ekkert mikið að vera að bremsa á lengri leiðum því það hægist á bílnum um leið og maður tekur fótinn af bensíngjöfinni. Um leið byrjar hann að hlaða inn á batteríið.

Til að spara rafhlöðuna enn frekar er hægt að velja Eco-stillingu.

Innréttingin vekur athygli sömuleiðis, enda notast framleiðandinn hér við 100% endurunnið textílefni í mælaborðinu, í hurðum og í miðrými. Þetta gefur notalegan blæ.

Í miðjunni er hægt að hlaða síma þráðlaust og geyma þar tvær vatnsflöskur. Þá er boðið upp á þægindi eins og hita í stýri og hita í sætum með tveimur stillingum, sem dugðu ágætlega í kuldanum. Þá eru snúningstakkarnir til að stjórna miðstöðinni smekklegir með stafrænum númerum framan á, staðsettir neðan við margmiðlunarskjáinn.

Lyklalausa aðgengið kætti mig. Ekki bara að bíllinn opnaðist þegar ég nálgaðist með lykilinn í vasanum, heldur læstist hann líka sjálfvirkt þegar ég fjarlægðist bílinn.

Það kom mér á óvart að sjá AUX-tengi við hlið tvegga USB-tengja, aftan við gírstöngina, en kannski er þetta eitthvað sem þykir nauðsynlegt í Frakklandi.

Af öðru mikilvægu í þessum bíl má nefna að vélin er orðin kraftmeiri og nær 135 hestöflum. Sömuleiðis er bíllinn hjóðlátari en síðasta kynslóð og sætin þægilegri.

Oft hafa mér þótt rafbílar fulldýrir en þennan geturðu fengið frá tæpum fjórum milljónum króna. Það ásamt aksturseiginleikunum og búnaðinum sem fylgir gerir að verkum að vinsældir bílsins síðustu ár í Evrópu koma síst á óvart.

Renault Zoe Intens-rafmagnsbíll

» 52 kWst rafhlaða

» 136 hö/ 245 Nm

» Sjálfskiptur

» Drægi allt að 395 km (WLTP)

» 0-100 km á 9,5 sek

» Hámarkshraði 140 km/h

» Framhjóladrifinn

» 16 álfelgur

» Eigin þyngd 1.475 kg

» Farangursrými 338 l

» Mengunargildi 0 g/km

» Verð frá 3.990.000 kr

Hverri kynslóð hafa fylgt breytingar og stöðugt aukið drægi. Rafmagns-Zoe …
Hverri kynslóð hafa fylgt breytingar og stöðugt aukið drægi. Rafmagns-Zoe er áhugaveður kostur. mbl.is/​Hari
Afturdyraopnarinn er áhugaverður og olli smá uppnámi hjá fólki sem …
Afturdyraopnarinn er áhugaverður og olli smá uppnámi hjá fólki sem ég bauð far. mbl.is/​Hari
Rafbíllinn Renault Zoe
Rafbíllinn Renault Zoe mbl.is/​Hari
Rafbíllinn Renault Zoe
Rafbíllinn Renault Zoe mbl.is/​Hari
Rafbíllinn Renault Zoe
Rafbíllinn Renault Zoe mbl.is/​Hari
Rafbíllinn Renault Zoe
Rafbíllinn Renault Zoe mbl.is/​Hari
Rafbíllinn Renault Zoe
Rafbíllinn Renault Zoe mbl.is/​Hari
Rafbíllinn Renault Zoe
Rafbíllinn Renault Zoe mbl.is/​Hari
Rafbíllinn Renault Zoe
Rafbíllinn Renault Zoe mbl.is/​Hari
Rafbíllinn Renault Zoe
Rafbíllinn Renault Zoe mbl.is/​Hari
Rafbíllinn Renault Zoe
Rafbíllinn Renault Zoe mbl.is/​Hari
Rafbíllinn Renault Zoe
Rafbíllinn Renault Zoe Afturdyraopnarinn er áhugaverður og olli smá uppnámi hjá fólki sem ég bauð farHari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: