Verðskuldaðar vinsældir

Að ytra útliti er Honda HR-V lögulegur bíll, og á …
Að ytra útliti er Honda HR-V lögulegur bíll, og á framendanum er svartkrómað grill. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bílablaðamenn slá ekki slöku við þó að kórónuveiran herji enn um veröld víða. Þeir eru enda að jafnaði einir við iðju sína, að prufukeyra bílana, og skrifa síðan um þá í kjölfarið, sitjandi við tölvuna, í tryggilegri tveggja metra fjarlægð frá öðru fólki.

Mitt í veirufaraldri fór sá sem hér hamrar á lyklaborðið upp í Honda-umboðið til að sækja bíl til reynsluaksturs, nánar tiltekið nýjan Honda HR-V.

Hondaumboðið er nú til húsa á Fosshálsi 1. Ekki er langt síðan Askja tók umboðið yfir, en margir muna eftir því á gamla staðnum í Vatnagörðum.

Þessi tegund af Hondu hefur tekið við sér í sölu síðustu misseri að sögn sölumanns á staðnum, enda hefur kynning á bílnum verið aukin, sem hefur skilað sér í meiri athygli. HR-V er kynntur á heimasíðu fyrirtækisins sem söluhæsti smájeppi heims, og er það vel. Bæði þessi bíll, og stóra systirin, Honda CR-V, hafa verið mjög vinsæl hér á Íslandi um árabil. Honda CR-V á sér langa og óslitna sögu á Íslandi, en aftur á móti var HR-V ekki í boði hér um skeið. Gert var hlé á framleiðslu bílsins árið 2007, en hún hófst aftur fyrir fáeinum árum, eða árið 2015. Nýja útgáfan er því önnur kynslóð bílsins.

Jafn hár og CR-V

Eins og minnst var á hér á undan er um smájeppa að ræða, millistig á milli sportjeppa og fólksbíls. Einn helsti kosturinn við bílinn fyrir Íslendinga er hvað það er hátt upp undir hann frá götu, en aðeins munar einum sentimetra á lægsta punkti HR-V og lægsta punkti CR-V.

Annar mjög áhugaverður kostur, sem jafnframt eykur verulega notagildi bílsins, er hvernig hægt er að fella aftursætin saman. Bæði er hægt að fella niður bakið og auka þannig flutningsgetuna í skottinu til muna, en einnig er hægt að lyfta upp setunni og búa til mikið pláss í aftursætarýminu. Þannig má flytja hjól, flatskjá eða heimilishundinn í aftursætinu og skjóta þessu öllu haganlega inn um afturdyrnar.

Annar praktískur hlutur er viðbótargeymsluplássið undir gólfinu í skottinu. Þar er vissulega hægt að geyma dekk, en einnig hvað annað það sem manni dettur í hug.

Eitt af því sem blaðamanni fannst skorta í bílinn við aksturinn var aðeins meiri kraftur, en bíllinn er 130 hestöfl. Nokkrir 180 hestafla bílar voru reyndar fluttir til landsins, og fyrir þá sem vilja meira afl, eins og mig, mætti reyna að nálgast þau eintök. Annars má alltaf snara HR-V í sportstillinguna til að hleypa honum á snöggan sprett.

Passlega stimamjúkur

Svo ég haldi áfram að ræða það sem mér fannst jákvætt við bílinn, þá er eitt af því hvað HR-V er passlega stimamjúkur í akstri og lætur vel að stjórn. Þá er stærð hans eitthvað svo hæfileg, og bíllinn er sömuleiðis einfaldur. Það er gott að keyra hann og fjöðrunin er dágóð á ójöfnu undirlagi.

Honda mætti aðeins gyrða sig í brók varðandi upplýsingakerfið í bílunum sínum, en hér í Honda HR-V er viðmótið og útlitið enn dálítið gamaldags.

Í sætum er tveggja þrepa hiti sem yljar manni á köldum dögum, og er hann tiltölulega fljótur að skila sér inn í kroppinn. Miðstöðin fannst mér vera aðeins of lengi að taka við sér.

Það sem gleður og kætir útlitslega við bílinn eru óneitanlega ávalar ytri línur hans, en einnig háglansandi plastinnrétting í kringum gírstöngina. Í miðjunni rétt við gírstöngina, eru líka skemmtilega hönnuð geymsluhólf fyrir flöskur og bolla. Þau eru þeirrar náttúru að í þeim eru litlir takkar sem hægt er að ýta á, og þá spretta út lítil skilrúm, sem hólfa niður plássið. Einnig er hægt að dýpka þetta pláss.

Gult viðvörunarljós eykur öryggi

Flestir bílar eru komnir með USB-tengi til að hlaða síma, og jafnvel HDMI-tengi. Ég átti erfitt með að finna USB-tengið í bílnum, en áttaði mig svo á því að það er nálægt gólfinu, sem er kannski ekki aðgengilegasti staðurinn fyrir það.

Eco-stilling, til að gera bílinn umhverfisvænni og eyðslugrennri, er í boði, og einnig fjarlægðar- og veglínuskynjarar sem auka öryggi ökumanns og farþega. Hægt er að kveikja á þessu þrennu vinstra megin við stýrið.

Stærð hanskahólfs er viðunandi, og ég kunni vel að meta mælaborðið, og viðmót þess.

Til að auka enn á öryggið gefur bíllinn frá sér gult viðvörunarljós þegar honum finnst vera einhver hætta á ferð.

Þá er komið að því að smeygja sér í aftursætið. Þar er bíllinn heldur þröngur á hæðina fyrir fullvaxinn karlmann, og ekki er ráðlagt að teygja mikið úr hálsinum, því höfuðið rekst þá upp í loft. Fótapláss er þó viðunandi. Þarna ættu tveir fullorðnir að komast fyrir, og geta þá nýtt sér niðurfellanlega handstuðninginn í miðjunni.

Ytra útlitið er flott eins og ég sagði hér á undan, og þá sérstaklega framendi bílsins. Ég tók sérstaklega eftir svartkrómaða grillinu, sem gældi við augun. Almennt eru línurnar í bílnum fallegar og léttspeisaðar. Ég get því alveg tekið undir með lýsingunni á bílnum hjá umboðinu, að HR-V er nýtískulegur að ytra útliti.

Eyðslugrannur

Í skottinu er ágætis pláss fyrir töskur, pakka og pinkla, og einnig eru hankar þar til að hengja á innkaupapoka. Þá er gott að nota svo varningur hendist ekki til og frá í akstri. Ennfremur er ljós í skotti, sem er plús.

Aðgengi að bílnum er lyklalaust, og eyðslan í blönduðum akstri er uppgefin 5,6 lítrar á hundraðið, sem hljómar mjög vel. Bíllinn sem ég ók skartaði topplúgu, sem fegrar ökutækið, en reynsla mín af topplúgum hér á landi er sú að þær eru sjaldan notaðar.

Bremsukerfið er gott, bíllinn er sérstaklega góður í vetrarfærð, og ekki er verra að hafa hann vel skóaðan á þeim árstíma. Góðir vetrarhjólbarðar hjálpa HR-V að sýna allar sínar bestu hliðar.

Honda HR-V

» 1,5 l, 4 cyl., 130 hö., 155 NM, bensín

» CVT 7 gíra skipting

» 0-100 = 11,2 sek.

» Hámarkshraði 187 km/klst.

» Framdrif 2WD

» 16 felgur í Elegance

» 18 felgur í Executive

» Eigin þyngd: 1.251-1.340 kg

» Farangursrými 393 l

» 121 Co2

» Utanbæjarakstur 4,8 l

» Blandaður akstur 5,3 l

» Innanbæjar 6,1 l

» Verð frá 4.790.000 kr. til 5.290.000 kr.

Opnun afturhurðanna er smekkleg.
Opnun afturhurðanna er smekkleg. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Viðmót mælaborðsins er einfalt og þægilegt,
Viðmót mælaborðsins er einfalt og þægilegt, mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ágætt fótarými er í aftursæti fyrir fullorðna. Hægt er að …
Ágætt fótarými er í aftursæti fyrir fullorðna. Hægt er að lyfta upp sætunum, og búa til gott flutningsrými fyrir plássfreka muni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Í skottinu er ágætis pláss fyrir töskur, pakka og pinkla, …
Í skottinu er ágætis pláss fyrir töskur, pakka og pinkla, og einnig eru hankar þar til að hengja á innkaupapoka svo þeir fari ekki á ferð. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Í stýrinu er hægt að stjórna útvarpi á þægilegan hátt.
Í stýrinu er hægt að stjórna útvarpi á þægilegan hátt. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Umhverfis gírstöngina er svart háglansandi plast, sem fegrar.
Umhverfis gírstöngina er svart háglansandi plast, sem fegrar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Útlit bílsins er nýtískulegt
Útlit bílsins er nýtískulegt mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: