Upp og niður göngin

„Þótt e-Up! sé ekki stór utan frá séð, þá er …
„Þótt e-Up! sé ekki stór utan frá séð, þá er hann rúmgóður fyrir ökumann og farþega í framsæti, og lofthæð góð.“ mbl.is/Árni Sæberg

Það er reglulega gaman að sjá hvað rafbílamarkaðurinn vex hratt um þessar mundir. Hver framleiðandinn á fætur öðrum kemur fram með annaðhvort nýjan tvinn-, tengiltvinn- eða rafbíl, og eftir því sem framleiðslan eykst og eftirspurnin einnig, því þróaðri verða bílarnir, og færast nær þörfum einstaklinga og fjölskyldna í ólíkum löndum, sem búa við ólíkar akstursaðstæður.

Á Íslandi er hlutfall sölu nýrra vistvænna bíla orðið gríðarhátt, sem segir best hver vilji landans er í þessum efnum. Vegna langra vetra, og tilheyrandi kuldatíðar, er veðurfar hér þó ekki jafn vinsamlegt rafbílum eins og víða annars staðar, en við látum það ekki á okkur fá og hlöðum þá bílana bara oftar, eða finnum önnur úrræði sem henta.

Hreifst strax í byrjun

Fyrr í sumar fékk ég í hendur e-Up! frá Volkswagen, og það var eins og við manninn mælt, ég hreifst með strax í byrjun. Það sem fyrst heillaði var léttleikinn og einfaldleikinn við bílinn, eða þá útgáfu sem ég var með af honum. Ekkert var of né van við hann fyrir þau verkefni sem honum eru alla jafna ætluð, og smæðin, og þar með lipurleikinn í borgarumferð, augljós kostur.

Þar sem ég hef ekki prófað marga rafbíla á mínum bílablaðamennskuferli, er hleðsluferlið enn að vefjast fyrir mér. Því kom það mér ánægjulega á óvart að ég gat stungið e-Upinum í samband við hvaða heimilisrafmagn sem er. Auðvitað hleðst hann hægar með þeirri aðferð en ef notuð er hraðhleðsla, en á hinn bóginn er frelsið algert, svo lengi sem menn eru viljugir að leyfa manni að stinga í samband. Vanur rafbílamaður, sem ég átti samtal við um notkun innstungu á mínum vinnustað, benti mér á að það væri einkar praktískt og raunar nauðsynlegt að vera jafnan með langa framlengingasnúru í bílnum. Þannig væri frelsið enn meira við að leiða rafmagnið inn í bílinn, jafnvel um langan veg.

Mér fannst drægni bílsins vera góð þennan tíma sem ég var með hann. Ekki bara notaði hann rafmagnið á rafhlöðunni, heldur hlóð hann líka inn á sig á ferð. Þetta gerist, eins og í öðrum rafbílum, þegar hemlað er, og einnig er hægt að setja í sérstakan gír sem heldur við, þannig að alltaf þegar fæti er lyft af inngjöfinni, þá er eins og ýtt sé létt á hemilinn. Þetta kom hvað skýrast fram í Hvalfjarðargöngunum þegar fylltist ört á tankinn á leiðinni niður, en svo fór það jafnharðan af á leiðinni upp úr göngunum.

Starfsmaður hjá umboðsaðila, Heklu, sagði mér að skynsamlegt væri, til að hámarka rafhlöðusparnaðinn og auka drægnina, að sleppa því að hafa miðstöðina á. Sem betur fer voru ekki miklir sumarhitar þegar ég var með bílinn, en þegar sólin skein, skrúfaði ég niður rúðuna og lét það duga. Afturí opnast rúður reyndar aðeins takmarkað með spennum, sem ættu samt sem áður að gefa smá gust inn í farartækið.

Rúmgóður frammí

Þó e-Up! sé ekki stór utan frá séð, þá er hann rúmgóður fyrir ökumann og farþega í framsæti, og lofthæð góð. Skottið er þó afar lítið, en ef menn vilja skutlast með barnavagn, golfsett eða IKEA-kommóðu, má leggja niður aftursætin með lítilli fyrirhöfn. Í 251 lítra skottinu (959 lítrar ef sæti eru lögð niður) eru eins og tíðkast víðast hvar litlir hankar og ljós til að auka á notagildi geymslurýmisins.

Innra rými bíla þarf ávallt að bjóða upp á ákveðnar lausnir sem tilheyra daglegri neyslu og atferli. Til dæmis eru menn gjarnir á að hafa með sér drykki inn í bíla, og einn slíkan má geyma í framhurðum, og einn í miðju, í stað tveggja eða fleiri í stærri bílum. Enginn vasi er aftan á framsætum, sem sýnir hvað margt er skorið við nögl og einfaldað í bílnum, sem ég kann að meta fyrir ökutæki af þessu tagi.

Í akstri er e-Up! léttur og lipur, og snöggur eftir því. Það var ekki erfitt að rífa hann upp í hátt í tvö hundruð kílómetra hraða, en þá er best að vera vel meðvitaður um að rafmagnið hverfur hratt af rafhlöðunni við slíkar aðfarir. En stundum er bara svo erfitt að hemja sig!

Fallegt mynstur prýðir innréttingu bílsins, og inni í hanskahólfinu er hólf fyrir sólgleraugu sem í flestum bílum er að finna ofan við baksýnisspegilinn. Það er alltaf kostur þegar gert er ráð fyrir sólgleraugnahólfi – líka á Íslandi.

Í miðjunni, ofan við útvarpið, er standur fyrir farsíma, sem er notadrjúgt ef ökumaður vill nota Google Maps eða Waze til að vísa veginn – nú eða ef hann vill nota símann í eitthvað allt annað. Standurinn er þó alls ekki til prýði á þessum stað.

Tvær umhverfisstillingar

Bíllinn er með bæði Econ- og Econ +-stillingu, sem báðar eru umhverfisvænar. Þær a.m.k. höfðu á mér hemil og pössuðu upp á að ég væri ekki að aka of hratt um gleðinnar dyr. Mér fannst munur á milli þessara tveggja stillinga þó heldur lítill í akstri.

Útgáfan sem ég var með var ekki hlaðin viðvörunarbúnaði, en þó með veglínuskynjara sem auðvelt var að slökkva á.

Í sætum er tveggja þrepa hiti, sem ágætt er að spara eins og hægt er, rétt eins og miðstöðina sem ég ræddi hér á undan.

Þegar bíllinn er hlaðinn sér maður gátljós bæði inni og úti þannig að auðvelt er að sjá hvort bílinn er að hlaðast eða ekki. Ég tæmdi bílinn nánast af rafmagni, en náði að hlaða hann að 75% hluta úr innstungunni heima yfir nótt. Átti það að duga í 160 km samkvæmt mæli bílsins. Sé hraðhleðsla notuð segir framleiðandi að hægt sé að hlaða e-Up! að 80% hluta á einni klukkustund í hraðhleðslustöð. Uppgefin drægni bílsins er 260 km, en auðvitað hefur margt áhrif á það, til dæmis veður og akstursstíll, eins og greint var frá hér að framan.

e-Up! er minnsti bíllinn frá Volkswagen. Hann er svo lítill að manni finnst maður hreinlega geta stungið honum í vasann, og gripið til þegar hentar. Það er reglulega góður eiginleiki.

Volkswagen e-Up!

» 36,8 kWh rafhlaða

» Framhjóladrifinn

» 82 hö. / 210 Nm

» 0-100 km/klst. á 11,9 sek.

» 130 km/klst. hámarkshraði

» Losun: 0 g CO2/km

» 260 km drægni (WLTP)

» Eigin þyngd: 1.247 kg

» Farangursrými: 251 lítri

» Verð: 3.390.000 kr.

» Umboð: Hekla

Blaðamaður átti ekki í nokkrum vanda með að hlaða bílinn …
Blaðamaður átti ekki í nokkrum vanda með að hlaða bílinn með rafmagni úr venjulegri innstungu. Löng snúra ætti að koma sér vel á ferðalögum. mbl.is/Árni Sæberg
„Hann er svo lítill að manni finnst maður hreinlega geta …
„Hann er svo lítill að manni finnst maður hreinlega geta stungið honum í vasann.“ mbl.is/Árni Sæberg
Drægi ætti að aukast ef ekki er kveikt á miðstöðinni …
Drægi ætti að aukast ef ekki er kveikt á miðstöðinni eða hita í sætum. mbl.is/Árni Sæberg
Skottið á e-Up! má stækka með því að fella niður …
Skottið á e-Up! má stækka með því að fella niður sætin. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »