Rafknúin þægindi og augun á veginum

Bíllinn er byggður á sama undirvagni og litli bróðirinn ID.3.
Bíllinn er byggður á sama undirvagni og litli bróðirinn ID.3. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Volkswagen kynnti í september nýjan, fullvaxinn rafdrifinn fjölskyldubíl. Um er að ræða fyrsta alrafknúna sportjeppann frá Volkswagen og ber hann heitið ID.4, enda númeri stærri en litli bróðirinn ID.3.

Bíllinn er fáanlegur í tveimur útfærslum sem nefnast 1st og 1st MAX, og fékk blaðamaður að reyna þá síðari á vegum Reykjavíkur og nágrennis.

Það fyrsta sem vekur athygli er að þegar maður nálgast gripinn, með lykilinn í vasanum, þá heilsar bíllinn um leið og hann finnur fyrir nálægðinni, kveikir á ljósunum og tekur um leið hurðina úr lás. Hlýjar móttökur sem sagt.

Þegar sest er svo við stýrið tekur við manni óvenjulítill og mínimalískur skjár á mælaborðinu. Öllu stærri er snertiskjárinn undir miðri framrúðunni, eða tólf tommur. Þessi útfærsla kom skemmtilega á óvart og við aksturinn fannst mér mig aldrei skorta upplýsingar, og ef þær vantaði þá var viðmótið á snertiskjánum virkilega vel útfært.

Snjóstilling með bláum lit

Meira að segja reyndist ég ekki þurfa að líta nokkru sinni á mælaborðið frekar en ég vildi, þar sem upplýsingum um aksturshraða og fleira er varpað upp á framrúðuna í góðri sjónlínu fyrir ökumann. Í þessu felast merkilega mikil þægindi sem maður er fljótur að venjast og það leyfir manni að hafa augun algjörlega á veginum. Upplýsingarnar birtast í hvítum lit en ef þörf krefur má skipta yfir í svokallaða snjóstillingu og þar með bláan lit, til að týnast ekki í snjóhvítunni.

Til að stýra efni á borð við tónlist má notast við handhæga takka á stýrinu eða þá sérstaka snertistiku undir snertiskjánum. Stikan er haganlega úr garði gerð, með þeim hætti að auðvelt er að „skrúfa“ strax í botn, eða þá lækka í hljóðinu jafnharðan ef maður slysaðist til að stilla inn á Bylgjuna.

Beygjuradíusinn óvenjumikill

Víkjum að akstrinum sjálfum. Hestöflin eru 204 talsins og duga til að koma bílnum úr kyrrstöðu í hundraðið á 8,5 sekúndum. Manni líður þó óneitanlega eins og hröðunin sé meiri en svo, enda í eðli rafbíla að geta tekið hratt af stað úr kyrrstöðu þó að taka megi að draga saman með bensínhákum þegar hundraðið nálgast.

ID.4 er flokkaður sem fjölskyldubíll og stærðin svíkur ekki þá skilgreiningu. Það sem kemur hins vegar verulega á óvart er hversu lipur bíllinn er. Beygjuradíusinn er þannig mun minni og betri en maður hefði búist við af bíl í þessum stærðarflokki. Auðvelt reyndist að leggja sportjeppanum víða á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir örtröð, öngþveiti og öldungis aðþrengd stæði.

Brengluð sýn í regni

Þar komu bakkmyndavélar ID.4 einnig í góðar þarfir, en útgáfan sem blaðamaður ók er búin 360 gráðu myndavélakerfi og þekur því allar hliðar sem horfa þarf til. Einnig var hægt að velja á milli gleiðlinsu eða venjulegrar linsu þegar maður hugðist bakka bílnum, enda tvennt ólíkt að bakka úr stæði og út á götu eða einfaldlega inn í stæði.

Sá galli var hins vegar á gjöf Njarðar að hvimleiðir rigningardropar gátu átt það til að brengla sýnina út um myndavélina allverulega. Það er auðvitað ekki gott þegar framleiðandinn hefur á annan bóginn þróað þessa fínu tækni með fjölda myndavéla, en þetta er þó algengur vandi hjá mörgum framleiðendum. Hjá Mercedes-Benz hefur verið brugðið á það ráð að hýsa myndavélina inni í skrokki bílsins og færa hana einungis út þegar hennar er þörf. Kannski þyrftu fleiri bílaframleiðendur að horfa til þeirrar lausnar. Eða kannski glíma bara veðurbarðir Íslendingar við þetta vesen.

„Hlýjaðu mér um fætur“

ID.4 er afturhjóladrifinn og veigra kannski einhverjir sér við að fá sér sportjeppa sem þennan án fjórhjóladrifs. Bíllinn lét þó vel í þeim snjó sem ökumaður lét hann eiga við og þá kom eflaust ekki að sök að meginþungi hans er að aftanverðu, þar sem rafhlaðan er geymd.

Ýmis þægindi vöktu eftirtekt við aksturinn. Á hliðarspeglum kvikna ljós um leið og bíllinn skynjar fyrirstöðu þeim megin, til að mynda bíl sem nálgast í blindpunkti á ferð um Miklubraut. Loftslagsstillingar í snertiskjánum bjóða þá upp á tvenns konar viðmót, annars vegar þetta hefðbundna sem allir eru vanir og hins vegar stillingar á borð við „Hlýjaðu mér um fætur“ eða „hitaðu bílinn hratt“ – þó ekki á hinu ástkæra ylhýra. En þetta er óneitanlega þægilegt þegar maður sest upp í bílinn að morgni dags og nennir ómögulega að hugsa. Maður veit bara að manni er kalt á fótunum eftir að hafa vaðið slabbfullt bílastæðasvall í einu úthverfa borgarinnar.

Hve óvært er þitt óhljóð

Einna mikilvægast þótti mér þó að eitt vantaði. Það vantaði öll þau óstýrilátu og illskiljanlegu píp sem margir bílaframleiðendur hafa ákveðið að þurfi að fylgja upplifun hvers bílstjóra, til dæmis þegar skipt er í bakkgír, skipt um akrein, skottið opnað, skottinu lokað, eða hreinlega hækkað og lækkað í tónlistinni. Í engu þessara tilfella gaf ID.4 frá sér eitt einasta píp. Og meira að segja þegar bíllinn gefur frá sér hljóð til að gefa bílstjóra eitthvað til kynna þá er það ljúft og þýtt, og sker ekki í eyrun.

Rétt eins og ID.3 er ID.4 byggður á MEB-undirvagninum (þ. Modularer E-Antriebs-Baukasten) sem bílaframleiðendurnir Audi, SEAT, Skoda ásamt Volkswagen, sem heyra undir VW-samstæðuna, hafa þróað í sameiningu og verður nýttur sem grunnur að mörgum ólíkum rafbílum á komandi árum. Þessari hönnun er ætlað að tryggja hagkvæmni í framleiðslunni og um leið mikið innanrými en minna ytra byrði, sem skiptir máli þegar kemur að loftmótstöðu. Undirvagninn veitir einnig staðlað form utan um þær rafhlöður sem fyrirtækin hyggjast nýta sem orkugjafa.

Frá Reykjavík til Mývatns

Á þaki MAX-útgáfunnar er langt og breitt sólþak sem gengur úr skugga um að hvorki bílstjórar né farþegar þjáist af innilokunarkennd. Auðvelt er þá með snertiskjánum að draga hlíf yfir – eða öllu heldur undir – sólþakið, til dæmis á sólbökuðum sumardögum á leiðinni upp í Húsafell með börnin.

Og talandi um Húsafell. Bíllinn dregur 500 kílómetra samkvæmt WLTP-staðlinum og tekur rafgeymirinn nettó 77 kWh. Með öðrum orðum, keyrt út úr bænum um hádegisbilið og svo slappað af í jarðböðunum á Mývatni um kvöldið, á meðan bíllinn hleður sig aðeins spölkorn frá.

Vonast til að anna eftirspurn

Þegar á heildina er litið virðist Volkswagen hafa tekist afar vel til við hönnun og smíði ID.4. Ef til vill verður bíllinn í samkeppni hér á landi við aðra sportjeppa á borð við Citroën ë-C4. Verðmiði þess franska er tæpum tveimur milljónum lægri, en drægnin er á sama tíma 150 km minni og þá er hann 1,2 sekúndum hægari upp í hundraðið, án þess að samanburður þeirra verði tíundaður nánar hér.

Hekla hefur þegar selt alla þá ID.4-bíla sem umboðið hefur pantað, en framleiðslugeta Volkswagen er góð og vonast Hekla til að geta annað eftirspurninni, samkvæmt upplýsingum frá umboðinu. Ekki er heldur langt þar til fjórhjóladrifin útgáfa bílsins kemur til landsins, en sú mun bera nafnið ID.4 GTX.

Volkswagen ID.4

» Árgerð: 2021

» Orkurýmd rafgeymis: nettó 77 kWh

» Afturhjóladrifinn

» Afl: 204 hö./310 Nm

» Hröðun 0-100 km/klst.: 8,5 sek.

» Hámarkshraði: 160 km/klst.

» Eyðsla í blönduðum akstri 17,2 kWh/100 km WLTP

» Akstursdrægi WLTP: 500 km

» Eigin þyngd: 2.124 kg

» Stærð farangursrýmis: 543 lítrar

» Dráttargeta: 1.200 kg

» Hleðslugeta AC/DC: 11 kW/125 kW

» Umboð: Hekla

» Grunnverð: 5.990.000 kr.

» Verð eins og prófaður: 7.990.000 kr.

Volkswagen ID.4
Volkswagen ID.4 mbl.is/Eggert Jóhannesson
Volkswagen ID.4
Volkswagen ID.4
Volkswagen ID.4
Volkswagen ID.4 mbl.is/Eggert Jóhannesson
Volkswagen ID.4
Volkswagen ID.4 mbl.is/Eggert Jóhannesson
Volkswagen ID.4
Volkswagen ID.4 mbl.is/Eggert Jóhannesson
Volkswagen ID.4
Volkswagen ID.4 mbl.is/Eggert Jóhannesson
Volkswagen ID.4
Volkswagen ID.4 mbl.is/Eggert Jóhannesson
Volkswagen ID.4
Volkswagen ID.4 mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: