Margur er knár

Mini Cooper SE er snaggaralegur og smart.
Mini Cooper SE er snaggaralegur og smart. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Mini hefur alltaf haft yfir sér einhvern sjarma. Hann kom fyrst fram á sjónarsviðið í Bretlandi árið 1959 og sló í gegn á sjötta áratugnum. Vissulega hefur það þótt kostur hversu smár hann var og auðvelt að troða honum í stæði í stórborgum eins og London.

Mini hefur haldið sína sérstaka útliti, þótt hann sé auðvitað nútímalegur í takt við nýja tíma og í dag er hann reglulega smart.

Frægur í bíómyndum

Mini hefur margoft verið notaður í bíómyndum og má nefna að eftir að hann sýndi listir sínar í margfrægri mynd frá 1969, The Italian Job, stimplaði hann sig heldur betur inn í sögubækurnar. Eftirspurnin var mikil og bíllinn rokseldist. Kvikmyndastjarna myndarinnar, Michael Caine, kunni ekki að keyra á þessum tíma og missti því af tækifæri til að leika sér á upprunalega 1967-módelinu af Mark 1 Austin Mini Cooper S. Hann þurfti að láta sér nægja farþegasætið!

Mini hefur verið notaður í fjöldanum öllum af kvikmyndum og til að mynda átti Mr. Bean einn slíkan, grængulan að lit. Í Bourne Identity frá 1989 má sjá einn eldrauðan og í endurgerð af The Italian Job frá 2003 má sjá Charlize Theron keyra um á rauðum 1997 Rover Mini Cooper MkVII. Enn á ný tók salan á Mini mikinn kipp!

Góð samviska

Blaðamaður bílablaðsins fékk að reynsluaka eldrauðum Mini Cooper SE með svörtu þaki. Bíllinn er hundrað prósent knúinn áfram af rafmagni og hljóðlátur eftir því. Það er þægilegt að keyra Mini-inn og alveg hægt að gefa í því hann tekur vel við sér, ekki nema 7,3 sekúndur í hundrað, og liggur æði vel í beygjum. Eins og aðrir rafmagnsbílar dettur hraðinn niður um leið og inngjöfinni er sleppt, en hægt að breyta stillingum svo að það gerist ekki. Einnig er hægt að setja bílinn í sportstillingu og er hann þá enn sneggri í snúningum.

Það er vel hægt að vera með góða samvisku þegar keyrt er um göturnar á Mini; bílar verða vart umhverfisvænni. Hann kemst þó ekki ýkja langt á fullri hleðslu en dugar vel í innanbæjarakstur enda verður Mini Cooper SE seint talinn mikill ferðabíll. Farangursrýmið býður ekki upp á pláss fyrir stórar ferðatöskur en hentar vel fyrir innkaupapokana.

Rúmgóður miðað við stærð

Það er gott aðgengi inn í bílstjórasætið sem er afar þægilegt og stýrið er létt og lipurt. Hann er búinn bakkmyndavél, hita í sætum, snertiskjá og leiðsögukerfi, svo eitthvað sé nefnt. Bíllinn er bjartur og gott útsýni er út um alla glugga en hliðarrúður eru ekki með kanti að ofan. Það er nóg pláss fyrir ofan höfuð og loftaði vel um blaðamann, sem er rúmlega 170 sentimetrar á hæð. Mini-inn virkar nokkuð rúmgóður frammi í, þrátt fyrir smæð sína. Erfitt er að komast aftur í fyrir fullorðna, en þar má finna sæti fyrir tvo.

Þar sem Mini Cooper SE er þrennra dyra er hann óhentugur fjölskyldubíll en fínn fyrir einstakling eða par. Hann gæti til að mynda verið flottur annar bíll á heimili, fyrir þann sem ekki þarf að sækja börn í leikskólann. Mini Cooper SE er í lægri kantinum, enda hafa sumir gagnrýnendur nefnt að það að keyra hann líkist helst að keyra Go-kart-bíl. Það eru kannski fullmiklar ýkjur! En svo finnst mörgum það kostur.

Mini er lítill en það er töggur í honum. Það er eins og máltækið segir: margur er knár þótt hann sé smár!

Mini Cooper SE M-útgáfa

» 100% Rafbíll með 33 kWh

rafhlöðu

» 184 hö / 270 Nm

» 0-100 km/klst.: 7,3 sek.

» 233 km drægni (WLTP)

» AC 11 kWh 0-80%

u.þ.b. 2,5 klst.

» DC hraðhleðsla 0-80%

u.þ.b. 36 mín.

» 211 lítrar farangursrými

(731 lítri með sætin felld)

» Heildarþyngd 1.365 kg

» Veghæð 128 mm

» Verð 5.160.000 kr.

eins og prófaður

» Umboð: BL

Mini heldur alltaf útlitinu þótt hann sé búinn að nútímavæðast.
Mini heldur alltaf útlitinu þótt hann sé búinn að nútímavæðast. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Gott aðgengi er að framsætum og rýmið innandyra er gott, …
Gott aðgengi er að framsætum og rýmið innandyra er gott, að minnsta kosti í framsætum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Hönnunin að innan er smart og ber þá mest á …
Hönnunin að innan er smart og ber þá mest á hringlaga formum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Mini Cooper er nettur bíll og hefur óneitanlega fallegan baksvip.
Mini Cooper er nettur bíll og hefur óneitanlega fallegan baksvip. Ásdís Ásgeirsdóttir
Vélarhlífin opnast auðveldlega og sést þá í vélina.
Vélarhlífin opnast auðveldlega og sést þá í vélina. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Farangursrýmið er lítið en ber vel innkaupapoka úr búðum eða …
Farangursrýmið er lítið en ber vel innkaupapoka úr búðum eða litla ferðatösku. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »