Tilvalið skref inn í framtíðina

Svart grillið undirstrikar hvaðan bíllinn er að koma og hvert …
Svart grillið undirstrikar hvaðan bíllinn er að koma og hvert hann er aðfara. Samfelld díóðuljósalína milli framljósa gerir bílinn mjög sportlegan. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er skammt stórra högga í milli hjá þýska Daimler-Benz. Lengi vel héldu menn að hið fornfræga fyrirtæki myndi sitja eftir á bílamarkaði framtíðarinnar. Tesla geystist áfram og Nissan virtist ná styrkri forystu á sama markaði með Laufið. Lítið fréttist úr herbúðunum í Stuttgart. Og loksins þegar fyrirtækið sýndi á spilin með rafvæddum B-class stundu margir og spurðu: „Geta þeir í alvörunni ekki gert betur en þetta?“

En svo rumskaði risinn og kynnti til sögunnar hina nýju EQ-línu sem ætlað er að móta bílamarkaðinn til langrar framtíðar. Horfir fyrirtækið m.a. til ársins 2039 en fram að þeim tíma hyggst það kynna til sögunnar nýjan flota Benz-bifreiða sem hafa hlutlaust kolefnisfótspor. Og þróunin verður mjög hröð því ef planið gengur eftir mun helmingur allra bíla sem framleiddir verða undir merkjum þess ganga fyrir rafmagni að öllu leyti eða einhverju árið 2030.

Risinn er vaknaður

Sem stendur er EQA aðeins í boði framhjóladrifinn en í …
Sem stendur er EQA aðeins í boði framhjóladrifinn en í sumar ervon á fjór-hjóladrifsbíl í tveimur útfærslum, 300 4MATIC og 350 4MATIC. Fyrrnefndi bíllinn verður 225 hestöfl og síðarnefndi 285 hestöfl. Drægnin verður svipuð.


Þegar risi vaknar af dvala hefur það gjarnan víðtæk áhrif eins og við þekkjum úr þjóðsögunum. Og stefna af þessu tagi teygir anga sína víða. Fyrirtækið hefur lagt upp í langa og stranga vegferð þar sem það hyggst rýna alla framleiðslu- og aðfangakeðju sína. Það er ekki nóg að hin endanlega afurð mengi ekki – draga verður eins mikið úr neikvæðum áhrifum framleiðslunnar, bílasmíðinnar, og kostur er. Bílaáhugafólk fékk fyrstu hugmynd um hvað EQ-lína Benz stæði fyrir árið 2016 þegar hugmyndabíll á grunni hinnar nýju nálgunar var kynntur á bílasýningunni í París. Tveimur árum síðar leit fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn ljós og hlaut hann viðurnefnið EQC. Hlaut hann verðskuldað lof fyrir fallega hönnun og vel útfærða tækni, hvort sem litið var til aksturseiginleika, rafhlöðu eða vélarafls. Hins vegar var ljóst að bíllinn höfðaði aðeins til þröngs hluta markaðarins sökum þess að hann kostar frá tæpum 10 milljónum og upp í 12 og er það nokkur biti að kyngja, ekki síst þegar fólk er að stíga út fyrir þægindarammann sem oftast felst í bensíntanki sem auðvelt er að fylla á og tryggir drægni upp á 500-600 kílómetra.

Margir hafa þó „séð ljósið“ og stokkið á EQC og er hann tíður gestur á stofnbrautum borgarinnar. Eigendurnir eiga auðvelt með að sýna hver styrkur bílsins er og munu geta það enn um sinn eða allt þar til baráttan við svifrikið tekur á sig enn undarlegri myndir en nú er og hámarkshraðinn verður færður niður í ekki neitt!

EQ-fjölskyldan stækkar hratt

Því verður ekki haldið fram að EQA sé mjög rúmgóður …
Því verður ekki haldið fram að EQA sé mjög rúmgóður fyrir farþega í aftursæti. Það sleppur þó til en undirstrikar þær áskoranir sem bílasmiðir standa frammi fyrir þegar rafhlöðurnar stækka og verða flóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon


Benz hefur svo stigið tvö ný skref að undanförnu til þess að kynna EQ-línuna betur fyrir markaðnum. Nú síðast í liðinni viku með hinum kynngimagnaða EQS (sem ég mun áreiðanlega fjalla um síðar í löngu máli).

En áður en að því kom var kynntur til sögunnar hinn svokallaði EQA sem mun sennilega valda meiri straumhvörfum fyrir Benz en bæði EQC og EQS geta gert – þótt öflugir séu.

En hvað er það sem EQA hefur sem hinir hafa ekki? Það er verðið. Samband verðs og gæða, eða öllu heldur þess sem við getum fengið fyrir peninginn í einum og sama bílnum. Þar býr EQA yfir töfrum sem erfitt er að standast. Og þar hefur Benz fundið snöggan blett á Tesla, fyrirtækinu sem allt er miðað við og mælt út frá á rafbílamarkaðnum.

Áður en ég segi nánar frá eiginleikum EQA er nefnilega nauðsynlegt að setja verðmiðann í samhengi. Um er að ræða millistóran bíl sem hentar vel fyrir 2-4 manna fjölskyldu sem ekki þarf að ferðast með mikinn farangur milli staða. Slíkar hafa á síðustu árum þyrpst í Tesla-hópinn og eru nú ógnarmargir „Þristar“ á götum borgarinnar. Það er ekki að undra. Skemmtilegur bíll og brautryðjandi á margan hátt. Hægt er að fá slíkan bíl með hefðbundinni rafhlöðu (54 kWst.), afturhjóladrifinn og lítt búinn aukabúnaði á innan við 6 milljónir króna. Bílar með meiri drægni (75/80 kWst.), en einnig afturhjóladrif, hafa hins vegar verðmiða nær 6,8 milljónum króna. Og þar hefur Askja staðsett EQA. Framhjóladrifinn bíll með 66,5 kWst. rafhlöðu kostar frá 6,8 milljónum í svokallaðri pure-útfærslu. Er það ágætlega búinn bíll með u.þ.b. 360 km raundrægni.

Rafhlaðan undir bílnum er undrasmíði og er skipt upp í …
Rafhlaðan undir bílnum er undrasmíði og er skipt upp í fimm aðskilda pakka. Utan um rafhlöðuna er mjög öflugt álhylki. Miklar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að einangra búnaðinn til þess að koma í veg fyrir hávaða og titring.

Einhverjir kunna að segja að EQA og Tesla 3 séu afar ólíkir bílar og má að mörgu leyti taka undir það. Þeir yrðu sennilega aldrei bornir saman ef um væri að ræða bíla búna sprengihreyfli. En úrvalið á þessum markaði er hins vegar enn takmarkað og því keppa tegundirnar innbyrðis á mun breiðara bili en á öðrum sviðum.

Sá, sem á annað borð er að velta fyrir sér að skipta alfarið yfir í rafmagn, leitar að bíl sem kostar um 7 milljónir og þarf að geta ferjað með góðu móti 2-4 farþega milli staða með góðum þægindum, mun staldra við þessa tvo bíla.

Innanstokks er bíllinn sportlegur með skýr Benz-einkenni.Tvöfaldur skjár sem stendur …
Innanstokks er bíllinn sportlegur með skýr Benz-einkenni.Tvöfaldur skjár sem stendur upp úr innréttingunni gerir upplifunina af akstrinum spennandi og aðgengilega. Upplifunin er að maður sé með flókið og mikið tæki í höndum. mbl.is/Kristinn Magnússon


Sennilega mun fólk í yngri kantinum í mörgum tilvikum stökkva á Tesla en það er stór markhópur í verðbilinu frá 7 og upp í 10 milljónir sem ekki er að leita að töffaraskap heldur notagildi. Ekki svo að skilja að EQA sé ekki töff bíll því hann býr sannarlega yfir slíkum eiginleikum, en hann virkar þó þunglamalegur við hlið flaugarinnar sem Elon Musk á heiðurinn af. Það gera einfaldlega flestir.

En EQA býr yfir meiri hæð í lægsta punkt og munar þar þó nokkru. Þá er allt öðruvísi að setjast inn í bílinn og að sitja í honum en Þristinum. Er afar gott að setjast inn í EQA og minnir þar helst á B-klassann frá Benz eða auðvitað GLA sem er eiginlegur systurbíll EQA af hinni hefðbundnu og gömlu sprengihreyfilstækni.

Niðurstaðan er því sú að EQA hefur komið sér fyrir á þægilegum stað á markaðnum þar sem margir munu eiga við hann stefnumót. Hann er raunverulegur kostur fyrir fólk sem ekki er tilbúið til að verja 9 milljónum eða meira í rafbíl í þessum stærðarflokki, hvorki EQC né e-tron 50 frá Audi.

Útlit og innlit

Skottplássið er ekki mikið og líkt og með aftursætin líður …
Skottplássið er ekki mikið og líkt og með aftursætin líður það fyrir stærð rafhlöðunnar. Fyrir hjón sem stunda golf getur plássið sett strik í reikning.


Þeir sem þekkja GLA frá Benz eru nokkurs vísari um útlit EQA enda má segja að þeir séu náskyldir. Bíllinn sameinar sportlegt útlit og þægindi og gott aðgengi að framsætum. Það sem undirstrikar rafmagnaðan grundvöll bílsins er svart og heilt grillið og LED-lýsingin sem tengir saman framljósin annars vegar og afturljósin hins vegar. Innanstokkurinn er allur afar vel hannaður. Tvöfaldur skjár gefur kost á því að hafa fyrir framan sig allar helstu upplýsingar, hvort sem það lýtur að orkunotkun, leiðsögn um götur borgarinnar, hraða eða tónlistinni sem maður vill njóta. Snertiskjárinn er þægilegur en stjórnborð í litlum „púða“ á milli framsætanna er einnig nokkuð það sem Benz-eigendur þekkja vel til og kunna flestir vel að meta. Lýsingin inni í bílnum er eitthvað sem gaman er að leika sér með og getur skapað þægilega stemningu, allt eftir því hvort maður er á leið í góðan gleðskap eða langferðalag sem kallar á annað andrúmsloft.

Mercedes-Benz EQA

EQA 250 er með 190 hestafla vél sem skilar bílnum …
EQA 250 er með 190 hestafla vél sem skilar bílnum á 8,5 sekúndum í hundraðið. Fjórhjóladrifsbílarnir sem koma í sumar verða búnir 225 og 285 hestafla vélum sem tryggja eiga 6,9 og 5,8 sekúndur í hundraðið.

» 140 kW rafmótor

» 66,5 kWst. rafhlaða

» Drægni u.þ.b. 360 km

» 190 hö / 375 Nm tog

» Sjálfskiptur

» Framhjóladrifinn

» 0-100 km á 8,5 sekúndum

» Þyngd 1.965 kg

» Farangursrými 340 lítrar

» Koltvísýringslosun 0 gr./km

» Umboð: Bílaumboðið Askja

» Verð frá 6.790.000

» Verð á prófuðum bíl

6.790.000

Afturendi bílsins er nettur og minnir að nokkru leyti á …
Afturendi bílsins er nettur og minnir að nokkru leyti á nýja hönnun GLE.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: