„Svissneskur vasahnífur“

Samlitir brettakantar og ýmis annar aukabúnaður gerir bílinn mjög sportlegan.
Samlitir brettakantar og ýmis annar aukabúnaður gerir bílinn mjög sportlegan. Unnur Karen

Eftir nærri því trúarlega upplifun af Porsche Taycan Turbo S á hraðbrautum Evrópu vaknaði meiri áhugi hjá mér á afurðum bílasmiðsins knáa í Stuttgart. Þekktastur er hann að sönnu fyrir áferðarfallega sportbíla, knúna áfram af einstaklega vel hönnuðum sprengihreyflum sem eyða öllu því eldsneyti sem á annað borð er dælt á tankana. En þýskir verkfræðingar hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir að rafmagnið er jafnt og þétt að taka yfir bílaheiminn, rétt eins og flest önnur svið mannlegrar tilveru. Jarðefnaeldsneyti var orkugjafi 19. og 20. aldar. Rafmagnið, í ýmsu formi, er svar 21. aldarinnar.

Því var það kærkomið þegar Benedikt Eyjólfsson hafði samband og spurði hvort ekki væri kominn tími til þess að reynsluaka nýrri tengiltvinn-útgáfu af hinum rómaða Cayenne sem frá árinu 2014 hefur verið fáanlegur úr smiðju Porsche með hinum tvíþætta aflgjafa.

Svarið var einfalt. Það var sannarlega kominn tími til þess. Og það er gaman að spjalla við Benna um bílana sem hann selur því maður fær það á tilfinninguna að það sé sama eldsneytið sem rennur um æðar hans sjálfs og bílanna sem um ræðir hverju sinni. Hann er hvort tveggja í senn, frábær bílakarl og svakalegur sölumaður. Eina leiðin til þess að komast hjá því að fjárfesta í bíl sem hann kynnir fyrir manni er að eiga ekki fyrir útborguninni. Það hefur oft staðið tæpt hjá mér. En ekki misskilja mig. Þetta er jákvætt. Það er ekkert leiðinlegra en að kaupa vandaða vöru af fólki sem ekki brennur fyrir því sem það selur. Eldmóðurinn er einfaldlega hluti af upplifun kaupandans um að hann sé að tryggja sér eitthvað eftirsóknarvert – og það er auðvitað tilfellið í hvert eitt sinn sem fólk kaupir sér Porsche.

Margbrotin en rétt lýsing

Þegar við setjumst undir stýri segir Benni eins og upp úr eins manns hljóði: „Stefán, þessi bíll er jafnbesti bíll sem ég hef prófað. Hann er eins og svissneskur vasahnífur. Það skiptir engu máli í hvaða aðstæðum þú ert, hann hefur að geyma rétta verkfærið til að leysa vandann.“

Mér fannst lýsingin ágæt, enda þekki ég vel til umræddra hnífa. Alinn upp á heimili þar sem alltaf voru til ógrynnin öll af Victorinox-hnífum með búnaði sem spannaði allt frá sagarblaði til tannstönguls, vasaljósi til naglaþjalar.

Og svo lögðum við í hann og komum okkur á stað þar sem heimilt er að reyna nokkuð á þanþol bílsins. Og ekki þýddi neitt hálfkák. Eins og hendi væri veifað tók Benni að hrópa: „Gefðí, gefðí, gefðí,“ en bætti svo við að því er virðist ósjálfrátt: „Þú ert á eigin ábyrgð, gefðí, gefðí, gefðí.“

Og ekki vantar þennan bíl kraftinn. Þar sem rafmagnið og sprengihreyfillinn koma saman verður aflið magnað og maður fyllist lotningu fyrir því hvernig verkfræðingarnir ná að láta þessi tvö, í raun gjörólíku kerfi, vinna jafn áreynslulaust saman. Eftir nokkra snúninga lét Benni mér bílinn eftir og nú vildi ég komast að því hvort svissneska líkingamálið stæðist skoðun. Hélt ég því af stað með fullfermi til Þingvalla og eftir að hafa ekið meðfram Almannagjá tók ég vinstri beygju og upp á Uxahryggi. Þar kemst maður í fjölbreyttar aðstæður sem reyna með mismunandi hætti á bílinn. Og maður minn. Á svipstundu breytist jeppinn úr sportbíl í tæki sem ræður við krefjandi illa heflaða vegi. Stöðugleikinn er frábær og það eina sem maður grætur er að það skuli enga hálku vera að finna á vegum landsins þessa dagana.

Með nýrri kynslóð þessara bíla hefur skref verið stigið til aukinnar rafvæðingar. Þannig er búið að stækka rafhlöðuna úr 14,1 kW í 17,9 kW sem eykur drægni bílsins á rafmagni um 30%. Mátti bíllinn svo sem við því en þetta gerir hann enn álitlegri kost í augum þeirra sem vilja komast sem mest á milli hefðbundinna vegalengda án þess að brenna of miklu bensíni.

Og hin mikla sparneytni gerir bílinn einstaklega hagkvæman í innkaupum. Og Benni veit hvað hann syngur þegar kemur að Porsche og þar skiptir aukabúnaðurinn miklu máli. Þess vegna býður hann bílinn nú með þungvigtuðum pakka sem alla jafna myndi bæta tveimur milljónum ofan á grunnverð bílsins, sem er 14.990.000. Í stað þess er pakkinn á 990 þúsund og tryggir eigandanum 21 tommu álfelgur, samlita brettakanta og svartlitaða háglanslista á hliðarrúðum, sportlega púststúta, litað gler, massífa leðurinnréttingu, 360° myndavél, geggjað Bose-hljóðkerfi og hita í sætum. Einhverjir myndu segja þetta frábært verð, kannski ekki fyrir vasahníf en bíl sem er einmitt það meðal bíla alveg ábyggilega.

Allt er rennilegt og sportlegt hjá Porsche. Smekklegheitin við völd.
Allt er rennilegt og sportlegt hjá Porsche. Smekklegheitin við völd. Unnur Karen
Vel fer um ökumann og farþega í öllum aðstæðum á …
Vel fer um ökumann og farþega í öllum aðstæðum á öllum tímum. Unnur Karen
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »