Glerþak jepplingsins mölbrotið

Nýr Hyndai Santa Fe er vígalegur.
Nýr Hyndai Santa Fe er vígalegur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hinn dæmigerði fjölskyldujepplingur. Dásamlegt hugtak. Það er svo margt í íslensku þjóðlífi sem má kjarna með jeppling sem einhvers konar grunntón, svo margt sem verður ekki útskýrt án þess að koma hugmyndinni um fjölskyldujepplinginn að. Hvað á ég við? Hvernig ætlarðu að kjarna sanníslenska útilegustemningu án þess að minnast á jeppling? Hvernig mundirðu útskýra það ferli að skutla barni á fótboltaæfingu í Fossvogi, án þess að jepplingur komi þar mögulega við sögu? Er hægt að tala um golfíþróttina án þess að tala um jepplinga? Nei – þar til nú.

Nýr Hyundai Santa Fe, vígalegur tengiltvinnbíll, mölbrýtur það glerþak sem áður hélt jepplingshugtakinu í skefjum. Aksturseiginleikarnir, öryggisbúnaðurinn, saumarnir í leðursætunum, hljóðið þegar maður lokar skottinu, hljómgæðin í steríóinu, grillið framan á bílnum. Allt þetta, og meira til, í nýjum Hyundai Santa Fe, hrærir saman mörkunum milli fjölskyldujepplings og lúxusjeppa.

Um leið og sest er í bílstjórasætið virðist maður vera kominn inn í jeppa. Ökumaður situr hátt og horfir ofan á þakið á öðrum jepplingum á götunni; Kia Sorento, Mitsubishi Outlander, Mazda CX-5 o.s.frv. Það sem við tekur eru tíglasaumuð leðursæti, leðurfóðruð innrétting, nútímalegt viðmót og snert af lúxus. Það eru góðu hlutirnir.

Innrétting bílsins er í takt við það sem vænta má …
Innrétting bílsins er í takt við það sem vænta má frá suðurkóreskum framleiðanda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það sem einnig tekur við er flóðbylgja takka og stillinga; allt sem snýr að miðstöð bílsins, gírskiptingin er takkastýrð, bakkmyndavélastillingar, hiti í sætum, kuldi í sætum, hiti í stýri og áfram og áfram. Allir þessir valkostir eru af hinu góða, en stungu í stúf með tilliti til annars fágaðs innvols í suðurkóreskum stíl. Margt sem blasti við hefði verið betur geymt í tölvu bílsins, bak við snertiskjá, í stað þess að gera bílinn að því sem líkist flugstjórnarklefa í litlum Fokker.

En, hvað um það. Fyrir einhvern græju- og stillingarglaðan fjölskylduföður getur verið gott að hafa allt þetta takkaflóð innan handar þegar á þarf að halda.

Harkaleg fjöðrun

Bíllinn er enda ekki gallalaus, eins og hálfkómískt takkaflóð ber merki um, fjöðrun bílsins var án efa stærsti ókosturinn að mínu mati. Það ætlaði allt um koll að keyra þegar keyrt var yfir hraðahindranir, þá sérstaklega þessar litlu, gulu og svörtu, eða holræsi á vegum. Í stað þess að maður yrði einskis var, virtist bíllinn helst vera að segja manni að slaka á. Með fyrirvara um það að fjöðrunarstilling hafi e.t.v. verið einn margra valkosta í áðurnefndu takkaflóði, þá vandist fjöðrunin þó ansi vel, verð ég að viðurkenna. Maður fann þó heldur betur fyrir þessari harkalegu fjöðrun þegar keyrt var yfir hálfónýtt malbik höfuðborgarsvæðisins – kannski er allt malbik bara slétt og fellt í Suður-Kóreu.

Rjómaostur í kjúklingasúpu

Hafandi útlistað einu tvo gallana sem ég gat merkt við reynsluakstur nýs Hyundai Santa Fe, rennur það upp fyrir mér að þeir blikna í samanburði við kosti bílsins. Eins og ég sagði áðan, nýr Hyundai Santa Fe gruggar þau skil sem eru á milli hefðbundinna fjölskyldujepplinga og lúxusbíla. Á meðan ég ók nýjum Santa Fe leið mér allan tímann eins og ég væri betri en þeir sem keyrðu á öðrum sams konar bílum. Verðið er enda hærra, rétt undir því sem Volvo XC90 kostar, en þrátt fyrir það ættu þeir, sem skoða nýjan bíl í þessum verðflokki, ekki að líta fram hjá nýjum Hyundai Santa Fe.

Það vantaði einhvern veginn ekkert, a.m.k. ekki fyrir mig og mína uppdiktuðu kröfuhörku (ég keyri um á 2008 Hyundai Getz-smábíl). Rými bílsins kom skemmtilega á óvart, svo stórt er skottið að hægt er að fá nýjan Hyundai Santa Fe í sjö manna útgáfu og miðað við plássið held ég að ekki muni væsa um þá sem aftast sitja. Útlit bílsins er líka eitthvað sem aðdáendur Hyundai Santa Fe eiga ekki að venjast, bílinn er meiri um sig, stærri, vígalegri og lúxuslegri. Grillið, ljósin að framan og aftan, „low-profile“-dekkin, afturendinn, leðrið, ég gæti haldi svona áfram í allan dag. Þar að auki er hann hljóðlátur, manni líður vel inni í bílnum, maður er öruggur og eins konar friður kemur yfir ökumann (nema rétt á meðan keyrt er yfir gula og svarta hraðahindrun).

Nýr Hyundai Santa Fe PHEV hrærir saman skilunum milli fjölskyldujepplings og lúxusjeppa eins og rjómaosti í mexíkóskri kjúklingasúpu – og útkoman er einstaklega bragðgóð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina