Með rafmagnið í stellinu

Rafmagnið hjálpar til við að knýja hjólið áfram en einnig …
Rafmagnið hjálpar til við að knýja hjólið áfram en einnig er hægt að nota hjólið eins og venjulegt órafmagnað hjól. mbl.is/Unnur Karen

Bylting hefur orðið í notkun hvers konar farartækja annarra en bíla síðustu misseri hér á landi eins og víða má sjá á götum borgar og bæja. Hjól hafa selst gríðarlega vel í faraldrinum til að mynda og aðstaða fyrir hjólafólk fer sífellt batnandi. Má líka sjá rafmagnshlaupahjól á nær hverju götuhorni, jafnvel svo að mörgum þykir nóg um. Þá hafa rafmagnshjól sótt verulega í sig veðrið. Nýir söluaðilar hafa rutt sér til rúms á markaðnum og úrvalið aukist jafnt og þétt.

Rafdrifnir hjólhestar ættu að vera miklir aufúsugestir á hrjóstrugu landi eins og Íslandi: landi sem hvorki er skógi vaxið milli fjalls og fjöru né heldur rennislétt eins og til dæmis hjólalöndin Holland og Danmörk eru að miklu leyti. Þá er landið okkar ekki alfarið laust við vinda sem gera hjólreiðamönnum oft lífið leitt, jafnvel svo mjög að fólk vílar fyrir sér að taka upp nýjan lífsstíl, leggja bílnum og stíga upp á reiðfák.

Öllu hjólinu er stýrt með einum takka eða í hjólatölvu
Öllu hjólinu er stýrt með einum takka eða í hjólatölvu mbl.is/Unnur Karen

Stuttur afhendingartími

Undirritaður prófaði rafmagnshjól í fyrsta skipti fyrir þremur árum og heillaðist af uppfinningunni. Ég greip því tækifærið fegins hendi þegar mér var boðið að prófa rafmagnshjól á ný, nú frá ungu fyrirtæki, Ofsa, sem hefur vaxið ásmegin síðustu misseri. Hjólin eru flutt inn frá Spáni og eru eingöngu seld í gegnum netið. Lagerhald er því ekki neitt en afhendingartíminn samt sem áður ótrúlega stuttur að sögn aðstandenda. Ekki skemmir fyrir að hjólin eru seld á sama verði hér á landi og úti í heimi, en það er hluti af viðskiptahugmyndinni.

Hjólið sem mér var treyst fyrir er af gerðinni Orbea Gain M20 1X (malarútgáfa). Það er búið 28 mm dekkjum en venjuleg „racer“-dekk eru aðeins grennri eða 25 mm. Dekkin sem koma með grunnútgáfu hjólsins eru hins vegar 38 mm malardekk.

Þrátt fyrir að vera rafmagnshjól með tilheyrandi rafhlöðu, innbyggðri í stellinu, þá er farartækið langt í frá þungt í meðförum, einungis 12,2 kg. Batteríið er 250 wattstundir en hægt er að auka aflið upp í 450 wattstundir með því að smella aukabatteríi í vatnsflöskustæðið.

Hönnunin er naumhyggjuleg að því leyti að allir kaplar eru …
Hönnunin er naumhyggjuleg að því leyti að allir kaplar eru faldir, lítið fer fyrir batteríinu inni í stellinu og mótorinn er í afturgjörð. mbl.is/Unnur Karen

Reyndi á í annarri ferð

Hjólið var afhent eftir góða kynningu í efri byggðum Garðabæjar og því þurfti ég ekki að láta reyna mikið á batteríið til að byrja með. Það var í raun ekki fyrr en í annarri hjólaferðinni sem allir kostir rafhjólsins fengu að njóta sín. Þá beindi ég stýrinu á margar helstu brekkur bæjarins og leitaði einnig eftir eins miklu roki í fangið og kostur var á.

Í fyrri hjólaferðinni svitnaði ég nánast ekki neitt. Ég valdi léttan gír, leyfði rafmótornum að hjálpa mér og tók því aðeins hæfilega mikið á því. Í seinni ferðinni hafði ég hjólið í þyngri gír og leyfði mér að svitna meira, enda kominn í íþróttagallann. Ég notaði þrískipta hjálpina sem vélbúnaðurinn veitir upp brekkur en niður brekkur slökkti ég á hjálpinni. Með þessu móti getur fólk sem hingað til hefur ekki treyst sér til að verða hluti af hjólabyltingunni látið slag standa.

Innstungu fyrir hleðslusnúru er haganlega komið fyri.
Innstungu fyrir hleðslusnúru er haganlega komið fyri. mbl.is/Unnur Karen

Öllu er stjórnað á litlum en samt handhægum skjá á stýrinu og á slánni er einn lítill takki þar sem kveikt er og slökkt á rafmagninu. Orbea gefur sig út fyrir naumhyggjulega hönnun sem takkinn er einmitt til vitnis um, rétt eins og innbyggð ljós að framan og aftan og nýstárleg innbyggð, sveifarlaus hæðarstjórnun á hnakk sömuleiðis.

Gírskiptinguna er að finna hægra megin í stýrinu. Maður ýtir á neðri bremsuna til að skipta upp, en á efra handfangið til að skipta niður aftur, sem er mjög þægilegt.

Það er óhætt að mæla með þessu laglega hjóli frá Orbea sem fær mann til að hlakka til að fara út að hjóla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina