Engin uppgjöf í Waterloo

Yaris Cross. Það er skiljanlegt að hann sé sagður töffari.
Yaris Cross. Það er skiljanlegt að hann sé sagður töffari. Ljósmynd/Toyota

Yaris Cross, nýi litli jepplingurinn frá Toyota, var frumsýndur 30. október sl. hér á landi. Bíllinn á vafalaust eftir að vekja töluverða eftirtekt enda er hann að mörgu leyti mjög hentugur fyrir íslenskar aðstæður, til dæmis í vetrarakstri innanbæjar. Úti á vegi er hann einnig kvikur í hreyfingum allt árið um kring eins og blaðamaður komst að raun um þegar hann prufaði ökutækið í uppsveitum Brussel í Belgíu á dögunum.

Á meðal þeirra staða sem brunað var framhjá var sjálft Waterloo þar sem „Napóleon gafst upp“ eins og sænska hljómsveitin ABBA sagði frá í vinsælum söng hér um árið. Það kom þó engin uppgjöf til greina í reynsluakstrinum góða. Ég gaf bílnum bara meira inn ef eitthvað var.

Toyota lýsir Yaris Cross sem lífsstílsbíl með persónuleika – ökutæki sem fólk á að geta ekið stolt um borg og bý. Ekki skemmir fyrir að hægt er að auka hraðann upp í 130 km á klukkustund á rafmagninu einu saman.

Ljósmynd/Toyota

Lengri og breiðari

Bíllinn kemur eingöngu í blendingsútgáfu (e. hybrid). Hann er með 1,5 lítra bensínvél auk rafmótors sem hlaðið er inn á á ferð. Viðskiptavinir geta valið framhjóladrifna útgáfu eða fjórhjóladrifna. Það er einmitt sá fjórhjóladrifni sem hentað gæti sérlega vel þegar tekið er af stað á ísilögðum gatnamótum eða spanað inn í flughálar íslenskar beygjur.

Þó að Yaris Cross sé smábíll í flestum skilningi er hann bæði lengri, breiðari og hærri en hefðbundinn Yaris. Hann er nánar tiltekið 95 mm hærri, 20 mm breiðari og 24 cm lengri.

Þá er hann betur búinn en flestir smábílar og með honum fylgja ýmis varnarkerfi (árekstrarvari, varnaðarkerfi fyrir gangandi og hjólandi, akreinavari, hraðaskiltalestur o.s.frv.), bílastæðahjálp, níu tommu háskerpuupplýsingakerfi með snertiskjá, þráðlaust Apple Car Play og Android Auto, þráðlaus símahleðsla og hraðamælir í framrúðu (e. head up display) svo eitthvað sé nefnt. Þá hljómar tónlistin vel úr JBL-hátölurunum. Óhætt er að segja að nokkurs konar lúxusútgáfa af Yaris sé hér á ferðinni.

Bílastæðahjálp með minni

Það er gaman að geta þess að bílastæðahjálpin býður upp á minni, en hægt er að stimpla inn þrjú stæði sem bíllinn getur þá lagt sér sjálfur í, eins og til dæmis bílastæðið heima, þegar maður skilar sér til baka í myrkri eða slæmu skyggni.

Til að gefa bílaáhugamönnum smá samanburð þá er hollningin á Yaris Cross ekki ósvipuð Hyundai Kona eða Ford Kuga og bíllinn er einu númeri minni en Toyota CHR, sem er næsta jepplingsstærð fyrir ofan í Toyota-fjölskyldunni.

Ytra byrði Yaris Cross er gæjalegra en innra byrðið sem er fremur hefðbundið og býr ekki yfir neinum sérstökum vá-eiginleika. Innréttingin er þó smekkleg og sætin sportleg og þægileg. Það sama má segja um stýrið. Í miðju er hægt að setja tvo drykki og einnig er pláss fyrir flöskur í hurðum. Hanskahólfið er lítið.

Að utan er bíllinn með fallegar og skarpar línur. Hann er þrekvaxnari og jeppalegri en hefðbundinn Yaris, og áberandi hærra upp frá götunni. Samkvæmt uppgefnum tölum munar þremur sentimetrum á veghæð Yaris og Yaris Cross. Það gerir að verkum að auðveldara er að setjast inn í bílinn. Plássið frammí er gott, bæði fyrir fætur og höfuð, en aftur í er ekki eins rúmt um fullorðinn einstakling.

Ljósmynd/Toyota

Upplifun sem kom á óvart

Auk þess að keyra um sveitavegi fór hluti reynsluaksturs bílablaðamanns fram á hraðbrautum Belgíu þar sem hraðinn er nánast ótakmarkaður. Snerpan og aksturshæfnin á fullu gasi kom á óvart miðað við smæð og léttleika bílsins en bifreiðin hefur yfir að ráða einum 116 hestöflum.

Leiðsögukerfið virkaði vel í ferðinni. Það er beintengt við netið, sem er nýjung, en bíllinn er búinn SIM-korti og samkvæmt upplýsingum frá Toyota verður notkun þess ókeypis fyrstu fjögur árin. Eftir það þarf að greiða einhverju símafyrirtæki fyrir áskrift.

Blaðamaður gerði stutt stopp nálægt mjólkurbúi skammt frá Brussel og opnaði þar skottið með því að sveifla fætinum létt undir afturstuðarann. Skottið er 400 lítrar en því er skipt í tvennt með fölsku gólfi á milli, þunnum plötum sem hægt er að kippa í burtu. Þannig eykst geymsluplássið.

Einnig eru í boði teygjur til að festa varning svo hann kastist ekki til þegar skarpt er ekið og hlífin yfir skottsvæðinu er samanbrjótanleg úr mjúku efni, sem er nýtt af nálinni.

Þegar sæti eru felld niður eykst plássið í skottinu upp í nákvæmlega 1.097 lítra og því er auðveldlega hægt að skutla hjóli þangað inn, skíðum eða öðru dóti af fyrirferðarmeira taginu.

Að lokinni þessari skoðun ýtti ég á takka á hleranum sem lokaði skottinu mjúklega á sjálfvirkan hátt.

Því fylgdi notaleg og léttleikandi tilfinning að aka Yaris Cross. Hann er vissulega frekar lítill en aukabúnaðurinn, fjórhjóladrifið og stællegt útlitið bætti það allt saman upp.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »