Þjáll og lipur á léttum nótum

Tesla 3 nær að spila flestar stöður vel, svo gripið …
Tesla 3 nær að spila flestar stöður vel, svo gripið sé í fótboltamál. Hann er töff en látlaus, nýtískulegur en klassískur, lítill en stór. Það eru töfrarnir sem tryggja honum vinsældir umfram aðra. mbl.is/Árni Sæberg

Það er aldrei neitt sérstaklega spennandi tilhugsun að lenda á Charles de Gaulle-flugvellinum rétt norðan við París. Það er helst tilhlökkunin um að komast inn í borgina sem gerir dvölina á þessum óskipulagða velli bærilega. En stundum er það fleira sem togar í og það átti svo sannarlega við um daginn þegar ég átti leið til Frakklands.

Tvennt dró mig þangað: kampavín og Tesla. Eða kannski í öfugri röð. Annars má njóta á eftir hinu, en ekki öfugt.

Loksins komið að þristinum

Ég hélt því nokkuð í vesturátt eftir að á flugvöllinn var komið og bankaði upp á hjá Tesla-mönnum stór-Parísarsvæðisins. Þeir höfðu verið svo elskulegir að hafa til fyrir mig þrist úr smiðju Musk en það er skömm frá því að segja að ég hef aldrei sest upp í slíkan bíl fyrr en nú, en hef á síðustu árum oftsinnis bæði setið í og ekið Tesla S og X.

Það var því kominn tími á þetta stefnumót enda Model 3 einn athyglisverðasti bíll sem komið hefur á göturnar á síðustu árum, þótt ekki væri nema bara fyrir þá staðreynd hversu gríðarlegra vinsælda hann hefur notið. Og þegar tengiliður minn hafði sýnt mér allt sem ég þurfi helst að kunna skil á, bæði hvernig bíllinn er settur í gang og hvernig hægt er að kalla fram „prumpuhljóð“ með bílflautunni, var stefnan nú sett í austurátt og leiðsögukerfinu sagt að koma mér til Reims – hinnar fornu höfuðborgar Champagne-héraðs. Til þess að tryggja nákvæman lendingarstað óskaði ég eftir því að leiðin lægi sem greiðast að Notre Dame, hinni helgu dómkirkju þar sem 34 konungar Frakklands voru smurðir til þjónustu við þegna sína og landið sem þeir ríktu yfir.

Tesla reynsluakstur
Tesla reynsluakstur Árni Sæberg

Grunnútgáfan og ekkert múður

Af lítillæti útveguðu Tesla-menn mér standard-útgáfuna af þristinum, ekkert of eða van og kannski ekki síst til þess að sýna ferðalangnum fram á að maður þarf ekki endilega að velja stærstu rafhlöðuna eða mesta aukabúnaðinn til þess bæði að komast á leiðarenda og njóta ferðarinnar til hins ýtrasta.

Mestu skipti að komast í tæri við þetta tæki á vegum þar sem maður má spretta eilítið meira úr spori en sem nemur 90 km á klukkustund. Það er yfirleitt ekki fyrr en maður kitlar pinnann nær öðru hundraðinu sem maður kemst að því úr hverju bílar eru raunverulega smíðaðir og hvort hönnuðir og framleiðendur hafi í raun staðið í stykkinu. Sem aðdáandi þýsku jálkanna hef ég um nokkurt skeið óttast að ódýrasti meðlimurinn úr Tesla-fjölskyldunni hlyti að vera óttaleg dós og nú var kannski færi til að sanna það.

Pinninn kitlaður

Þegar komið var út úr borgarþvögu Parísar gafst möguleiki á því að láta mótorinn, sem knýr afturhjólin áfram, vinna fyrir kaupinu sínu. Og maður minn! Rétt eins og í öllum öðrum Teslum verður maður eiginlega frá sér numinn yfir því hversu átakalaus hröðunin er og fumlaus og aldrei virðist skorta kraft, aðeins viðbragðsflýti ökumannsins sem berst við að tryggja aðstæður á sífellt meiri hraða.

En það þarf að fara varlega í Frakklandi. Umferðarlögreglan vinnur fyrir kaupinu sínu, ólíkt flestum opinberum starfsmönnum þar í landi, og þá hefur hún fyrir löngu tekið í sína þjónustu myndavélar sem eru skæðari en RAX. Þær ná öllu því sem enginn á að geta fangað á mynd og þær virðast oft birtast úr fylgsni sínu á stöðum þar sem þarf meira en frjótt ímyndunarafl til að hengja slíkan búnað upp.

Afturljósin, rétt eins og framljósin, vitna um framtíðina. Eru einhvern …
Afturljósin, rétt eins og framljósin, vitna um framtíðina. Eru einhvern veginn á undan sinni samtíð. Rétt eins og hugmyndasmiðurinn sjálfur er. mbl.is/Árni Sæberg

Nappaður á besta stað

Enda kom það upp úr dúrnum þegar heim var komið, að ég hafði verið nappaður. Mestar áhyggjur hafði ég þegar Tesla-menn í Frakklandi höfðu samband og tilkynntu mér að sektarboð hefði borist vegna Íslendingsins, að þeim hefði tekist að nappa mig í þessi örfáu skipti sem ég lét virkilega reyna á bílinn á miðri hraðbrautinni. En nei, þarna hafði mínimalismi frönsku lögreglunnar náð nýjum hæðum (eða hraða) og blaðamaður frá norðurhjara veraldar var eltur uppi vegna þess að hann hafði vogað sér að aka á 59 km hraða þar sem dauðasynd þykir að aka hraðar en á 50! Sektin var því lág og léttvæg miðað við hvað orðið hefði ef allt hefði farið á versta veg.

Þegar á leiðarenda var komið í Reims var nóg eftir á rafhlöðu bílsins og staðfesti það í eitt skipti fyrir öll að drægnikvíði fólks er yfirleitt með öllu ástæðulaus. Á leiðinni hefði ég getað stoppað á fleiri en einum stað og skotið 80-100 km drægni á bílinn á örskotsstund. Og þegar maður er kominn til Reims er maður búinn að aka nóg, hvort sem maður hefur farið um langan veg eða stuttan, enda annað og þarfara að gera þar í borg en að keyra um strætin. Ég lagði því kagganum í kjallara Best-Western-hótelsins. Þar var mér sagt að ég gæti komið bílnum fyrir og í hleðslu og það kom skemmtilega á óvart að á þessu ágæta, en ekki dýra hóteli, voru tvær Tesla-hleðslustöðvar og fyrir geymslu yfir nótt, með fullri nýtingu á stöðinni borgaði ég aðeins 14 evrur eða 2.100 krónur. Það er vel sloppið og til fyrirmyndar og segir manni að ferðaþjónustuaðilar munu ná forskoti á keppinautana ef þeir huga að smáatriðum eins og þeim að tryggja aðgengi rafbílaeigenda eða -leigjenda að búnaði sem þessum.

Innanstokkurinn

Það verður ekki af töframanninum Musk tekið að hönnunin er öll stílhrein á bílnum, jafnt að innan sem utan og ef Tesla væri farsími þá væri hún iPhone. Þarna hefur sama hugsunin búið að baki: notandinn í fyrsta sæti og einfaldleikinn og aðgengileikinn númer eitt, tvö og þrjú. Einn risastór skjár sem öllu skiptir (fyrir utan hinn náttúrulega – framrúðuna). Þar má stýra öllu sem heitið getur og fylgjast með frammistöðu bílsins. Það tekur nokkurn tíma að venjast því að láta sjóntaugarnar leita á mitt mælaborðið, milli framsætanna en ekki á tölur og mæla sem rýna má í gegnum stýrishjólið. Fyrst í stað finnst manni það ekki öruggt en þegar upp er staðið á maður auðvitað að hafa augun á veginum og njóta aksturseiginleikanna en ekki að vera í tíma og ótíma að skipta um hitastillingar á sætum eða fylgjast með tölfræði um hversu mörgum kílóvöttum bíllinn hefur eytt síðustu metrana.

Mínimalismi er hugtakið sem kemur upp í hugann en stílhrein …
Mínimalismi er hugtakið sem kemur upp í hugann en stílhrein hönnun auðvitað einnig. Svona hefði Steve Jobs sennilega hannað bíl ef hann hefði verið í þeim bransa. Tesla er auðvitað iPhone bílamarkaðarins, er það ekki? mbl.is/Árni Sæberg

Fleiri töfrabrögð fram undan

Þegar ég gekk í hjónaband 17. júní 2014 var rauð Tesla S valin til þess að flytja brúður á staðinn og okkur saman til veislu. Það var framúrstefnulegt þá og bíllinn töfrum líkastur. En hann kostaði annan handlegginn. Tesla 3 er hagkvæmur kostur og spennandi fyrir þá sem vilja taka stökkið inn í framtíðina. Það er ekki að ástæðulausu sem Tesla er verðmætasti bílaframleiðandinn í heiminum. Að hálfu leyti er það vegna þeirra Tesla sem við þekkjum í dag, að hinu leytinu vegna þeirra töfrabragða sem menn vita að Musk sé líklegur til þess að sýna á komandi árum. Mikið verður það gaman! 

Hvítt til marks um hagsýni

Flestir þristarnir eru hvítir og það kemur til af tveimur ástæðum. Hvítur er elegant litur sem hefur verið í tísku í bílaheiminum um nokkurra ára skeið. Hin ástæðan er sú að hvíti liturinn er ódýrastur á verðlistum Tesla. Þeir sem vilja gera reyfarakaup á rafbílamarkaði eru líklegir til að velja Tesla 3 og ef hagsýnin er í algjöru fyrirrúmi er hvíti liturinn augljós valkostur.
Eintakið sem prófað var í Frakklandi var hvítt að lit. …
Eintakið sem prófað var í Frakklandi var hvítt að lit. Það er nú litur hagsýninnar og þar með dyggðar sem flestir mættu temja sér. mbl.is/SES

Marta María Jónasdóttir, vinkona mín og kollegi á Mogga, varpaði sprengju inn á bílamarkaðinn 8. maí í fyrra. Það var örfáum mánuðum eftir að Tesla 3-bifreiðum hreinlega rigndi yfir íslenskar götur og allt í einu var sem enginn hefði keypt annað en Teslu síðustu misserin. Augljóslega höfðu flestir tekið hagkvæmasta kostinn og því urðu þessir flottu bílar afar frekir á athyglina á götunum. Spurði lífsstílsdrottningin hvort hvít Tesla 3 væri ígildi Omaggio-vasans sem gerði allt vitlaust um árið. Þar var á ferðinni snyrtilegur postulínsvasi (eða er það ekki?), hvítur með oftast nær silfruðum þverröndum. Ef ekki hefði verið fyrir algjört æði sem rann á landann sem olli því að vasinn var alstaðar og úti um allt, ekki síst þar sem hann síst passaði inn, hefði hann sennilega gleymst fyrir ekkert, en nú verður hans alla tíð minnst sem táknmyndar fyrir smekkleysi og það hvernig múgæsingur getur gert fremur einfalda og snyrtilega hönnun afar óaðlaðandi með því einu að henni er troðið út um allt.

Ég ætla þó að leyfa mér að halda því fram að hvíta Teslan muni ekki hljóta sömu örlög og vasinn ólánsami. Til þess er Teslan of flott og eftir að markaðurinn tók hrollinn úr sér tekur maður meira eftir gráum, rauðum og bláum Teslum á götunum. Hvíti liturinn verður áfram áberandi, en ólíkt því sem tíðkaðist á árum áður með dýra lúxusjeppa, er hvíti liturinn ekki lengur til marks um töffaraskap – nær er að halda að um borð sé formaður Neytendasamtakanna eða Ninni níski.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: