Torfærujeppi í dulargervi

Útsýni er gott og mælaborð vel staðsett rétt fyrir ofan …
Útsýni er gott og mælaborð vel staðsett rétt fyrir ofan stýri. Ásdís Ásgeirsdóttir

Hann er með harðan skráp en ljúfur inn við beinið nýi rafbíllinn frá Toyota, nefndur bZ4X. Þessi stórglæsilegi bíll er eins konar blanda af lúxusbifreið og töffaralegum sportjeppa. Á hraðbrautum líður hann um eins og kona í silkináttfötum en þegar komið er í torfærur skiptir hann um föt, fer í skítagallann og brettir upp ermar!


Það fyrsta sem blaðamaður velti fyrir sér var nafnið, bZ4X, og satt að segja ætlaði hann aldrei að geta munað það, enda alltaf átt erfitt með slíkar skammstafanir. Gott er að vita að bZ stendur fyrir Beyond Zero og svo er hægt að fá hann með drif á öllum, sem sagt fjórhjóladrifinn: 4X. Með nafninu vilja framleiðendur leggja áherslu á að bíllinn sé hundrað prósent rafmagnsknúinn og mengi því ekkert; kolefnisspor neytandans er því núll, og jafnvel „handan núll“. Með því að keyra rafbíl sem þennan leggja bæði neytandinn og framleiðandinn sitt á vogarskálar í baráttunni fyrir betri heimi þar sem útblástur bíla eyðileggur ekki framtíð barna okkar, sem er gott og blessað.

Forskot á sæluna

Ég gæti hæglega sagt ykkur að Toyota bZ4X sé hugvitssamlega hannaður, sparneytinn og kröftugur rafmagnsbíll sem skilar sínu á öllum sviðum. En tölum um það síðar í greininni. Fyrst langar mig að lýsa upplifuninni af því að keyra þennan fallega bíl, en blaðamaður fékk að taka aðeins í bZ4X á götum, hraðbrautum og í torfærum á Katalóníu á Spáni.

Það var sannarlega ánægjulegt að fá tækifæri til að yfirgefa land lægðanna og halda suður á bóginn, nánar til tekið til Sitges, strandbæjar suður af Barcelona á Spáni. Þar beið mín áðurnefndur Toyota bZ4X, rennilegur og sportlegur, rafmagnsknúinn og hljóðlátur, kraftmikill og töff. Bíllinn er enn ekki kominn á markað en blaðamenn fengu forsýningu; smá forskot á sæluna, en hann kemur á göturnar um mitt árið. Þeir sem eru forsjálir geta pantað eitt stykki fyrir fram hjá umboðinu og verið fyrstir á landinu til að fá splunkunýjan bZ4X í hendurnar.

Ásdís Ásgeirsdóttir

Blanda af fólksbíl og jepplingi

Fyrir utan hótelið í Sitges biðu fjórir eins bílar, allir „klæddir“ í röndóttan búning svona til að poppa upp á útlitið fyrir blaðamenn og tilvonandi kaupendur. Morguninn eftir komuna var lagt í hann og keyrt sem leið lá upp í fjöllin í kring. Sólin skein í heiði og hitastigið nálgaðist fimmtán gráður, fullkomið veður eins og á góðum íslenskum sumardegi.

Undirrituð settist undir stýri, andaði að sér lyktinni sem fylgir nýjum bílum og setti sig í stellingar fyrir ökuferðina sem fram undan var. Bíllinn er nokkurs konar blanda af fólksbíl og jepplingi; passlega stór, ekki of lágur og rúmgóður að innan. Tveir farþegar frá Toyota fengu far og vel fór um þá báða, annar fram í en hinn í aftursæti. Stýrið er þægilegt og fremur lítið, en í seinni tíma útgáfum verður stýrið ekki hringlaga, heldur eins og stýri í flugvél, sem hljómar spennandi!

Að líða um sveitavegi

Búið var að stilla GPS-tæki bílsins þannig að nær ómögulegt væri að villast, en ökuferðin tók um einn og hálfan tíma og lá leiðin upp fjöllin. Bíllinn rann ljúflega áfram eftir katalónskum hraðbrautum og síðar sveitavegum; hann lét afar vel að stjórn og létt að stýra og gaman að gefa af og til í því hann tók vel við sér. Hann var svo þægilegur að það var næstum eins og hann keyrði sig sjálfur og það var hrein unun að líða um sveitirnar og njóta útsýnisins. Á leiðinni mátti sjá vínakra og kirsuberjatré í blóma, sveitabæi á stangli, gígantískar vindmyllur í röðum og þegar upp á topp var komið var útsýni yfir sjó og græn fjöll til allra átta svo langt sem augað eygði. Bíllinn steig ekki feilspor ef svo má segja, þótt bílstjóranum hafi tekist að villast nokkrum sinnum af leið. Það kom ekki að sök, enda var tölvuskjárinn stór og flottur og leiðsögukerfið vísaði okkur réttu leiðina. Nægur tími var til að snúa við og finna aftur réttu vegina, en áfangastaðurinn var herrasetur ríks rallýökumanns sem undirrituð viðurkennir að hafa aldrei heyrt getið; Nasser heitir víst kappinn.

Tólf tommu skjár og aðrar stillingar eru handhægar á milli …
Tólf tommu skjár og aðrar stillingar eru handhægar á milli sætanna. Toyota

Þverhnípt brekka og bænir

Á herrasetrinu fína beið okkar kaffi og með því, en ekki var tími til að drolla; svartklæddir töffarar frá Toyota biðu eftir blaðamanninum því nú átti að fara í torfærur! Toyota bZ4X er nefnilega ekki allur þar sem hann er séður; hann er torfærujeppi í dulargervi lúxusbifreiðar. Nú fór bZ4X úr silkináttfötunum og klæddi sig í vinnufötin, því þessi bifreið er ekki hrædd við að óhreinka sig!

Það var komið að því að sjá hvort ekki væri hægt að skíta aðeins út þennan eðalkagga og njóta aldrifsins sem hann býður upp á. Með XMODE-hnappinum á milli sætanna er smellt á mismunandi stillingar fyrir hvaða akstursaðstæður sem er, snjó, leðju, háa skafla eða djúpa aurpolla, en að auki er bíllinn búinn gripstjórn fyrir vandasamari akstur á torfærum leiðum.

Byrjað var á að keyra í hringi á moldarvegi og var þá undirrituð með aðstoðarökumann sér við hlið, sérfræðing sem gat kennt á hina ýmsu takka sem finnast í þessum bíl. Gefið var duglega í og skransað í beygjum, svo rykið þyrlaðist upp. Eftir nokkra slíka hringi var keyrt inn í rjóður þar sem beið okkar nánast þverhnípt brekka. Hallinn var 30 gráður og þar áttum við að fara niður, en án þess að snerta bremsuna og að sjálfsögðu var óþarfi að snerta bensíngjöfina, sem heitir nú líklega eitthvað annað. Rafmagnsgjöfina? Inngjöfina? Inngjafarfótstigið?

Alla vega, brekkan beið okkar og nú var bara að láta sig húrra niður. Farið var með nokkrar maríubænir á leiðinni en aðstoðarökumaðurinn fullvissaði blaðamann um að allt yrði í lagi. Og niður komumst við klakklaust því bíllinn sá um verkefnið óaðfinnanlega og niður brekkuna fór hann án vandræða.

Bílinn má vel fara með í torfærur, enda sérhannaður til …
Bílinn má vel fara með í torfærur, enda sérhannaður til þess. Þegar stillt er á „drullu og snjó“ þýtur hann í gegnum leðjuna eins og að drekka vatn. Ásdís Ásgeirsdóttir

Drullumall og pollar

Næst var leikið í pollum og drullumallað. Ekið var sem leið lá í þrjátíu sentimetra djúpt vatn sem reyndist létt verk og enginn blotnaði í fæturna við þann gjörning. Þar næst var keyrt yfir hóla þar sem bíllinn vó salt því hólarnir voru á víxl þannig að önnur hlið bílsins var ofan á hól á meðan hin var í dæld. Smá kúnst var að komast yfir þessa þraut en það tókst með glæsibrag og aldrei snerti botn bílsins jörð.

Þá var það skemmtilegasta eftir. Drullumall! Búið var að útbúa hringlaga braut þar sem vegurinn var blaut leðja og drulla. Aðstoðarökumaður blaðamanns lét hann keyra beinustu leið í mestu drulluna og stansa þar, stilla síðan á venjulega vegstillingu og gefa svo í. Bíllinn komst ekki spönn frá rassi og spólaði þar pikkfastur. Þá var að reyna á tæknina og stilla á „drullu og snjó“, en með XMODE-hnappinum smellirðu í gegnum mismunandi stillingar fyrir hvaða akstursaðstæður sem er. Nú var gefið í og sportjeppinn skaust eins og eldibrandur upp úr drullunni og nánast tókst á loft. Svona spólaði hinn áður stillti og prúði bZ4X og fékk útrás hring eftir hring í drullunni. Innri „maður“ kom í ljós og undir fallegu og hreinu yfirborði birtist nú hinn grjótharði nagli sem kallar ekki allt ömmu sína. Sportjeppi af bestu gerð var mættur.

Bíllinn varð auðvitað haugdrullugur á eftir en til þess var leikurinn gerður. Starfsmenn Toyota voru ekki lengi að skola af honum drulluna og hinn fágaði eðalvagn var mættur á ný, tilbúinn í myndatöku undir heiðbláum Spánarhimni.

Nýstárlegt stýri með vír

Víkur nú tali að tæknilegri hlutum bifreiðarinnar. Fyrst má nefna að rafhlaðan er undir gólfi bílsins, sem skilar sér í lágri þyngdarmiðju og jafnvægi í þyngd sem aftur skilar sér aftur í einstökum stöðugleika. Í hönnun er hann smart og voldugur, með kassalaga framenda. Að aftan leggja hönnuðir áherslu á hornin með sérstöku afturljósi sem nær horna á milli. Að innan er ágætispláss. Ökumaður er með gott útsýni út um glugga en beint í augnhæð, rétt yfir ofan stýrið, má finna mælaborðið, vel staðsett og ekki of stórt. Tólf tommu snertiskjár er á milli sæta, mátulega stór. Hann er með raddstýringu, samþættingu snjallsíma og með þráðlausum uppfærslum veitir Toyota Smart Connect aðgang að heilum heimi snjallra tengimöguleika. Hægt er að fylgjast með hleðslustöðunni, velja hleðslutíma og fjarstýra hitastigi bílsins í gegnum MyT-forritið í snjallsímanum.

Stýrið kemur til með að vera nýstárlegt og er bZ4X fyrsti bíll frá Toyota sem skartar stýri sem byggir á nýju kerfi þar sem ekki lengur er stuðst við stöng frá stýri niður í framdekk, heldur rafmagnsvír. Það skapar meira fótapláss en einnig þykir auðveldara að stýra þessu nýja stýri sem líkist frekar því sem finnst í flugvélum en bílum. Verður slíkt „flugvélastýri“ valbúnaður síðar meir, en fyrstu bílarnir verða þó með hefðbundnu stýri.

Hámarkshraði er 160 km/klst. og er bíllinn 7,5 sekúndur í hundrað, en í aldrifstýpunni aðeins 6,9 sekúndur. Með því að ýta á hnappinn fyrir akstur með einu fótstigi er hægt að auka hraðann og hægja á bílnum með því að nota einungis inngjafarfótstigið, en við það eykst einnig endurheimt hemlunarorka. Hann er búinn kerfi sem varar við farartækjum sem koma of nálægt og varar einnig við ef bíllinn rásar yfir á öfugan vegarhelming. Einnig er hann útbúinn myndavélum og skynjurum svo hægt er að láta hann leggja sjálfan í stæði.

Bíllinn bZ4X er vel útbúinn, smart, hugvitsamlegur rafbíll sem stendur sig vel á hvers kyns vegum. Og hann kemst alla leið til Akureyrar á einni hleðslu.

Í bZ4X kemur til með að vera nýstárlegur og öðruvísi …
Í bZ4X kemur til með að vera nýstárlegur og öðruvísi stýribúnaður. Toyota

Toyota bZ4X

» Stærð rafhlöðu: 71,4 kWst

» Drif: framhjóla- og AWD.

» Afl: framhjd.: 204 hö / 265 Nm. AWD: 218 hö / 336 Nm

» Hröðun 0-100 km/klst framhjd.: 7,5 sek.; AWD: 6,9 sek.

» Hámarkshraði 160 km/klst

» CO2-losun: 0 g/km

» Drægi á hleðslu: 411 til 500 km, mismunandi eftir búnaði og útfærslu og hvort bíllinn er framhjóladrifinn eða WD

» Eigin þyngd: 1.920-2.020 kg, eftir búnaði.

» Stærð farangursrýmis 452 l

» Umboð: Toyota

» Grunnverð: 6.990.000 kr

» Verð eins og prófaður: 8.890.000 kr

Þessi töffaralegi eðalvagn er smart að aftan með köntuðum afturljósum …
Þessi töffaralegi eðalvagn er smart að aftan með köntuðum afturljósum sem ná horna á milli. Ásdís Ásgeirsdóttir
Ásdís Ásgeirsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: