Óvænt útsýni yfir borgríkið

Aygo X hefur sportlegt útlit, er afskaplega lipur og kemst …
Aygo X hefur sportlegt útlit, er afskaplega lipur og kemst leikandi létt í lítil stæði, en bakkmyndavél fylgir öllum útgáfum. Við hönnun bílsins lagði Toyota ríka áherslu á sparneytni. Ljósmynd / Toyota

Toyota kynnti fyrr á þessu ári hinn nýja Aygo X, eða Aygo Cross, sem leysir borgarbílinn Aygo af hólmi í hillum japanska bílaframleiðandans.

Bíllinn markar ákveðin tímamót fyrir Toyota, því hann er í raun hannaður frá grunni í Frakklandi og Belgíu, með þarfir evrópskra neytenda í huga. Þá kemur vélin frá Póllandi en bíllinn sjálfur er smíðaður í Tékklandi.

Frá því fyrsti Aygo-inn kom á markað árið 2005 hefur bíllinn verið sá aðgengilegasti úr röðum Toyota í heimsálfunni. Þessi útgáfa er eðli máls samkvæmt enn smá í sniðum, en nýja lagið á bílnum færir hann þó fjær útlitinu á þessum hefðbundna borgarbíl og nær útliti jepplings. Dekkin eru höfð stór, en þau nema 40% af hæð bílsins, sem gerir hann óneitanlega einhvern veginn traustverðugri á að líta.

Dregið úr stærð hliðarbita

Þá skemmir ekki fyrir að bíllinn er með 1,1 sentimetra meiri veghæð en í síðustu útgáfu Aygo. Ökumaðurinn situr sömuleiðis hærra en áður í bílnum, en sætisstaðan er 5,5 sentimetrum hærri en í síðustu kynslóð. Samkeppnisbílarnir eru ef til vill Kia Picanto og Hyundai i10, en í þeim situr ökumaður ekki jafn hátt. Dregið var úr stærð hliðarbitanna frá fyrri útgáfu og þeim breytt til að bæta útsýni ökumanns, sem gerir það að verkum að óvenju víðsýnt er úr þessum annars smáa bíl.

Beygjuradíusinn ekki mikill

Allt þetta kom að góðum notum þegar haldið var út á þéttskipaðar og fjölfarnar götur Barcelona í byrjun aprílmánaðar. Samt sem áður tók það ekki langan tíma fyrir Íslendinginn að villast af leið, og fyrr en varði var blaðamaður kominn í öngstræti. Öllu máli skiptir þá að geta snúið snurðulaust við og beygjuradíusinn brást sem betur fer ekki, en hann er ótrúlega lítill, eða aðeins 4,7 metrar.

Bílar af þessari gerð henta enda vel í þröngum borgum á meginlandi Evrópu, og til þess hannaðir, en þeir hafa þó notið sífellt meiri vinsælda á Íslandi. Þrátt fyrir stærð landsins verður líka að játast að við erum nokkurn veginn borgríki, að minnsta kosti í þeim skilningi að langflestar ferðir innan landsins eiga sér stað á nokkurra tuga ferkílómetra svæði hér á suðvesturhorninu.

Ökumenn geta tekið ofan

Grunngerð bílsins er með 17" álfelgum, 7" snertiskjá, bæði Apple CarPlay og Android Auto, auk öryggiskerfisins Safety Sense, sem innifelur hraðastilli, árekstrarvara, sjálfvirk háljós og neyðarstýrisaðstoð. Miðgerðin hefur 18" felgur, 7" snertiskjá, lofthitakerfi, sjálfvirkar rúðuþurrkur og þokuljós, en einnig má fá strigatopp til þess að geta opnað bílinn að ofan á góðviðrisdögum.

Toppurinn sá lék til að mynda ágætis hlutverk í Barcelona og virkaði mjög vel, jafnvel þegar hitinn hafði ekki farið mikið yfir 20 gráðurnar. Fínasta gerðin er með gervileðursætum, þráðlausri símhleðslu, LED-ljósum, lykillausri aflæsingu og ræsingu, sjálfvirkri lagningu, 9" HD snertiskjá, nettengingum og fleiru, en við má bæta JBL-hljóðkerfi.

Aygo X er afskaplega lipur og kemst leikandi létt í lítil stæði, en bakkmyndavél fylgir öllum útgáfum bílsins. Reyndist hún prýðisvel og framar vonum þegar leitað var að stæði í strandbænum Sitges suður af Barcelona.

Farangursrýmið aftur í bílnum hefur verið stóraukið, eða um 60 lítra frá síðustu kynslóð, og má nú geyma þar sem nemur 231 lítra. Leiðir bíllinn, hvað þetta varðar, í sínum stærðarflokki. Með því að leggja niður aftursætin má að vanda koma enn meiru fyrir, en þá fæst samtals 829 lítra pláss.

Grindin léttust í sínum flokki

Við hönnun Aygo X var sérstaklega lagt upp úr því að hámarka sparneytnina allt frá grunni. Þriggja strokka og eins lítra vélin eyðir um fimm lítrum á hundraðið í blönduðum akstri samkvæmt WLTP-staðli. Þessi sparneytni fékkst á sama tíma og bíllinn var þó lengdur og breikkaður frá síðustu útgáfu, en framfarirnar fengust með léttari grind. Grindin er raunar sú léttasta í þessum stærðarflokki bíla.

Bíllinn fæst í þó nokkrum litum, eða svartur, silfraður og hvítur í grunnútgáfunni. Í ögn dýrari útgáfunni fæst hann berjablár, kardimommugrænn, engiferdrapplitaður og chilirauður. Krydd var haft að leiðarljósi við litavalið, eins og glöggir geta getið sér til um.

Ekki hraðskreiðasti bíllinn á götunni

Aygo X gæti vel hentað sem fyrsti bíll ungra ökumanna eða sem annar bíll á heimili. Hraðaþyrstir ungir ökumenn gætu þó orðið fyrir nokkrum vonbrigðum, enda er bíllinn tæplega 15 sekúndur í hundraðið. Þessa varð vissulega vart á hraðbrautum Katalóníu, en kom þó ekki að sök þegar á heildina var litið. Enda leitast bíllinn ekki við að skara fram úr á þessu sviði.

Eða eins og starfsbróðir minn komst svo vel að orði í febrúar: „Hann er vel þolanlegur á þjóðveginum, en fari menn daglega austur yfir fjall yrði hann fljótt þreytandi. Enda borgarbíll. En í borginni er hann líka fullgóður.“

Aygo X

» 71 hestafl

» 158 km hámarkshraði

» 14,8 sek. í 100 km hraða

» Eyðsla í blönduðum akstri: 4,7-5,2 lítrar á 100 km

» Eigin þyngd 940-1.015 kg

» 231 lítra farangursrými

» Umboð: Toyota á Íslandi

» Verð: Ekki enn gefið upp

Búið er að stækka farangursrýmið um 60 lítra. Rúmar skottið …
Búið er að stækka farangursrýmið um 60 lítra. Rúmar skottið núna um 230 lítra, en nærri 830 ef aftursætin eru felld niður.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »