Bíll fyrir fólk sem kann að njóta lífsins

Mercedes-Benz EQE er 100% rafmagnsbíll. Hönnunin er mjúk og falleg …
Mercedes-Benz EQE er 100% rafmagnsbíll. Hönnunin er mjúk og falleg og er bíllinn sérlega góður í akstri. Hægt er að fá bílinn með nuddi í sætunum.

Um er að ræða 100% rafmagnsbíl sem er sérhannaður fyrir fólk sem þráir að lifa hinu ljúfa lífi og að þurfa aldrei að fara á bensínstöð, nema til að kaupa sér sódavatn og tyggjó. Í tilefni af þessari ferð voru um 20 mismunandi EQE-bifreiðar fl uttar til Íslands frá Þýskalandi. Blaðamaður Morgunblaðsins var með í för og drakk í sig strauma og stefnur, bæði í gegnum hönnuð bifreiðarinnar en líka með því að prufukeyra þrjár mismunandi útfærslur af EQE.

Hönnuðurinn Bastian Baudy segir að bíllinn hafi verið sérstaklega hannaður til að drífa sem lengst á rafmagninu. Til þess að það sé hægt þurftu allar línur að vera straumlínulagaðar og mjúkar. EQE státar af einni bogalínu sama hvert sjónarhornið er. Þar eru engar klossaðar kassalaga línur, massívir stuðarar eða risahúdd fyrir vélina. Hið gamla og góða Mercedes-Benz-merki á húddinu er líka horfið en prýðir nú grill bifreiðarinnar í staðinn.

Mercedes-Benz EQE með gráhvítri leðurinnréttingu sem fer bílnum sérlega vel. …
Mercedes-Benz EQE með gráhvítri leðurinnréttingu sem fer bílnum sérlega vel. Hér eru tveir skjáir, einn í mælaborði og annar á milli sætanna. Hægt er að fá EQE með þremur skjáum en prufukeyrara fannst þetta útlit snotrast. Ljósmynd/Mercedes-Benz

EQE er hluti af EQ Benz-fjölskyldunni og var hann kynntur til leiks á bílasýningunni í München 2021. Hægt er að fá bílinn miskraftmikinn eða frá 245 hestöflum upp í 476 en drægni hans er 660 kílómetrar. Það sem skiptir máli þegar rafmagnsbílar eru annars vegar er að það sé hægt að hlaða þá hratt og örugglega en í EQE er 170 kW hraðhleðslugeta sem er mikill kostur. Venjulegur borgari ætti því að geta hlaðið bílinn sinn á þriggja daga fresti eða svo ef miðað er við hefðbundna notkun.

Hér er teikning af bílnum eftir Bastian Baudy.
Hér er teikning af bílnum eftir Bastian Baudy.

Dagur 1:

Ferðin byrjaði á Editon-hótelinu í Reykjavík. Þegar hópurinn mætti mátti hver blaðamaður velja sér bíl. Valið var töluvert erfitt því bílarnir voru hver öðrum flottari. Þennan fyrsta dag varð kóngablár EQE 500 fyrir valinu en hann er með fjórhjóladrifi. Þessi bíll var með tvískiptu glerþaki sem hægt var að opna, með svartri leðurinnréttingu og tveimur stórum skjáum auk skjásins í mælaborðinu. Sem sagt einum í miðjunni og öðrum farþegamegin. Við fyrstu sýn virtist þetta flókið en um leið og bíllinn var ræstur greiddist úr flækjunum.

Gírstöngin er engin þungamiðja á milli bílstjórasætis og farþegasætis heldur er hún í formi netts pinna hægra megin við stýrið. Það þurfti bara rétt að ýta honum fram og aftur til að skipta um gír. Um leið og búið var að fara yfir helstu eiginleika bílsins og læra á helstu takka í mælaborði, á skjánum á milli sætanna og á skjánum farþegamegin, lá leiðin upp í Hvalfjörð. Eftir að Hvalfjarðargöngin voru opnuð er umferð um fjörðinn það létt að það var hægt að gefa svolítið í og upplifa öll hestöflin án þess að lenda í vandræðum. Þar var líka hægt að reykspóla svolítið á malarvegunum við Hvalfjörðinn. Í þessum aðstæðum stóð bíllinn sig vel og var ljúfur og þýður. Eftir bíltúrinn í Hvalfjörðinn var haldið aftur á Edition-hótelið þar sem dýrindis matur beið hópsins en þar spunnust hressar umræður um drægni, felgur, hönnun og aksturseiginleika.

Glerþakið á bílnum er sérlega skemmtilegt en það þurfti bara …
Glerþakið á bílnum er sérlega skemmtilegt en það þurfti bara rétt að snerta takkana, þá opnaðist lúgan. Mercedes-Benz EQE 500 í möttum svörtum lit.
EQE er kraftalegur og spengilegur frá öllum sjónarhornum.
EQE er kraftalegur og spengilegur frá öllum sjónarhornum.

Dagur 2:

Daginn eftir kom að því að velja bíl og þá varð svartur EQE 300 fyrir valinu. Hann var með sama glerþaki og sá blái en töluvert öðruvísi að innan. Glerþakið státar af skemmtilegri hönnun og gerir mikið fyrir bíl með svona mjúkar línur. Glerþakið hleypir mikilli birtu inn en ef svo ólíklega vildi til að birtan yrði of mikil var hægt að draga fyrir með nettum gardínum sem svífa um loftið. Þessi bíll var svartur að innan og voru sætin stungin með rauðum saumum sem gerðu bílinn sportlegri. Hann var með einum skjá á milli sætanna, auk mælaborðsins auðvitað, og með klæðningu farþegamegin. Ekki öðrum skjá sem prufukeyrara fannst koma betur út. Innréttingin í bílnum verður stílhreinni og fallegri með einum skjá á milli sætanna.

Keyrt var frá Reykjavík í gegnum Nesjavelli og yfir í sumarbústaðabyggð rétt við Þingvelli. Þar var tekið á móti hópnum í glæsilegum bústað og boðið upp á hádegisverð. Við sumarbústaðinn var þessi glæsilega verönd og var búið að hífa eitt stykki Mercedes-Benz EQE á pallinn við bústaðinn. Blaðamenn gátu því skoðað bílinn á meðan þeir borðuðu fisk og drukku appelsín. Yfir hádegisverðinum kviknaði sú hugmynd að keyra í Seljavallalaug og þegar danski bílablaðamaðurinn, Henrik Dreboldt, sem er með vefinn Kuffert og Kørehandsker, heyrði af þessu vildi hann ólmur koma með. Það voru því tvær svartar Mercedes-Benz EQE-bifreiðar sem keyrðu á Selfoss til þess að kaupa sundföt og handklæði til þess að draumurinn gæti ræst.

Bílarnir réðu vel við malarveginn upp að Seljavallalaug og það var hressandi að fara í sund og kæla sig í ánni inni á milli. Eftir sundferðina var farið á hótel í nágrenninu og þegar það spurðist út að farið hefði verið í þessa náttúrulaug vildu hinir blaðamennirnir ólmir komast þangað. Það endaði með því að farið var með hönnuð bifreiðarinnar og fleiri stórmenni bílaheimsins í Seljavallalaug seinna um kvöldið.

Dagur 3:

Allt er þegar þrennt er. Á þriðja degi varð mattur grár EQE 300 fyrir valinu en hann var klæddur gráhvítu leðri að innan. Þótt þessi blái og þessi svarti hafi verið góðir þá átti þessi gráhvíti algerlega vinninginn hvað útlit að innan varðar. Það er nefnilega eitthvað við svona ljósgráhvítar innréttingar sem er svo fallegt. Þarna var prufukeyrarinn líka búinn að uppgötva að það var nudd í sætunum og þreyttist hann ekki á að setja nýjar og nýjar stillingar á til að prófa allar týpurnar af nuddinu í sætunum.

Svo var það lýsingin í þessum bíl sem var skemmtileg. Frá framhurðum og yfir allt mælaborðið er ljósborði sem hægt er að hafa í mismunandi litum. Þegar þessi í gráhvíta leðrinu var kominn með bleika led-lýsingu að innan vantaði eiginlega bara að setja Ken og Barbie í framsætið. Þegar keyrt var til Reykjavíkur var auðvelt að láta sér líða eins og greifa götunnar. Bíllinn þaut áfram og þar sem prufukeyrari fann lítið fyrir hraða bifreiðarinnar skipti máli að geta fylgst með hraðanum sem birtist jafnóðum í framrúðunni. Bíllinn sannaði það í þessari ferð að hann er frábær á ferðalögum en líka snaggaralegur innanbæjar. Þetta er kannski ekki bíll fyrir fólk sem ferðast með börn í pollagöllum en þetta er án efa bíll fyrir fólk sem vill hafa það gott. Hver og einn getur svo valið sér sína uppáhaldsliti að utan og innan og raðað saman sínum draumabíl. Ef þig hefur einhvern tímann dreymt um að keyra um á forstjórabíl þá kemst þessi mjög nálægt því marki.

MercedezBenz EQE

» 245 til 476 hestöfl

» 90 kWst rafhlaða

» Drægni: 533 til 660 km

» 0-100 á 3,3 til 7,3 sek.

» Hám. hr 210 til 240 km/klst

» 0 gr/km af koltvísýringi

» Þyngd: 2.335 til 2.525 kgk

» Farangursrými 430 l

» Umboð: Askja

» Verð: 9.890.000 til 19.350.000 kr

 

View this post on Instagram

A post shared by mbl.is (@mblfrettir)

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »