Rafmagnað rúgbrauð snýr aftur

Volkswagen ID. Buzz er eilítið kubbslegur að sjá líkt og …
Volkswagen ID. Buzz er eilítið kubbslegur að sjá líkt og gamla rúgbrauðið en hann er vel rennilegur og rennur vel á þjóðveginum eða hér á Eyrarsundsbrúnni á leið yfir til Svíþjóðar.

Það er óhætt að segja að það eigi sér stað bylting í bílaheiminum þessi árin, þar sem orkuskipti í samgöngum hafa orðið til þess að menn hafa þurft að hugsa sumt upp á nýtt, en sumt þarf þó ekki að hugsa alveg upp á nýtt og það er svo sem ekkert nýtt að fortíðarþráin blundar í mörgum.

Í Wolfsburg í Þýskalandi rifjaðist það upp fyrir mönnum að rétt eins og Bjallan var elskuð og dáð af mörgum kynslóðum, þá var annar bíll frá Volkswagen sem vakti svipuð hughrif, en það er gamla góða rúgbrauðið eða Bulli, eins og Þjóðverjar nefndu það sín á milli.

Rúgbrauðið var smárúta, örrúta eiginlega, sem var fyrst kynnt til sögunnar rétt upp úr seinni heimsstyrjöld 1949. Það fékkst í margs konar útgáfum og var sérlega vinsælt til ferðalaga, fyrst af hinni hagsýnu fjölskyldu þýska efnahagsundursins, en síðar uppgötvuðu hipparnir að þetta væri bíll við þeirra hæfi. Áður en yfir lauk voru framleiddar 1,8 milljónir eintaka af því og nú er nýtt og glóðvolgt rúgbrauð á leiðinni.

Það vantar ekki harðplastið, en það er vel og smekklega …
Það vantar ekki harðplastið, en það er vel og smekklega notað eins og ber í stílhreinum bíl.

Íslenskum blaðamönnum var boðið að kynna sér gripinn í einn dag í Danmörku og Svíþjóð og skemmst frá því að segja að nýja rúgbrauðið stóð undir öllum væntingum.

Yðar einlægur fékk að reynsluaka gripnum í félagi við Mörtu Maríu Winkel, ritstjóra Smartlands, og hún gat algerlega staðfest það álit, að þettta væri fallegur, glaðlegur og já, smart bíll.

En það voru þó kannski ekki síður aðrir vegfarendur, sem staðfestu það. Hvert sem við fórum var flautað og blikkað af öðrum bílstjórum og þar sem við gerðum stuttan stans dreif hvarvetna að fólk, sem þekkti nýja rúgbrauðið undir eins. Margir sögðu okkur frá góðum minningum í gamla rúgbrauðinu og tóku myndir af því nýja. Að því leyti er ekki annað að sjá en að það ríki mikil eftirvænting eftir þessum bíl.

Nú var raunar aðeins gefinn dagur til þess að reyna bílinn og það er ekki heldur á hreinu hvaða útgáfur verði boðnar hvar og ekki komið verð á hann ennþá, þó sennilega byrji nýja rúgbrauðið í námunda við 8,5 milljónir króna.

Þau verða framleidd bæði sem fjölskyldubílar með tveimur sætaröðum og sem sendibílar, en á næsta ári verður kynnt lengri útgáfa með þremur sætaröðum, sem verður a.m.k. boðin vestanhafs, en víðar þegar fram líða stundir. Á því kann þó að verða einhver bið, því miðað við forpantanir er nokkuð í að framboð anni eftirspurn,

Sem fyrr segir er þetta fallegur bíll, en hann er hagnýtur líka. Nýja rúgbrauðið er ekki lítið og vel rúmt að innan, en það er hægðarleikur að leggja honum þótt stæðin séu ekki í stærra lagi. Og ef það er ökumanninum ofviða getur tvenns konar sjálfvirkni bætt þar úr. Þar sakar ekki að stýrið er fislétt og beygjuradíusinn miklu minni en maður á að venjast af bílum í þessari stærð.

Það var gaman að sjá gamla og nýja rúgbrauðið hlið …
Það var gaman að sjá gamla og nýja rúgbrauðið hlið við hlið, gerólíkir bílar en ættarmótið er öllum augljóst.

Ökumaðurinn situr hátt, útsýnið er frábært og hann er þægilegur í akstri, bæði á þröngum og steinlögðum götum og á lengri ferðum á þjóðveginum. Við fengum ekki tækifæri til þess að reyna hann á malarvegi, en miðað við mýktina kæmi á óvart ef þeir yrðu til vandræða frekar en á ID.4, en undirvagninn er nánast hinn sami.

Það lágu engar nákvæmar tölur fyrir um orkuneysluna, en svona af því hvernig gekk á hleðsluna, þá virtist rúgbrauðið vera sparneytnara en búast mætti við af bíl með nokkra loftmótstöðu. En það þarf að reyna hann við íslenskar aðstæður, þegar það þarf að kynda miðstöðina líka. Drægið er mismunandi miðað við endanlega gerð, en má áætla að það liggi í 330 km og 420 km, svo stærri gerðin á að sleppa til Akureyrar. Eins veltur auðvitað mikið á því hvernig honum er ekið. Sparneytna stillingin er fullgóð en kannski ekki mjög spennandi.

Að útliti er ýmislegt gert til þess að vísa til fortíðar og þar gerir sitt að rúgbrauðið er tvílitt. Jú, það má fá einlitar útgáfur en þær eru ekki hálft eins fallegar. Litirnir eru líka harla einkennandi og vel valdir. Spái því að þeim fækki ekki með árunum.

Rúgbrauðið opnast vel, sjálfvirkar rennihurðirnar saka ekki og auðvelt að …
Rúgbrauðið opnast vel, sjálfvirkar rennihurðirnar saka ekki og auðvelt að stíga um borð í bílinn.

Fjölskyldu-, leigu- og sendibíll

Að innan er útlitið stílhreint og praktískt. Það er nokkur áhersla lögð á endurunninn efnivið í innréttingunni, svo það vantar ekki harðplastið, en það lítur vel út og virðist vera auðvelt að þrífa það. Þetta er nefnt af því að þetta er fyrst og fremst fjölskyldubíll og ekki síður þegar þriggja sætaraða útgáfurnar taka að birtast. Þá kemur líka í góðar þarfir að það eru USB-C hleðslutengi um allan bíl, sætin fram í eru gerð til þess að hengja iPad aftan á þau og hugbúnaðurinn í tölvunni virðist sprækari en í fyrri gerðum frá VW.

Notin einskorðast þó ekki við fjölskyldur, eins og reynslan af gamla rúgbrauðinu ætti að kenna mönnum. Þegar er hægt að fá ýmsar sérgræjur í hann, svo sem dýnu til að leggja yfir marflöt niðurfelld sætin og einnig er hægt að fá innbyggða gaseldavél, sem dregin er út um afturhlerann, líkt og var svo vinsælt í ferðaútgáfunni af gamla rúgbrauðinu, því bíllinn er rúmgóður og gott pláss aftur í þó hann sé ekki gerður til neinna þungaflutninga.

En það er heldur ekki útilokað að nýja rúgbrauðið verði vinsælt meðal leigubílstjóra og rennidyrnar eru örugglega farþegum að skapi. Hvort hið sama á við um iðnaðarmenn, sem gætu haft not af sendibílsútgáfunni á svo eftir að koma í ljós.

Volkswagen hefur tekist afar vel upp við að gera úr garði bíl í góðu jafnvægi í öllum skilningi. Nýja rúgbrauðið er bíll sem við eigum eftir að sjá miklu meira af.

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 20. september.

Gott rými er aftur í, sér í lagi ef sætin …
Gott rými er aftur í, sér í lagi ef sætin eru lögð niður, og þá má leggja sig.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: