Toyota Corolla er orðin fullorðin

Rétt er að horfa til þess hvernig íslenskar aðstæður fara …
Rétt er að horfa til þess hvernig íslenskar aðstæður fara með bílinn. Það er óhætt að segja að Corolla Cross eigi vel heima hér á landi. Toyota/Jonathan Godin

Toyota Corolla hefur í nokkra áratugi verið vinsælasti fólksbíll í heimi. Fyrir því er einföld ástæða, Corolla er áreiðanleg og með lága bilanatíðni, hentar fjölbreyttum hópi fólks og verð hennar hefur verið hvort tveggja í senn: viðráðanlegt og hæfilegt. Þetta er auðvitað einföld mynd af flóknum heimi bílaframleiðslu og bílaviðskipta en sölutölurnar tala sínu máli. Í fyrra hafði Toyota selt yfir 50 milljónir Corolla-bifreiða frá því tegundin var kynnt um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Sá árangur verður ekki til af sjálfu sér.

Það eru sem fyrr segir tæp 60 ár frá því að Toyota kynnti Corollu til leiks. Með Corollu Cross má þó að sumu leyti segja að Corollan sé orðin fullorðin. Corolla hefur, fram til þessa, verið hefðbundinn fólksbíll þó hún hafi komið fram í nokkrum útgáfum og fólksbílastærðum. Á tæpum sex áratugum er búið að kynna til leiks 12 „kynslóðir“ af Corollu, hver annarri betri í takt við framfarir í hönnun og framleiðslu. Corolla Cross er þó stórt stökk fram á við og fram kemur sportjeppi sem færir Corollu-línuna upp á næsta stig.

Áður en lengra er haldið er rétt að halda til haga að Toyota hefur verið að gera gott mót með jeppaútgáfur sínar á liðnum árum. Fyrir rúmum fimm árum kynnti bílaframleiðandinn nýja útgáfu af RAV4 sem var öllu lögulegri en fyrri útgáfur af RAV4. Tveimur árum síðan var RAV-inn uppfærður aftur og er núna veglegur og flottur sportjeppi sem fólk getur, ólíkt fyrri útgáfum, keyrt stolt um á götum og þjóðvegum landsins. Þá hefur Toyota jafnframt kynnt til leiks sportjeppa-útgáfur af Aygo og Yaris, til viðbótar við C-HR. Það má staðsetja Corolla Cross í stærðarflokk á milli C-HR og RAV4.

Sjónarhorn ökumanns og farþega er rúmt og þægilegt.
Sjónarhorn ökumanns og farþega er rúmt og þægilegt.

Aðgengileg tækni

Corolla Cross kemur bæði í framhjóladrifinni útfærslu og fjórhjóladrifinni. Þess má vænta að fjórhjóladrifna útgáfan verði vinsælli hér á landi, enda hentar hún betur íslenskum aðstæðum. Hún kemur með 5. kynslóðar tvinn-kerfi sem gerir bifreiðina umtalsvert sparneytnari. Uppgefin eyðsla er á bilinu 5 - 5,6L á hverja 100 km í blönduðum akstri. Hvað kraftinn varðar, þá er hann í jafnvægi við stærð bílsins og notkun hans.

Hvað tæknihliðina varðar þá er hún vönduð og nýtískuleg. Corolla Cross kemur með 10,5“ margmiðlunar-snertiskjá, sem er vel staðsettur ofarlega á mælaborðinu og fyrir miðju, þannig að bæði ökumaður og farþegi hafa auðvelt aðgengi að honum. Hægt er að nýta bæði Apple Car Play og Android Auto til að tengja síma. Þannig er auðvelt að nýta kort, lesa skilaboð, hlusta á tónlist eða vandað hlaðvarp. Bílstjóri þarf þó ekki mikið að fikta á skjánum á meðan akstri stendur, allar helstu skipanir eru aðgengilegar í stýrinu og allar nauðsynlegar upplýsingar um aksturinn eru aðgengilegar í mælaborði fyrir framan bílstjórann.

Annað sem hefur verið uppfært í Cross-útgáfunni eru öryggisþættir eins og árekstrarvari, neyðarstöðvunarkerfi, akreinastýring og skynjari fyrir blindsvæði – sem greinir einnig hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur þegar bifreiðin hefur verið stöðvuð. Í lúxusútgáfum bifreiðarinnar eru enn fleiri öryggisviðbætur, til dæmis búnaður sem aðstoðar ökumann við að leggja bílnum.

Fyrir þá sem vilja nýta tæknina enn frekar er rétt að benda á MyT-appið sem tengir bílinn við símann. Þar er hægt að greina aksturslagið, finna út hvernig hægt er að keyra með sparneytnari hætti og sjá aðrar gagnlegar upplýsingar um bílinn, ábendingar um viðhald og annað sem tengist notkun.

Þetta eru nokkur tækniatriði sem vert er að huga að og þau eru enn fleiri sem hægt væri að fjalla um í löngu máli. Það sem skiptir þó sjálfsagt mestu máli er upplifun ökumanna og þeirra nánustu af akstri og notkun bílsins.

Corolla Cross er allt annar bíll en fyrri útgáfur af …
Corolla Cross er allt annar bíll en fyrri útgáfur af Corollu, enda sportjeppaútgáfa og mun vígalegri.

Þægilegur fjölskyldubílll

Corolla Cross er þægilegur í akstri, svo einfalt er það. Maður situr hærra heldur en í fyrri útgáfum af Corollu-bifreiðum þannig að allir sjá betur út, auk þess sem auðveldara er að setjast inn í og fara út úr bílnum. Það skiptir máli fyrir fólk á öllum aldri. Bíllinn er rúmgóður, það fer vel um ökumann og hann hefur auðvelt aðgengi að öllu því sem hann þarf á að halda í akstri. Að sama skapi fer vel um þrjá fullorðna farþega, einn frammi í og tvo í aftursætum. Það færi vel um þrjú börn í aftursætum en það er ólíklegt að fullorðinn einstaklingur eða hávaxinn unglingur myndi sætta sig við miðjusæti í langakstri.

Bíllinn er liðlegur í innanbæjarakstri, mjúkur í stýri og liggur vel á þjóðvegi. Hann er hljóðlátur og maður verður ekki þreyttur á að keyra. Það skiptir máli, því flest höfum við reynslu af því að keyra minni bíla langar vegalengdir hér á landi með tilheyrandi götuhljóði og þreytu, en maður þarf ekki að hafa mikið fyrir bílnum í langkeyrslu.

Í stuttu máli má segja að Corolla Cross sé þægilegur fjölskyldubíll sem fer vel með ökumann og farþega, bæði í innanbæjarakstri og á þjóðvegi.

Það fer vel um tvo fullorðna eða þrjú börn í …
Það fer vel um tvo fullorðna eða þrjú börn í aftursætunum.

Liklegur til vinsælda

Verðið er frá 7 til 7,4 milljónir króna fyrir Active og Active Plus útgáfur en á bilinu 7,6 til 8 milljónir fyrir Luxury útgáfur (hér er miðað við fjórhjóladrifna bíla en framhjóladrifnu útgáfurnar eru aðeins ódýrari). Það mætti mögulega segja að það komi á óvart að lúxusútgáfurnar séu ekki dýrari miðað við þann aukabúnað og íburð sem þeim fylgja, s.s. leðursæti, 18“ felgur, enn betri hljóðeinangrun, 360° myndavél, glerþak og fleira.

Hér var bent á að þetta væri þægilegur fjölskyldubíll. Það er líklega lykilatriði, því það er akkúrat þannig sem hann er markaðssettur. Corolla Cross er ódýrari en RAV4 og hentar vel þeim sem vilja upplifa það að keyra um á sportjeppaútgáfu en vilja láta fara vel um sig og sína. Það er þó ekki hægt að festa bílinn eingöngu í fjölskylduhlutverkinu, því það er auðvelt að sjá afa og ömmu fyrir sér að njóta alls þess sem bíllinn býður upp á í hversdagsleikanum – og að bjóða barnabörnunum í ísbíltúr.

Það verður í það minnsta spennandi að fylgjast með Corollu Cross á næstu mánuðum og árum því það má vel gera ráð fyrir því að þetta verði einn mest seldi bíll á Íslandi þegar fram líða stundir. Og þær stundir eru kannski ekki langt undan.

Corolla Cross

Kemur í 1,8L og 2,0L bensín-hybrid

Eldsneytisnotkun í blönduðum akstri: 5 – 5,6 (L/100 km)

Hámarkshraði: 170-180 (km/klst)

7,46 – 10 sek. í 100 km/klst

Heildarþyngd (kg): 2690-2765

17” eða 18“ álfelgur

Losun CO2 í blönduðum akstri
114-127 g/km

Umboð: Toyota

Verð: 6,6 – 8 m.kr.

Farangursrýmið í Corollu Cross er rúmgott, 433 lítrar, og hægt …
Farangursrýmið í Corollu Cross er rúmgott, 433 lítrar, og hægt að stækka upp í 1.337 lítra þegar aftursætin eru felld niður.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »