Kaldur á bakinu

Það er ekkiáhverjum degi sem rafbílar eru prófaðir við svona …
Það er ekkiáhverjum degi sem rafbílar eru prófaðir við svona aðstæður. Tókst bZ4X að klára þrautirnar án nokkurra vandkvæða.

Það er hægt að hugsa sér margt verra en að skjótast til Kaupmannahafnar með flugi og fá þar tækifæri til að aka nýjum rafmagnsbíl frá Toyota í 2-3 klukkutíma vítt og breitt um borgina og nærsveitir hennar í glitrandi sumarbúningi.

Bíllinn sem um ræðir er bZ4X. Hann er hvorki meira né minna en fyrsti alrafmagnaði bíllinn sem bílafyrirtækið japanska sendir frá sér.

Það var því ekkert skrýtið að á kynningarfundi sem undirritaður sat í Kaupmannahöfn hafi komið upp spurningin: Hví nú? Af hverju að koma með rafmagnsbíl svo löngu á eftir öðrum bílaframleiðendum?

Árangurinn á þrautabrautinni bendir til þess að bZ4X muni ekki …
Árangurinn á þrautabrautinni bendir til þess að bZ4X muni ekki eiga í neinum vanda með tiltölulega grófa slóða og erfiða kafla í umferðinni innanbæjar, eins og vera ber með sportjeppa.

Reiknuðu allt út

Svarið var kannski ekki alveg skýrt, en þó mátti skilja að Toyota hefði reiknað þetta allt saman út fyrir tuttugu og fimm árum þegar fyrirtækið reið á vaðið í rafvæðingunni með fyrsta tvinnbílnum Prius. Alltaf hafi verið planað að selja og markaðssetja tvinn- og tengiltvinnbíla til að byrja með þar til markaðurinn væri farinn að kalla í auknum mæli á alrafmagnaða bíla. Til dæmis eru 70% allra seldra Toyotabíla í Evrópu nú tvinnbílar.

En nú er rétti tíminn kominn og rafbíllinn stekkur fimur og fullskapaður fram í sviðsljósið.

Kynning í orkustöð

Víst er að margir sanntrúaðir viðskiptavinir Toyota hér á landi, sem beðið hafa lengi eftir þessu augnabliki, bregðist nú hratt við og kaupi bZ4X, í stað þess að svíkja lit og fara til annars framleiðanda. Biðin hafi verið þess virði.

Fyrrnefnd kynning á bílnum fór fram í orkustöðinni Copenhill, ansi skemmtilegri byggingu sem framleiðir rafmagn úr sorpi fyrir 150 þúsund heimili í Kaupmannahöfn. 85 metra há byggingin er einnig almenningsgarður. Á þakinu er veitingastaður, útsýnispallur og vinsæl græn skíðabrekka, sem nær allt frá toppi niður á götu.

Á góðum bíl munar engan um smá halla.
Á góðum bíl munar engan um smá halla.

Verkfræðingur mætti

Á kynningarfundinn var mættur hinn japanski Daisuke Ido, yfirverkfræðingur bílsins. Í máli hans kom fram að á meðal hönnunarforsendna hefði verið að hafa bílinn með lágan þyngdarpunkt, ekki hafa hann of þungan og hann ætti að framkalla sjálfstraust hjá ökumanni og eðilega framvindu í akstri.

Gæði, ending og áreiðanleiki eru sem fyrr grunnstefin í hönnun þessa bíls eins og annarra frá japanska framleiðandanum.

Bifreiðin er rúmgóð, hljóðlát, stimamjúk og lætur vel að stjórn. Batteríið er gert til að endast lengi, sem rímar vel við sjálfbærnisjónarmið framleiðandans.

Vatnsheld rafhlaða

Þá er rafhlaðan vatnsheld eins og blaðamaður fékk að kynnast þegar hann ók í 50 sm djúpu vatni, nýkominn úr manngerðri torfærbraut, og fór létt með hvort tveggja. Bíllinn er sem sagt gerður bæði fyrir slétta vegi en á einnig að vera fær um að leysa meira krefjandi verkefni.

Þegar ökumaður stendur frammi fyrir ögrandi aðstæðum er nóg að setja í X-mode ökustillinguna. Þá afgreiðir bíllinn torfærurnar með léttum leik. Sem dæmi þá getur hann skilað sér upp mjög brattar brekkur í þeirri stillingu og einnig niður sama hallann, án þess að ökumaður stígi á bremsuna.

Stærðin á skottinu á bZ4X er alveg hæfileg fyrir fjölskyldur.
Stærðin á skottinu á bZ4X er alveg hæfileg fyrir fjölskyldur.

Drægni allt að 516 km

En hversu langt kemst bíllinn á batteríinu? Uppgefin lengd er 436-516 kílómetrar en þegar aldrifið er á þá lækkar talan niður í 411 kílómetra. Þegar loftkælingin er notuð þá fer talan enn neðar eða í 320 km.

Í tilraunaakstrinum í Kaupmannahöfn tókum við blaðamennirnir eftir því hvað fjarlægðarmælirinn var nákvæmur. Hann sýndi nákvæmlega hvað mikið var eftir miðað við aðstæður.

Stýri bílsins er hæfilega stíft, mælaborðið er lítið og nett og upplýsingaskjárinn stór og skarpur.

Fjarvera þurrkunnar

Á kynningarfundinum spurði einn viðstaddra út í fjarveru afturrúðuþurrkunnar og útskýrði japanski verkfræðingurinn það með þeim orðum að þurrkan hefði áhrif á loftmótstöðuna. Afturglugginn væri frekar láréttur og því hefði verið auðveld ákvörðun að sleppa búnaðinum. Það yki drægni bílsins.

Um brotthvarf hanskahólfsins sagði verkfræðingurinn að með því að fjarlægja það væri hægt að bæta útsýnið út um framgluggann og auka fótapláss fyrir framsætisfarþega. Það kæmi í raun ekki að sök að hólfið væri farið því í miðjusvæðinu er nú komið gott geymslupláss í staðinn. Undir það tekur blaðamaður.

Eins og fyrr sagði er fóta- og höfuðpláss í bílnum gott og lítil umhverfishljóð heyrðust. Það var ekki fyrr en bíllinn var kominn í 130-150 km hraða á klukkustund að þythjóð heyrðust að utan.

Í hurðum er pláss fyrir tvær gosflöskur. Í miðjunni er pláss fyrir aðrar tvær. Bílinn er búinn JBL-hátölurum og þriggja þrepa hiti er í sætum auk kælingar. Sjálfvirkni er í boði í þessum efnum og þegar ég ýtti á takkann byrjaði bíllinn umsvifalaust að kæla á mér bakið, sem ég var fljótur að slökkva á.

Hiti í stýri bZ4X er mikið þarfaþing, sérstaklega á Íslandi, eins og ég hef minnst á í fyrri skrifum mínum.

Alrafmagnaður bíll frá Toyota, sem að auki virðist henta vel fyrir íslenskar aðstæður, er eitthvað sem margir hafa beðið spenntir eftir. Óhætt er að segja að biðin hafi verið vel þess virði.

Ökumaður hefur aðgang að nútímalegu stjórnborði með notendavænum breiðskjá.
Ökumaður hefur aðgang að nútímalegu stjórnborði með notendavænum breiðskjá.Toyota bZ4X

71,4 kWst rafhlaða

Fáanlegur með framhjóla- og aldrifi

204 til 218 hö 265 til 336 Nm

0-100 km/klst. á 6,9 til 7,5 sek.

Hámarkshraði 160 km/klst. CO2-losun: 0 g/km

Drægni á hleðslu: 411 til 500 km

Eigin þyngd: 1.920 til 2.020 kg

Stærð farangursrýmis: 452 l

Umboð: Toyota

Grunnverð: 6.990.000 kr

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »