Þú festir þig ekki á Rexton

Nýr Rexton er bæði stór og breiður og hefur mikla …
Nýr Rexton er bæði stór og breiður og hefur mikla dráttargetu. Átta gíra sjálfskiptur og fjórhjóladrifinn dísiljeppi sem nærri ómögulegt er að festa sig á þó færðin sé slæm. Ottar Geirsson

Ef þú ert að leita að léttum en fjórhjóladrifnum bæjarbíl, rafbíl eða jafnvel tvinnbíl, án nokkurra eiginleika til þess að standast erfiða færð eða torfæruakstur en hefur samt sem áður flokkast í jeppaflokk (SUV) er nýr SsangYong Rexton ekki fyrir þig.

Ljóst er að markmiðið með hönnun og markaðssetningu Rexton var að bjóða upp á stóran og öflugan hálendisjeppa á viðráðanlegu verði; að gefa kaupandanum eiginleika og tilfinninguna fyrir gamaldags dísilknúnum jeppa, Discovery eða jafnvel Land Cruiser, án þess að setja hann á hausinn.

Og það var nákvæmlega það sem ég hugsaði þegar ég barði nýja og endurbætta útgáfu jeppans augum í fyrsta sinn, þegar ég gekk inn í Bílabúð Benna á dögunum. Í þessum reysluakstri var Ultimate-útgáfa Rexton fengin að láni, en jeppinn fæst einnig í Premium-útgáfu og Adventure-útgáfu.

Stór og mikill

Bíllinn er bæði stór og breiður, langt á milli hjóla, og að sjálfsögðu fjórhjóladrifinn en einnig með læst afturhjóladrif. Rexton er byggður á grind með millikassa með læsingu og lágu drifi. Þessir eiginleikar eiga að tryggja það að svo gott sem ómögulegt sé að festa sig á honum. Lagði ég fyrir hann hið eina rétta próf til að sannreyna það; illa ruddar götur Reykjavíkurborgar og bílastæðið við Bónus í Skipholti og stóðst bíllinn það með prýði.

Þrátt fyrir að vera ekki borgarbíll er jeppinn búinn mjög góðu myndavélakerfi sem kemur sér vel þegar maður þræðir þröngar (og óruddar) götur í Norðurmýrinni, þar sem bílar leggja báðum megin, jafnvel þrengra en vanalega þar sem snjóruðningar taka sitt pláss.

360-gráðu umhverfismyndavél, bakkmyndavél, frammyndavél og myndavél á hliðunum ásamt öllum tilheyrandi skynjurum gera það að verkum að undirrituð yrði nokkuð vandræðaleg ef henni tækist að reka bílinn í eða tjóna hann á nokkurn hátt.

Skottið er verulega rúmgott, 640 lítrar ef fimm sæti eru …
Skottið er verulega rúmgott, 640 lítrar ef fimm sæti eru uppi en allt að 1.806 lítrar ef tvö sæti eru uppi. Ottar Geirsson

Uppfærsla upp á tíu

Uppfært útlit bílsins hittir í mark. Fyrri útgáfa Rexton var ekki sem verst; alls ekki ljótur bíll en hönnunin var nokkuð „örugg“ og ekki tilþrifamikil. Nýtt útlit felur í sér stórt og tignarlegt grill og vel heppnaða uppfærslu á ljósabúnaði en fyrst og síðast mjög fallegan hliðarsvip.

Sem áður segir er bíllinn nokkuð gamaldags þegar kemur að hönnun, á sinn hátt: Innrétting bílsins er nákvæmlega það, gamaldags en með nútímaeiginleikum. Til að mynda bakkar sætið sjálfkrafa þegar dyrnar eru opnaðar og myndar pláss fyrir bílstjóra til að stíga upp í bílinn, en færist síðan sjálfkrafa í sömu stillingu og sætið var í þegar bílnum var lagt. Stillingaminni er einnig í farþegasætinu að framan.

Í Rexton er átta tommu skjár með helstu stillingum er varða leiðarkerfi, útvarp og blátönn, en klassískar stillingar eru enn þá í takkaformi – þið munið; gamaldags. Það segi ég ekki í neikvæðri merkingu – þvert á móti var nokkuð þægilegt að finna stillingarnar fljótt og örugglega þar sem maður á að venjast þeim en ég er ekki viss um að ég hefði verið fljót að skipta úr fjórhjóladrifi í afturhjóladrif á tölvuskjá. Kallið mig bara gamaldags.

Þrátt fyrir það býður mælaborðsskjárinn, sem er 12,3 tommur, upp á nokkrar mismunandi valmyndir og meira eða minna allt í bílnum er stillanlegt svo að nútímaeiginleikarnir leyna sér ekki.

Reyndi ekki á kælinguna

Í öðru geymsluhófinu á milli framsætanna er þráðlaus símahleðsla – sem er að mínu mati bráðnauðsynlegt. Í hinu geymsluhólfinu er tveggja hólfa drykkjahaldari og tvær USB-innstungur. Báðum hólfunum er hægt að loka með renndu loki sem er mjög snyrtilegt. Hliðarhólfið við framsætin er sérstaklega stórt og þar er pláss fyrir tvær flöskur.

Sætin eru þægileg og nokkuð öflugur sætishitari, sem kom sér vel í vetrarveðrinu á meðan reynsluakstri stóð. Einnig er hægt að stilla á sætiskælingu en ég sá ekki ástæðu til þess að prófa hana í tíu gráðu frosti – ég kýs að trúa því að hún kæli vel. Stýrishitarinn stóðst einnig prófið og nær allan hringinn á stýrinu.

Leðurklæðning bílsins er hágæða og fallegur saumur á leðrinu gefur skemmtilegan svip. Allt í allt ætti hönnun innréttinga að standast tímans tönn og hugsunin líklega sú að búast megi við því að kaupendur eigi bílinn í mörg ár.

Hægt að tjalda inni í bílnum

Rexton er sjö manna og verulega rúmgóður. Aftursæti bílsins eru þægileg, nóg er af fótaplássi og það sem meira er; hægt er að leggja aftursætin alveg niður. Leikur einn ætti að vera að gista í bílnum í íslenskri sumarútilegu þar sem allra veðra er von og ekki endilega alltaf stemning fyrir að tjalda, eða að ferðast með börn á öllum tímum sólarhringsins, þar sem þau ættu að geta sofið vel á ferðinni aftur í. Hliðarhólfin í við aftursætin eru einnig mjög rúm. Þá er hiti í aftursætunum – sérstaklega hentugt fyrir íslenskar aðstæður.

Ef aukasætin eru sett upp í öftustu röð eru þau einnig íburðarmeiri og þægilegri en aukasæti í flestum sjö manna bílnum. Með þriggja punkta sætisbeltum og minna hægt að finna fyrir að um aukasæti sé að ræða. Plássið er þó, eins og búast má við, ekki jafnmikið í öftustu röðinni og hentar börnum miklu frekar en fullorðnum.

Skottið er 240 lítrar með sjö sæti uppi og í kringum 640 lítrar með sætin fimm sæti uppi. Þannig er hægt að geyma minni háttar farangur í bílnum séu öll sætin eru reist upp, en verulega mikið geymslupláss er í bílnum ef aðeins fimm sæti eru í notkun.

Sæti bílsins eru þægileg og stillingaminni og öflugur sætishitari gera …
Sæti bílsins eru þægileg og stillingaminni og öflugur sætishitari gera gæfumuninn í janúarkulda. Ottar Geirsson

Situr hátt og sérð vel

Akstur á Rexton er hnökralaus og svo til gallalaus. Maður situr hátt, eins og gefur að skilja í svo stórum bíl, og útsýni er til allra átta. Þrátt fyrir að gluggapósturinn á framrúðunni sé nokkuð þykkur kemur það ekki að sök. Hliðarspeglanir eru massívir og gera sitt gagn, og í þeim kvikna aðvörunarljós þegar bíll kemur aftan að manni.

Jeppinn er kröftugur og dráttargeta hans er umtalsverð; þrjú tonn, en upptak hans ekkert sérstakt, enda ekki helsti tilgangurinn – þetta er einfaldlega ekki þannig jeppi.

Við aksturinn hef ég tvennt að athuga. Annars vegar þótti mér akreinaskynjarinn örlítið of stressaður og byrja að láta vita af sér of snemma. Allur er varinn góður og á heildina á litið finnst mér betra að hafa meiri öryggisbúnað en minni en óheppilegt ef hann truflar ökumann að óþörfu. Ég get vel séð fyrir mér að markhópurinn, sem bílnum er ætlað að ná til, gæti látið slíkt fara í taugarnar á sér.

Hins vegar er sjálfvirki slökkvarinn, sem drepur á bílnum á ljósum, örlítið of fljótur að taka við sér. Svo fljótur að hann slekkur á vélinni á meðan maður stöðvar fyrir gangandi vegfaranda á gangbraut og bílinn er ívið of lengi að taka af stað á ný.

Allt í allt er skemmtilegt að keyra Rexton. Hann heldur í gamaldags sjarma en býr samtímis yfir öllum nútímaþægindum. Ekki skemmir fyrir hvað hann er rúmgóður og ljóst er að kaupendur fá mikið fyrir peningana.

Umgjörð ökumanns er öll hin prýðilegasta. Hann situr hátt og …
Umgjörð ökumanns er öll hin prýðilegasta. Hann situr hátt og sér vel í allar áttir. Ottar Geirsson

SsangYong Rexton Ultimate

Dísildrifinn

Fjórhjóladrifinn

Sjö manna

202 hestöfl

441 Nm tog

Sjálfskiptur

Átta gírar

Eigin þyngd: 2.180 kg

Umboð: Bílabúð Benna

Grunnverð á Premium:
8.790.000 kr

Verð á bíl í prufuakstri:
10.990.000 kr

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 17. janúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: