Þessi hverfur ekki í fjöldann

Útlínur Toyota GR Supra minna sumpart á Alfa Romeo 4C …
Útlínur Toyota GR Supra minna sumpart á Alfa Romeo 4C og er tekið eftir bílnum hvert sem hann fer. Myndin er tekin undir brúnni Pont de Bir Hakem sem lesendur þekkja mögulega úr kvikmyndinni Inception frá 2010 eða Mission Impossible: Fallout. Ásgeir Ingvarsson

Eftir á að hyggja var það ef til vill fulldjarft af mér að halda í stutta Evrópureisu þegar Toyota bauð mér að fá gulan sportbíl að láni í París. Yfirleitt vilja framleiðendur og umboð að blaðamenn gæti hófs þegar bílum er reynsluekið og að þeir setji ekki allt of marga kílómetra á mælinn, enda er blaðamannabílunum ráðstafað eftir ákveðnu kerfi og bílarnir á endanum seldir og er þá varla hægt að fá gott verð fyrir ökutækin ef þeim hefur verið ekið marga tugi þúsunda kílómetra.

En þau hjá Toyota erfa það ekki við blaðamenn þó þeir fari langt út fyrir öll velsæmismörk í akstri, og virðast bara fagna því ef fólk langar að aka lánsbílum lengst út í buskann. Til þess eru jú bílarnir gerðir, og hvað eru nokkur hundruð – eða nokkur þúsund – kílómetrar á milli vina?

Nánar tiltekið um það bil 1.800 kílómetrar með viðkomu í Montreux, Lauterbrunnen, Bürgenstock og Rust. Þegar maður fær á annað borð að aka Toyota GR Supra, þá vill maður nýta tækifærið til fullnustu.

Varla þarf að kynna Súpruna fyrir íslenskum bílaáhugamönnum en í hugum margra skipar Toyota Supra sérstakan heiðurssess í bílasögunni. Súpran kom fyrst á markað árið 1978 og var þá byggð á sama grunni og Celica en var lengd að framan svo að stækka mætti vélina úr fjórum strokkum í sex, en Toyota sá bílinn fyrir sér sem keppinaut hins mjög svo rennilega tveggja sæta Z-sportbíls Datsun. Önnur kynslóð leit dagsins ljós árið 1981, sú þriðja árið 1986 og sú fjórða árið 1993 og var framleidd til ársins 2002. Eftir sautján ára hlé kom loks fimmta kynslóðin til leiks, í ársbyrjun 2019.

Er óhætt að kalla fjórðu kynslóðina goðsagnakennda. Þótti bíllinn einn sá fegursti sem framleiddur var á 10. áratugnum og unaður að aka, og engin tilviljun að stjórnborð ökumannsins var innblásið af stjórnrými orrustuþotu. Þá var krafturinn sambærilegur við Porsche-sportbíla þess tíma og gat Súpran jafnvel skákað sumum bílunum frá Ferrari.

Voru bílaunnendur ekki lengi að átta sig á að vélin í Súprunni væri stórmerkilegt sköpunarverk og ekki svo flókið að eiga við vélina á ýmsa vegu til að fjölga hestöflunum. Er nú svo komið að nær ómögulegt er að finna óbreytta Súpru af fjórðu kynslóðinni og reiknast sérfræðingum til að þær notuðu Súprur sem boðnar eru til sölu í dag séu að jafnaði með 700 hestafla vél, þökk sé breytingum.

Það er ágætis mælikvarði á fegurð bíla hvernig fólk á …
Það er ágætis mælikvarði á fegurð bíla hvernig fólk á förnum vegi bregst við. Súpran hitti heldur betur í mark á götum Parísar. Ásgeir Ingvarsson

Mikill vill meira

Var því ekki að furða að mikil spenna skapaðist þegar fimmta kynslóð Súprunnar var kynnt til leiks fyrir sléttum þremur árum. Hvað skyldi Toyota hafa smíðað og hvaða stefnu skyldi bílaframleiðandinn taka með þessu nýja flaggskipi? Raunar ætlaði Bílablað Morgunblaðsins að vera búið að reynsluaka sportbílnum fyrir löngu, en kórónuveirufaraldurinn setti strik í reikninginn og er þar komin skýringin á því að þessi reynsluakstursgrein er óvenju seint á ferðinni.

Til að gera langa sögu stutta þá er Toyota GR Supra yndislegur bíll og skemmtilegur í akstri, en Toyota virðist hafa hannað ökutækið þannig af ásetningi að það er ekki fullskapað fyrr en eigandinn er búinn að gera á því ýmsar breytingar. Þegar Súpran rennur af færibandinu er hún firnagóður bíll, en hefði gott af heimsókn á verkstæði þar sem færir bifvélavirkjar fengju frjálsar hendur til að skipta um ýmsa parta, bæta öðrum við og eiga við stillingarnar.

Þessu til stuðnings má benda á að Toyota hefur gætt þess að hafa nóg pláss hér og þar undir húddinu til að auðvelda breytingarnar. Þá má finna raufar víða á ytra byrði bílsins sem búið er að loka með plaststykkjum en hægt að opna með nokkrum handtökum til að beina lofti í átt að vél eða bremsum eftir atvikum.

Þetta er bíll fyrir þá sem vita upp á hár hvað þeir vilja, og hafa nægilega mikla ástríðu fyrir bílum – og nógu fágaðan smekk – til að láta sér ekki nægja valkosti og verðlista framleiðandans, og uppskera að launum tryllitæki sem mun fara létt með að búa til mörg hundruð hestöfl.

Í stuttu máli: þetta er bíll gerður fyrir breytingar.

Fagrar útlínur

Að því sögðu þá er Súpran alls ekkert slor komin beint úr pakkanum, og er það merkilegt út af fyrir sig að megi kaupa svona fallegan og kraftmikinn sportbíl fyrir ekki nema rétt tæplega tvöfalt verðið á nýrri Corollu. Vélina fær Toyota hjá BMW – þá sömu og notuð er í Z4-blæjubílnum – og skilar hún 255 hestöflum til hjólanna í grunngerðinni, sem er tveggja lítra, en fer upp í 382 hestöfl ef valin er þriggja lítra vél.

Bíllinn er ríkulega búinn tækni og þægilegur í akstri, og nokkuð heppilegur fyrir daglega notkun á þröngum borgarvegum, en þegar farið er út á hraðbrautirnar er Súpran eins og hugur manns og nær úr kyrrstöðu í 100 km/klst. á 4,3 sekúndum. Var ekki yfir neinu að kvarta eftir 1.700 km langferð, nema kannski því að töluverða lagni þarf til að láta skottið rúma farangur fyrir tvo.

Hvert sem ekið var vakti Súpran athygli vegfarenda, og skemmdi ekki fyrir að lánsbíllinn var heiðgulur á lit. Hönnunin minnir sumpart á Alfa Romeo 4C, sem er svo fallegur bíll að hann á helst heima á safni, en Súpran er vitaskuld stærri og á alla vegu praktískari. Það má líka telja Súprunni það til tekna að þessir bílar eru tiltölulega fágætir og skera sig þess vegna úr í umferðinni á evrópskum vegum.

Vélin var þróuð í samstarfi við BMW og er einnig …
Vélin var þróuð í samstarfi við BMW og er einnig notuð í blæjubílnum Z4, og hljómar vel. Ásgeir Ingvarsson

Mikið fyrir peninginn

Skýrist tiltölulega lágt verðið m.a. af því að valkostir kaupandans eru frekar takmarkaðir. Þannig fæst Súpran aðeins í sex litum (rauðum, gulum, hvítum, gráum, dökkgráum og svörtum – sá dökkgrái ber af), aðeins ein gerð af felgum í boði og innréttingin svört í öllum bílunum. Á sumum mörkuðum virðist hægt að velja svokallaða „premium“-útgáfu sem hefur það aðallega fram yfir grunnútgáfuna að koma með hljómtækjum frá JBL og framrúðuglæju (e. heads-up display). Allt er það í samræmi við hugmyndafræðina á bak við Súpruna: vilji menn aðra liti, eða annars konar felgur, þá einfaldlega sjá þeir um það sjálfir og gera nákvæmlega eftir eigin höfði.

Það er erfitt að finna veika bletti á Súprunni. Á köflum þótti mér fullmikið veghljóð berast inn í bílinn, en á móti kemur að þá heyrist fallegt vélarhljóðið betur þegar bílnum er gefið inn á hraðbrautinni. Hljóðkerfið mætti líka vera betra – en því er hægt að kippa í lag með einni heimsókn í Nesradíó. Þá sat bíllinn vel á veginum en virkaði ekki alveg límdur við malbikið eins og sumir þýskir og ítalskir sportbílar sem kosta líka tvöfalt, þrefalt eða fjórfalt meira.

Miðað við verð, útlit, kraft og þægindi myndi sá sem þetta skrifar alveg taka það til greina að kaupa Súpru sjálfur og nota til daglegs brúks, hvað þá þegar haft er í huga að hvað útlitið snertir gefur Súpran mun dýrari sportbílum ekkert eftir.

Umgjörð ökumanns er þægileg en jafnframt laus við íburð.
Umgjörð ökumanns er þægileg en jafnframt laus við íburð. Ásgeir Ingvarsson

Toyota GR Supra

3,0 l 6 strokka BMW bensín mótor. Fæst einnig með 2.0 l 4 strokka vél.

Afturhjóladrifinn

382 hö/500 Nm

Eldsneytisnotkun:
8,1 lítrar/100 km (WLTP)

Hámarkshraði: 250 km/klst.

0-100 km/klst á 4,3 sek.

Eigin þyngd: 1.570 kg

19 tommu felgur

Losun í blönduðum akstri:
185 g/km

Farangursrými: 290 l

Umboð: Toyota

Súpran vakti mikla hrifningu jafnt í Frakklandi, Sviss og Þýskalandi.
Súpran vakti mikla hrifningu jafnt í Frakklandi, Sviss og Þýskalandi. Ásgeir IngvarssonGreinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 17. janúar

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »