Þeysireið í slabbinu á nýjum Skoda

Enyaq fær einkar góða umsögn blaðamanns og erfitt að finna …
Enyaq fær einkar góða umsögn blaðamanns og erfitt að finna veikan blett á bílnum. Árni Sæberg

Þó dagatalið gefi til kynna að bolludagurinn sé á mánudegi, þá er það hefð á mínum bæ sem og mörgum öðrum að halda bolludaginn hátíðlegan daginn áður, þ.e. á sunnudegi. Ég var svo heppinn að vera boðinn í þrjú bolluboð á sama deginum, víðs vegar um bæinn og fararskjótinn var ekki af verri endanum, en mér til halds og trausts í febrúarslabbinu var eiturgrænn Skoda Enyaq RS Coupé rafmagnsbíll.

Áður en ég hélt til foreldra minna í kvöldmat og síðar bollukaffi, renndi ég eftir ömmu minni, 89 ára gamalli, sem sjálf hafði verið í bollukaffi hjá vinkonu sinni. Ömmu þótti bíllinn sportlegur, flottur en umfram allt þótti henni aðgengið gott og þægilegt að sitja í bílnum. Vel er hægt að taka undir það með henni, því þó svo að bíllinn sé sportlegur að sjá þá er gott að ganga um bílinn, setjast inn í hann og útsýnið prýðilegt. En oftar en ekki vantar þessa kosti í bíla sem hafa sportlega eiginleika.

Það kann að vera að breytast, enda er eins með þennan Skoda og flesta aðra nýja rafmagnsbíla, að rafhlaðan er undir innra rými bílsins sem óhjákvæmilega hækkar allt innra rýmið og þar með sætin og útsýnið.

Skoda Enyaq RS Coupé er sportlegur og skemmtilegur bíll í …
Skoda Enyaq RS Coupé er sportlegur og skemmtilegur bíll í akstri. Árni Sæberg

Tæplega tíu milljón króna bíll

Skoda Enyaq RS Coupé er í grundvallaratriðum sami bíll og nafni hans, jepplingurinn Skoda Enyaq. Munurinn er sá að RS-týpan er með lokuðu skotti, sem gerir hann sportlegri í laginu en bróðurinn. Í hefðbundinni útfærslu er bíllinn því kassalagaðri en nýtur þess einnig að vera með betra skottpláss. Það er þó vart hægt að kvarta yfir farangsrýminu í Coupé-bílnum, enda er það 575 lítrar. Hallinn á skottinu virðist fyrst og fremst þjóna fagurfræðilegum tilgangi, en sennilega myndi ég sjálfur kjósa praktíkina við að hafa rýmra um farangurinn í skottinu.

Talandi um fagurfræði, þá er vel í lagt í ýmsu en bíllinn kemur á 20“ álfelgum og í boði er að fá 21“ álfelgur. Svokallað „Panorama“ glerþak er staðalbúnaður í Coupé og díóðu-aðalljós, afturljós og lýsing í grilli gefa bílnum sterkan svip.

Skoda Enyaq RS Coupé iV kostar 9.590 þúsund hjá umboðinu Heklu og kemur hann fjórhjóladrifinn. Grunngerðin, sem ekki er búinn sömu vél og er afturhjóladrifinn er hins vegar fáanlegur frá rétt rúmum 7 milljónum króna. Sá er með minni rafhlöðu og er drægnin uppgefin 412 kílómetrar á hleðslunni. Sá ódýrasti býr yfir 180 hestöflum. Skoda Enyaq er náskyldur frænda sínum, VW ID.4, með sama undirvagn og sömu rafhlöður.

Enyaq RS Coupé er búinn tveimur rafmótorum sem skila samtals 295 hestöflum í öll fjögur hjólin, er búinn 77 kWst rafhlöðu og er uppgefin drægni 520 kílómetrar á hleðslunni. Ekki reyndi á þolmörk rafhlöðunnar og raundrægni í bolludagsrúntinum með ömmu en miðað við uppgefnar tölur ætti bíllinn að komast alla leið frá Reykjavík til Akureyrar og vel það. Bíllinn er með öflugum hraðhleðslubúnaði og ná má 80% hleðslu í hraðhleðslustöð á 36 mínútum.

Háglans stuðari og fallegar línur að aftan.
Háglans stuðari og fallegar línur að aftan. Árni Sæberg

.

300 hestöfl

Eins og við má búast skila 295 hestöfl talsverðum krafti og bíllinn er ansi fjörugur þegar stigið er á pedalann. Hröðun bílsins verður að teljast þokkaleg en hann er 6,5 sekúndur að ná hundrað kílómetra hraða. Í samanburði við samkeppnina þá nær Kia EV6 sama hraða á 5,2 sekúndum, og Tesla Model Y er 3,9 sekúndur. Verð bílanna þriggja er sambærilegt, eða um og yfir níu milljónir króna. Venjulegur leikmaður á borð við mig tekur kannski lítið eftir þessum hraðamun, og ekki reyndi á hann á rúntinum milli kaffiboða. En ágætt er að hafa þessar tölur í huga ef maður skyldi þurfa að flýta sér.

Almennt þótti mér bíllinn vera ljúfur í akstri og láta vel að stjórn. Bæði er hægt að keyra bílinn í „normal“ og „sport“ akstursham, og verður fjöðrunin örlítið stífari í þeim síðarnefnda. Bíllinn býr yfir bremsuviðnámi líkt og flestir rafmagnsbílar búa yfir í dag. Þannig er líkt og bíllinn bremsi um leið og bensíngjöfinni er sleppt. Þessi eiginleiki sparar rafmagn og hleður batteríin um leið og slegið er af. Svona bremsuviðnám á það til að vera heldur frekt ef maður lækkar það ekki sérstaklega sjálfur, en hér þótti mér viðnámið vera hóflegt.

Ég varð ekki var við mikið veghljóð, og bíllinn virðist nokkuð þéttur. En oft eru ódýrari merkin gjörn á að spara þegar kemur að þéttni og einangrun.

Innra rýmið prýðilegt

Skoda Enyaq er rúmgóður bíll og fer vel um bæði fólk og farþega aftur í sem frammi í. Fótaplássið aftur í er gott, en auðvitað ræðst það af því hver situr fyrir framan þig, hve mikið pláss þér býðst. Hátt er til lofts bæði frammi í og aftur í, og jafnvel þó þakið sé hallandi virtist það ekki koma að sök.

Innréttingarnar eru allar með snyrtilegasta móti og er bæði áferðin og útlitið til fyrirmyndar. Þó stingur í augun að sjá grænt blikkið gægjast milli stafs og hurðar, sem dregur úr annars fallegri ásýndinni.

Grænt blikk sést í hurðarkarminum sem dregur úr ásýnd innra …
Grænt blikk sést í hurðarkarminum sem dregur úr ásýnd innra rýmis. Árni Sæberg

Ýmsir sniðugir aukahlutir

Sportið og sportlegir eiginleikar eru sennilega ekki það sem er fólki efst í huga þegar hugsað er um Skoda sem merki í sögulegu samhengi, og þó svo að sá græni sé flottur, þá hefur hann fleira með sér en útlitið. Hann býr yfir alls konar aukahlutum sem mér hefði alls ekki dottið í hug nema vegna þess að sölumaðurinn í Heklu benti mér á þá. Í fyrsta lagi má nefna að með bílnum fylgir rúðuskafa sem er í leynihólfi aftur í skotti, og í öðru lagi er hólf sem geymir regnhlífina inni í framhurðinni farþegamegin.

Það eru ekki bara aukahlutirnir sem heilla en bíllinn er búinn ýmsum sniðugum eiginleikum. Nefna má að hann getur lagt sjálfur í stæði og þótti undirrituðum takast vel til. Það eru skynjarar framan og aftan á bílnum svo hann lætur ökumann vita, og jafnvel fullhressilega, af því þegar að bifreiðin er komin óþægilega nálægt fyrirstöðu. Ég reyndi að leggja bílnum við hliðina á runna fyrir framan hús tengdaforeldra minna í einu bollukaffinu, en bíllinn pípti og leyfði mér ekki að fara nær runnanum en hann taldi sjálfur öruggt. Ég gafst því upp og lagði fjær en ég hefði ætlað mér.

Skjárinn og margmiðlunarkerfið er ágætt. Það tók mig smá tíma að átta mig á helstu flýtileiðum en þetta sagði sig nokkurn veginn sjálft. Viðbragðstími skjásins er þó ekki eins og maður kann að venjast úr eigin síma og fær Enyaq mínus fyrir það, enda leiðist flestum höktandi hugbúnaður.

Enyaq fær fimm af fimm mögulegum stjörnum frá Euro NCAP, og er því í hæsta öryggisflokki.

Fóta- og höfuðrými aftur í er nokkuð gott.
Fóta- og höfuðrými aftur í er nokkuð gott. Árni Sæberg

Skoda Enyaq Coupé RS

Rafhlaða: 77 kWst

Fjórhjóladrifinn

299 hö / 460 Nm

Hámarkshraði: 180 km/klst

Drægni: 515 km

Orkunotkun: 17 kWst/100km

6,5 sek í 100 km hraða

Losun Co2: 0g

Farangursrými: 575 lítrar

Hámarksdráttarg.: 1.200 kg

Eigin þyngd: 2.367 kg

Umboð: Hekla

Skottplássið er gott, svo leynist rúðuskafa í leynihólfi.
Skottplássið er gott, svo leynist rúðuskafa í leynihólfi. Árni Sæberg

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: