Breytir beygjum í beinar brautir

EQS er vígalegur eins og minni bróðirinn. Langur og breiður …
EQS er vígalegur eins og minni bróðirinn. Langur og breiður en upplifunin af stærðinni fæst þó ekki nema inn í hann sé stigið. Þar blasir dýrðin við svo um munar. Eggert Jóhannesson

Það vakti nokkra athygli í nóvember 2016 þegar snillingar hjá Reykjavíkurborg fullyrtu að Hagatorg, stærsta hringtorg á Íslandi, væri ekki hringtorg heldur „akbraut“. Hin nýstárlega skilgreining var til komin vegna þess að sömu meistarar höfðu staðsett strætóskýli inni í torginu en lögum samkvæmt má ekki stöðva bifreiðar í torgum af þessu tagi. Þá hentaði vel að tala um „akbraut“ og þurfti ekki „missögn“ til að skilja hvert verið var að fara með málið. Út í skurð.

Töframáttur

En hér er tekinn til umfjöllunar bíll sem með töframætti sínum breytir kröppum beygjum í beinan veg og gæti því hentað vel fyrir þá sem breyttu skilgreiningunni á sjálfu Hagatorgi. EQS SUV er jeppaútfærslan af nýjasta og rafknúna flaggskipi Mercedes-Benz. Áður höfum við fjallað um EQS (28. janúar 2022) en í kjölfar þess að sú drossía var sett á markað kom jeppaútgáfan einnig á markað. Má helst líkja þessum tveimur við S-class og GLS í sprengihreyfilsbílum sama framleiðanda. Þægindi í bland við óviðjafnanlega stærð skipta höfuðmáli auk þess augljósa, að blanda þessu saman við mörg hestöfl og tæknibúnað ýmiss konar, nauðsynlegan og ekki, sem gleður auga bílaáhugamanna.

Fjölskyldusvipur Benz leynir sér ekki á bakhlutanum. Sportleg ljósröndin teygir …
Fjölskyldusvipur Benz leynir sér ekki á bakhlutanum. Sportleg ljósröndin teygir sig þvert og endilangt og er greinileg langt að. Eggert Jóhannesson

Fjórhjólastýring

En hvernig fer EQS að því að rétta af beygjur eins og hér er nefnt? Í tilteknum útfærslum bílsins er að finna svokallaða fjórhjólastýringu, en á mannamáli þýðir það, að það eru ekki aðeins framdekkin sem gera bílnum kleift að beygja heldur einnig afturhjólin (10°). Það skiptir miklu máli að hafa slíkan búnað til taks þegar þessum risastóra bíl er ekið um þröngar götur (eins og í Urriðaholti þar sem ég bý) eða á stæðum eins og í Kringlunni eða í Smáralind. Honum reynist létt að leggja í þröng stæði og taka krappar beygjur. Bíllinn er tæpir 5,2 metrar á lengd og tæpir tveir á breidd. En þessi búnaður virkar líka afar vel þegar maður nennir ekki að hægja á sér í beygjum og vill láta skriðþunga bílsins njóta sín í botn. Og það gerir hann svo sannarlega. Í EQS var eftirtektarvert hversu stöðugur bíllinn var og þyngdarpunkturinn lágur, en það átti svo sem ekki að koma á óvart með risastóra rafhlöðuna undir niðri. Hér gat mögulega önnur tilfinning búið um sig enda um mun hærri bíl að ræða, en sama var uppi á teningnum. Frábær stöðugleiki og eins og að bíllinn væri límdur við malbikið. Það er ekki aðeins þyngdarpunkturinn sem tryggir það heldur einnig AIRMATIC-loftpúðafjöðrunin sem lætur manni líða eins og ekið sé um á mjúkum tuðrum, jafnvel þótt bíllinn sé búinn vígalegum 21“ álfelgum.

Þungur en léttur í senn

Eins og gefur að skilja er þetta þungur bíll. Því ræður ekki aðeins stærð hans heldur einnig rafhlaða sem tryggir honum mikla drægni (raundrægni upp á 500+ km) á hverri hleðslu. Og tilfinning bílstjórans er sú að hann sé allt í senn á þungum bíl en afar liprum. 450 útfærslan er 360 hestöfl sem gefur honum mikið afl sem bliknar þó í samanburði við 580 útfærsluna þar sem hestöflin eru 544. Verð ég að viðurkenna að ég hef ekki prófað síðarnefnda bílinn en mér er sagt að hann dugi vel í andlitsstrekkingu og jafnvel á svæsnustu tilfellin sem taka þarf á (meðferðin er reyndar ódýrari hjá lýtalæknum ef fólk vill bera saman krónur og aura.)

Feikilega gott fótapláss er í aftursætum og rýmið heldur vel …
Feikilega gott fótapláss er í aftursætum og rýmið heldur vel utan um farþega, háa sem lága. Margar stillingar á sætum. Eggert Jóhannesson

Næsta stelling best

Innanstokks er allt eins og best verður á kosið. Sætin mjúk og djúp en halda vel við, jafnvel þótt ekið sé greitt. Allur stjórnbúnaður er klassískur fyrir þá sem þekkja til Benz en skjáir eru stórir og afar skýrir. Á það ekki síst við þegar leiðsögukerfið er notað. Þá er ýmis þægindi að finna í bílnum sem auka á óbærilegan léttleika tilverunnar. T.d. bílaþvottastilling sem gerir það að verkum að maður getur bókstaflega lagt sig meðan bíllinn rennir í gegn hjá Lind. Einnig er í framsætum boðið upp á kerfi þannig að sætin breyti stellingu, smátt og smátt í senn, á u.þ.b. mínútu fresti. Það léttir álagi á líkamanum og dregur úr þreytueinkennum. Sérfræðingar hjá Benz (sennilega kírópraktorar eða hnykkjarar) vilja meina að besta setustaðan sé sú næsta. Og er hægt að taka undir það.

Víkingur Heiðar og Kaldalóns

Þýsku meistararnir klikka að sjálfsögðu ekki á hljóðkerfinu og eru í öflugu samstarfi við Burmeister. Hvort sem hlustað er á Billie Eilish eða Kings of Leon þá er útkoman fullkomin. Það var tilkomumikið að hlusta á Ave Maria Kaldalóns í meðförum Víkings Heiðars en það er lag sem ég nota til að prófa öll hljóðkerfi (hef skipt því inn á í staðinn fyrir Bolero Ravels.)

Þegar maður hefur prófað báða EQS-bílana frá Benz veltir maður fyrir sér hversu öflug verkfræðin í bílgreinunum er orðin. Hvernig þessum framleiðanda, eins og nokkrum öðrum á borð við Porsche, hefur tekist að fullkomna (eða næstum því) rafbílaframleiðslu á ekki fleiri árum en raun ber vitni. Þessi tæki virka ótrúlega vel og virðast hafa verið til í 100 ár. Ætla má að stórstígar framfarir verði á sviðinu á komandi árum en maður klórar sér í kollinum yfir því hvernig menn ætla í raun að gera sífellt betur. Er það í alvörunni raunhæft?

Bíllinn beygir einnig á afturdekkjunum sem gefur honum ótrúlega eiginleika. …
Bíllinn beygir einnig á afturdekkjunum sem gefur honum ótrúlega eiginleika. Risi verður að ballerínu í einni svipan. Eggert Jóhannesson

Svo lítið beri á

Eitt er þó sem ég hef verið hugsi yfir allt frá því að EQS kom fyrst á markað og er ég þar að vísa til fólksbílsins og jeppans. Þegar maður ber þessa bíla saman við S-class og GLS þá er ljóst að talsvert ber í milli í ytra útliti. Og þar þarf að opna á umræðu um glæsileik. S-class, ég tala nú ekki um SEL. Ekki fer fram hjá nokkrum manni þegar hann rennir hjá. Og hið sama má segja um GLS sem er lengri og burðugri en flestir aðrir jeppar. Hins vegar eru EQS-bílarnir mjög straumlínulagaðir og mjúkir í alla staði. Einhver myndi segja feimnir á athyglina. Hvað veldur er ekki alveg ljóst en mig grunar helst að það sé einfaldlega hin eðlisfræðilega krafa um litla sem enga loftmótstöðu. Var hönnuðum Benz kannski ómögulegt að hanna bíla sem skera sig úr og fá fólk til þess að snúa sig næstum úr efstu liðum hryggjarsúlunnar? Eða var kannski ætlunin að tóna niður hina óviðjafnanlegu nærveru S-Class og GLS?

Því get ég ekki svarað en þeir sem kaupa Benz til þess að láta vita af sér eiga bágt með að skipta yfir á EQS. Þar fer risi sem læðist og glæsileikinn og mögnuð hönnunin nýtur sín ekki til fulls nema séð innan frá. En kannski er það líka tímanna tákn. Er ekki óþarfi að berast á í umferðinni? Þeir sem hafa þörf fyrir það geta auðvitað bara keypt sér Defender eða Gelandewagon. Að minnsta kosti enn þá. Eftir tvö ár verður bannað að selja slíka bíla í Noregi og Ísland mun fylgja fast á eftir. Ekki nema að framleiðendurnir nái að skella undir þá risastórum rafhlöðum og losa sig við sprengihreyfilinn. Eflaust er ekkert ómögulegt í þeim efnum.

Stýrið er sportlegt og millistórt en vel sér á skjá …
Stýrið er sportlegt og millistórt en vel sér á skjá fyrir aftan það. Einnig er gott að fá hraða bílsins varpað á framrúðuna Eggert Jóhannesson

Mercedes-Benz
EQS SUV 450 4MATIC

Hestöfl/Tog: 360/800

Eyðsla frá: 19,9 kWst/100 km

Stærð rafhlööðu 107,8 kWst

Drægni allt að 615 km (WLTP)

0-100 km/klst 6,0 sek

Eigin þyngd: 2.480 kg.

Farangursrými: 645-2.100 lítrar

Verð frá 20.590.000 kr.

Verð á prófuðum bíl: 24.290.000 kr.

Bílaumboð: Askja

Skjárinn er stór og skýr og afþreyingarkerfið fyrsta flokks.
Skjárinn er stór og skýr og afþreyingarkerfið fyrsta flokks. Eggert Jóhannesson
Gæðin koma oft skýrast fram í því hvernig hugað hefur …
Gæðin koma oft skýrast fram í því hvernig hugað hefur verið að smáatriðunum. Eggert Jóhannesson
Góð hljómtæki frá Burmeister gera bíltúrinn að tónleikum.
Góð hljómtæki frá Burmeister gera bíltúrinn að tónleikum. Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: