Tignarlegur og traustur gæðingur

Nýr Musso Grand Ultimate, Black Edition. Svarta útgáfan eykur á …
Nýr Musso Grand Ultimate, Black Edition. Svarta útgáfan eykur á tignarlegt útlit bílsins, sem verður best lýst sem karlmennsku á hjólum. Látið þó ekki blekkjast, bíllinn er í senn fjölskylduvænn og draumur útivistarmannsins. Lipur innanbæjar en jafnframt traustur í krefjandi aðstæðum. Morgunblaðið/Karítas

Í gegnum tíðina hef ég haft blendnar tilfinningar í garð pallbíla. Það er margt praktískt við það að vera á pallbíl í útivist eða veiðum, ekki síst hvað varðar pökkun á búnaði og að þurfa ekki að taka blaut, drullug og jafnvel illa lyktandi föt, skó og vöðlur inn í innra rými bílsins. Þá er einsýnt notagildi af þeim í smalamennsku þegar þörf gerist fyrir að sækja aðframkomin lömb sem eru við það að sprengja lungun af ofreynslu við það að koma sér niður af fjöllum. Beint á pallinn með þau!

Helst hefur það gert mig fráhverfa pallbílum að maður getur verið svolítið klunnalegur á þeim í innanbæjarakstri. Þeir eru oftast stórir um sig, sem gerir það að verkum að það getur verið töluverður hausverkur að finna bílastæði undir þá í borg sem þrengir stöðugt að einkabílnum. Þegar kemur svo að því að sleppa dýrinu lausu á malbikslausum vegum og slóðum er algengt að pallbílar séu mjög hastir. Manni líður því eins og maður sé kýldur í bakið í hverri ójöfnu, sem getur verið mjög óþægilegt á lengri ferðum um fjallvegi Íslands, sem ég hef stundað nokkuð mikið.

Ég hafði þess vegna komist að þeirri niðurstöðu fyrir nokkru að pallbílar væru ef til vill ekki fyrir nema þá allra hörðustu og kannski helst þá sem búa í dreifbýli – sem almennt er harðgerðara fólk en við malarbúar – eða sem aukabíll sem nýttist í nokkuð þröngum tilgangi.

Eins og nánar verður vikið að síðar hefur nýi Musso Grand-inn frá KGM, áður SsangYong, þó fengið mig til þess að skipta um skoðun, eða láta af fordómunum, eins og einhver myndi kannski meina að ég hefði haft fyrir pallbílum.

Mikill vinnuþjarkur

Hinn suðurkóreski Musso er íslenskum jeppaáhugamönnum að góðu kunnur, en hann hefur verið framleiddur í nokkrum útfærslum allt frá árinu 1993. Musso-pallbíllinn eins og við þekkjum hann í dag – þá horfi ég framhjá Musso Sports sem var framleiddur um skamma hríð snemma á þessari öld og var móðgun við alla þá sem gera minnstu kröfu um fagurfræðilega eiginleika bíla – hefur verið framleiddur frá árinu 2018.

Honum er lýst sem miklum vinnuþjarki: öflugum, fjórhjóladrifnum og margverðlaunuðum fyrsta flokks pallbíl sem hannaður er fyrir fjölbreytt og krefjandi verkefni. Hann er sagður henta vel í daglegum akstri en þó hannaður til að takast á við fjölbreytt verkefni, allt frá landbúnaði og byggingariðnaði til framleiðslu og vörudreifingar.

Í lýsingu segir að hann sé byggður á grind, með læsanlegum millikassa, háu og lágu drifi og kraftmikilli dísilvél sem skilar 202 hestöflum og allt að 441 Nm togi. Þá kemur hann með allt að 3.500 kg dráttargetu og allt að 1.025 kg burðargetu.

Stýrikerfið í bílnum er með einfaldasta móti og auðvelt að …
Stýrikerfið í bílnum er með einfaldasta móti og auðvelt að læra á það.

Föðurleg karlmennska á hjólum

Þegar mér bauðst að prufuaka nýja Musso Grand-inn varð ég nokkuð spennt. Því verður ekki neitað að bíllinn er tignarlegur útlits. Ekki skemmdi fyrir að bíllinn sem ég fékk að prófa reyndist Musso Grand Ultimate, Black Edition. Hann er hroðalega sexý, ef þannig má að orði komast. Það er baneitruð karlmennska í þessum bíl en engu að síður upplifði ég mig sem svakalega gellu í þessum kolsvarta karlmennskutrukk.

Það kom mér á óvart hvað bíllinn er lúmskt nettur. Ég lenti ekki í neinum vandræðum innanbæjar vegna stærðar hans og ég lék mér til dæmis að því að bakka honum í meðalstórt stæði fyrir utan umboðið. En það er ekkert vit í því að prófa svona bíl innanbæjar og því lá leiðin fljótlega út úr bænum.

Með í för í þetta skiptið var 17 mánaða dóttir mín, upprennandi útivistar- og veiðikona. Í bílnum eru að sjálfsögðu isofix-festingar fyrir bílstóla og innra rýmið er mjög rúmgott, þannig að það var ekkert mál að koma stól og barni þægilega fyrir. Fyrir fram gerði ég mér engar væntingar um að þetta væri neitt sérstaklega fjölskylduvænn bíll og var bara að vona að þetta gengi upp, svo að þetta var óvænt ánægja og ég lýsi því yfir að það sé óhætt fyrir úthverfapabba og -mömmur að verða spennt fyrir þessum. Um leið neyðist ég til þess að taka til baka orð mín um baneitraða karlmennsku. Karlmennskan er sennilega meira í ætt við traustan og ævintýragjarnan fjölskylduföður.

Það eina sem ég get sett út á hvað varðar fjölskylduvænleika bílsins er að aftursæti fyrir miðju hefur eingöngu tveggja punkta belti. Ég hélt að menn væru hættir því nú til dags, svo það kom mér nokkuð á óvart. Því hefur verið fleygt fram að það sé einn svartur sauður í hverri fjölskyldu og það er tilvalið að koma honum fyrir í miðjunni. Það er öruggara en að setja hann á pallinn, enda væri slíkt í andstöðu við umferðarlög.

Partí á pallinum

Hægt er að fá tvær stærðir af palli en mér skilst að bíllinn sem ég prófaði hafi verið með minni gerðinni. Þessi stærð myndi engu að síður duga mér í flest og mér datt enginn sérstakur annmarki í hug við stærðina á honum, það er að segja að ég get ekki séð að hann væri mér takmarkandi að neinu leyti við mín áhugamál á útivistarsviðinu, og þó eru þau ansi fjölbreytt. Þegar maður læsir bílnum læsist pallhlerinn með en það er ekki þannig á öllum pallbílum. Fyrir mér er það kostur, verandi yfirleitt með dýran útbúnað á ferðinni. En ég veit þó að einhverjir vilja bara hafa hann alltaf aðgengilegan eins og á gömlu jálkunum, en þá er bara málið að vera með lykilinn í vasanum.

Pallurinn er algjör draumur í veiðinni eða útivistinni fyrir svona skottpartí. Ég öfunda alltaf fólk á pallbílum sem getur verið með svona flott pall-pikknikk, með veitingum og huggulegheitum. Það er skemmtilegri stemning en með hefðbundnu skotti.

Einfaldleikinn í fyrirrúmi

Stefnan var tekin frá umboði Bílabúðar Benna vestur í Skorradal, en þar má finna nóg af möl og misgreiðfæra vegi. Aksturinn á þjóðveginum var huggulegur og það fór vel um mig. Það eina sem raskaði ró minni til að byrja með var öll þessi viðvörunarpíp sem fylgja öllum nýjum bílum í dag, þökk sé Evrópuregluverkinu og forræðishyggju þess. Ég var til dæmis rétt að nálgast Esjumela þegar upp kom viðvörun þar sem ég var vinsamlegast beðin um að taka mér hvíld frá akstri. Ef til vill hefur bíllinn numið athyglisbrestinn minn sem var tilkominn vegna spennings yfir því að prófa nýja græju. Sem betur fer er auðvelt að slökkva á þessum ófögnuði í stillingum bílsins, en hann má einnig að mestu forðast með því að hafa alla athygli á akstrinum, aka á miðri akrein, með sætisólar spenntar og á löglegum hraða.

Að því sögðu er rétt að geta þess að stjórnborðið allt er mjög einfalt og hvergi verið að flækja hlutina. Sem dæmi um þetta er bíllinn búinn aðlagaðri hraðastýringu (e. adaptive cruise control), þar sem hraði bílsins tekur mið af hraða ökutækisins sem hann fylgir. Kveikt er á hraðastýringunni með hnappi á stýrinu, en þar er að finna ýmsar handhægar stillingar. Ýtarlegri stillingar er svo að finna á skjá hægra megin við ökumanninn, sem er mjög þægilegur í notkun. Það þarf enga tölvunarfræðigráðu til þess að rata um hann og því hentar bíllinn ekki síður þeim sem eru sífellt í vandræðum með tæknina.

Sólin skein þennan dag og leðursætin voru heit eftir því. Þá kom sér vel að geta stillt á kælingu í sætunum. Á heitum sumardegi mun það koma sér vel fyrir eiganda Musso Grand Black Edition að geta sest í leðursætið á stuttbuxum án þess að hafa áhyggjur af því að hold og leður bráðni saman í eitt. Hér á landi hafa flestir meiri áhuga á sætishita, sem er að sjálfsögðu líka. Það er jafnframt hiti í stýrinu og hvað hann varðar gladdi mig að ekki væri þörf á að kveikja á hitanum í upphafi hverrar bílferðar; stillingin helst á þangað til það er slökkt á henni sérstaklega.

Þvottabrettið straujað

Bíllinn reyndist einstaklega lipur í akstri, hvort sem var á malbiki eða möl. En til þess að fá almennilega tilfinningu fyrir bílnum ókum við til baka yfir Dragháls, eða fórum Dragann eins og sagt er. Eftir miklar leysingar vikurnar á undan var vegurinn illa á sig á kominn og óheflaður. Alveg eins og best verður á kosið fyrir prófraun sem þessa.

Aðstæður voru þó aldrei þannig að þær krefðust þess í reynd að nýta lága drifið; spólvörnin skilaði sínu þar sem við átti. Það var óvenjumikill hamagangur að fara Dragann í þetta skiptið, en bíllinn var traustur og stöðugur þótt ég legði töluvert á hann. Eitt það fyrsta sem ég varð vör við er að þessi bíll er ekki hastur. Ég þurfti ekki að kíkja undir hann til að átta mig á því að hann væri með gormafjöðrun, það var augljóst, en oftar eru pallbílar með fjaðrir að aftan sem gerir þá hasta. Það urðu því engin óþægindi af því að strauja þetta þvottabretti alla leið niður í Hvalfjörð. Dóttirin kvartaði aldrei og var hæstánægð með útsýnið, þar sem hún sat óvenju hátt.

Eini lösturinn sem ég varð vör við í hamaganginum var að sólskyggnin í bílnum láku niður í hristingnum þegar þau voru ekki alveg í efstu stöðu, svo að maður þurfti dálítið að vera að ýta þeim ofar til að þau byrgðu ekki sýn meira en þurfti. Ég get þó ekki ímyndað mér að það sé mikið mál að laga þetta, eflaust er hægt að herða aðeins á einhverri skrúfu.

Handhægar stillingar eru á stýri, en auk þess hefur bíllinn …
Handhægar stillingar eru á stýri, en auk þess hefur bíllinn 12,3″ stafrænt mælaborð og 12,3″ margmiðlunarskjá.

Kveðja með söknuði

Það var virkilega skemmtilegt að aka Mussoinum á krefjandi vegi og ég var ánægð með frammistöðu hans. Hann fór langt fram úr þeim væntingum sem ég hafði til pallbíla og stóðst allar mínar kröfur almennt hvað varðar þægindi og stöðugleika í akstri, auk þess að hafa þennan góða pall sem er auðvitað draumur útivistarmannsins.

Þegar ég skilaði svarta gæðingnum í umboðið á mánudagsmorgni kvaddi ég hann með nokkurri eftirsjá. Konan með pallbílafordómana gat ekki annað en viðurkennt fyrir sjálfri sér að hún gæti alveg hugsað sér að eiga þennan trausta karlmennskutrukk.

Musso Grand Ultimate Black Edition

e-XDi 220 2,2L dísilvél

Fjórhjóladrif með læsanlegum millikassa

Sjálfskiptur

Hestöfl/Tog 202/441

0-100 km: 10,6 sekúndur

Hámarkshraði 172 km/klst.

Meðaleyðsla: 8,8 l/100 km

Eigin þyngd: 1.950 kg

Veghæð: 215 mm

Pallastærð: 1.011L (stærri: 1.262L)

Hæð undir lægsta punkt: 215 mm (stærri: 220)

Burðargeta: Allt að 1.025 kg

Dráttargeta: Allt að 3.500 kg

Fjöðrun: 5 punkta gormafjöðrun að aftan (blaðfjöðrun í boði)

Breytingarmöguleikar: 33”-37”

Verð 9.990 þ.kr. + 390 þ.kr. fyrir Black Edition

Bílaumboð: Bílabúð Benna

Greinin birtist fyrst í Bílablaði Morgunblaðsins þriðjudaginn 18. mars

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: