Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 21. maí.
Sumir sjá það í hillingum að gerast bílablaðamenn. Eða er til betra starf en að fá borgað fyrir að aka rándýrum lúxuskerrum og sportbílum? Það er alveg rétt að bílablaðamennskan getur – á köflum – verið mikið forréttindastarf, en verkefnin eru yfirleitt afar hversdagsleg og hlutverk bílablaðamannsins aðallega að hjálpa hinum almenna lesanda að gera upp hug sinn þegar valið stendur á milli afar jarðbundinna heimilisbíla.
Ekki nóg með það, heldur eru bílar í dag ósköp jafnir að gæðum. Alltaf má finna einhver smáatriði sem mætti bæta, eða vel heppnaðar lausnir sem gefa einum framleiðanda forskot á hina, en munurinn á þeim nýju bílum sem koma á markaðinn er hreint ekki svo mikill, og miklu minni en hann var fyrir tveimur eða þremur áratugum.
Enda kemur heill her sérfræðinga að hönnun hvers bíls, og allt er margprófað og mælt, svo að meiriháttar klúður eru sjaldgæf en sömuleiðis lítið um bifreiðar sem fara langt upp fyrir meðaltalið.
Þessi þróun sést hvað best á rafbílamarkaðinum, enda mætti alveg segja að hver einn og einasti rafbíll byggist á sömu tækni og munurinn felist aðallega í umbúðunum. Vissulega er hægt að gera alls konar kúnstir með rafhlöðurnar og rafmótorana, en það er líklega minni munur á aflrás og hönnun rafmagns-Volkswagen og rafmagns-Ford en á bensín-Volkswagen og bensín-Ford. Sumir gerast svo kræfir að setja rafbíla hreinlega á sama stall og önnur raftæki heimilisins – eða er nokkuð svo mikill munur á því að skrúfa saman þvottavél, ísskáp eða farsíma, eða að púsla saman rafmagnsbíl? Er það nokkur furða að kínversku rafbílamerkin sem núna valta yfir markaðinn eigi rætur sínar að rekja til raftækjaframleiðslu?
Er þá nema von að kvartað sé yfir því að rafbílar nú til dags hafi ekki mikinn „persónuleika“ eða „sál“, heldur séu einfaldlega samgöngutæki og box á hjólum. Þeir eru hagkvæmir, hljóðlátir, þægilegir og geta stundum verið mjög snöggir af stað; sumir eru með fallegri innréttingu en gengur og gerist og aðrir með betra notendaviðmót í snertiskjánum, en það er fátt við þá sem fær hjartað til að slá örar.
Sú var tíð að unglingspiltar hengdu upp á svefnherbergisvegginn hjá sér veggspjöld af bílum frá Ferrari, Lamborghini, Ford, GM og Porsche. Hvaða unglingur hefði áhuga á veggspjaldi af þeim rafbílum sem eru á markaðinum í dag?
Tjah, nema kannski Maserati GranTurismo Folgore!
Vinnudagar bílablaðamannsins geta oft verið hver öðrum líkir, en það átti ekki við um miðjan mars þegar ég fékk lyklana að þessum ítalska rafmagns-sportbíl. Hér er loksins kominn rafbíll sem fær ekki bara hjartað til að slá örar heldur vekur svo sterkar tilfinningar að hætt er við gáttaflökti.
Er nokkuð hægt að finna fallegri rafmagnsbíl? Þeir eru a.m.k. fáir, og eru þá yfirleitt svo dýrir að ekki er nema á færi milljarðamæringa að eignast þá. Lotus Evija er t.d. afskaplega fögur bifreið, og bílarnir frá Rimac eru ekkert slor, en þeir kosta líka um og yfir tvær milljónir dala. Porsche Taycan er líka vel heppnaður og bílarnir frá Karma hafa ákveðinn sjarma, en þeir hafa ekki nærri því sömu nærveru og GranTurismo Folgore – en auðvitað er það smekksatriði.
GranTurismo-línan hjá Maserati hóf göngu sína árið 2007 en systurbíllinn GranCabrio – þessi með blæjuna – mætti til leiks þremur árum síðar. GranTurismo er ætlað að vera þægilegur lúxus-sportbíll og lendir hann í flokki með bílum á borð við Porsche 911, Jaguar F-Type, BMW M4 og jafnvel Aston Martin Vantage.
Ítalska fegurðin dylst engum, en GranTurismo hefur samt aldrei þótt mikið óargadýr og var t.d. aflmesta útgáfan af fyrstu kynslóð þessa bíls ekki nema 454 hestöfl og 4,8 sekúndur í hundraðið. Það er í sjálfu sér ekki amalegt, en þó ekki nærri því jafnmikill hraði og kraftur og hjá t.d. grunn-sportbílum Ferrari og Lamborghini á sama tímabili. Þá hefur það skemmt fyrir Maserati (líkt og mörgum öðrum ítölskum framleiðendum) að það orðspor hefur loðað við bílana þeirra að vera með háa bilanatíðni. Er þar kannski komin skýringin á því að þessi brjálæðislega fallegi bíll frá þessum sögufræga ítalska framleiðanda virðist hafa átt erfitt með að ná miklu flugi.
Einhvers staðar var bent á að það væri líkt með ítölskum bílum og ítölskum elskhugum, að fegurðin og glæsibragurinn hrífur mann, og það getur verið afskaplega auðvelt að falla fyrir þeim, en það er ekki alltaf hægt að treysta því að þeir fylgi manni alveg á leiðarenda.
Maserati gafst samt ekki upp og nýlega var hulunni svipt af annarri kynslóð GranTurismo, og komu fyrstu eintökin á götuna árið 2023. Bíllinn er byggður ofan á Giorgio-undirvagninn sem þróaður var hjá Alfa Romeo og á að henta bæði fyrir tengiltvinn- og rafmagnsbíla. Giulia og Stelvio frá Alfa Romeo nota sama undirvagn, sem og smájeppinn Grecale frá Maserati, og bráðum fáum við bíla frá Dodge, Chrysler og Jeep með þennan undirvagn.
Nýja kynslóð GranTurismo er um 7 cm lengri og rúmlega 10 cm breiðari en fyrsta kynslóðin, en þökk sé fullkomnari málmblöndum er bíllinn 100 kg léttari í bensínútgáfunni (en nokkur hundruð kílóum þyngri í rafmagnsútgáfu). Mestu skiptir að vélin er orðin töluvert kraftmeiri: Bensín-útgáfurnar, eru með 3,0 l V6-vél, annars vegar 483 hö (Modena) og hins vegar 542 hö (Trofeo), og aðeins 3,5 til 3,9 sekúndur í hundraðið.
Folgore-útgáfan er síðan alrafmögnuð og mun kraftmeiri: Þökk sé 751 hestafli og 1.350 Nm togi rýkur hún af stað úr kyrrstöðu í 100 km/klst. á 2,7 sekúndum.
Maserati lánaði mér sérstaka 110 ára afmælisútgáfu, en fyrirtækið var stofnað í Bologna árið 1914. Afmælisútgáfan er aðeins smíðuð í 110 eintökum: 55 í bláum lit og 55 með slikimatt grátt lakk, og þekkist líka á sérhönnuðu „110“ merki á aftursúlunni, en er að öðru leyti eins og venjulega útgáfan af GranTurismo Folgore.
Eins og sést á myndum fékk ég gráu útgáfuna og verð að segja að liturinn fer bílnum einstaklega vel. Það má alveg fylgja sögunni að ég sótti bifreiðina í Mílanó, en þar er orðið stórhættulegt að eiga fallegt ökutæki, vegna leiðindapúka með skemmdarfýsn. Ég samdi því sérstaklega við húsvörðinn í blokkinni minni að fá að lauma kagganum inn í bílastæðakjallarann, því það virðist orðið að íþrótt hjá sumum borgarbúum að brjóta rúður og rispa hurðir á bílum – og því sterkari virðist þessi fýsn eftir því sem bílarnir eru dýrari og fínni.
Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds fyrsta daginn sem ég fékk að nota sportbílinn, því ekki hafði ég fyrr komið honum í öruggt skjól í bílastæðakjallaranum en einhver tók sig til og rispaði fjóra bíla við inngang blokkarinnar minnar, og það um hábjartan dag.
Þvílík plága og leiðindi að fólk sem gerir svona lagað skuli ganga laust, og er samt nógu erfitt að vara sig á dældum og rispum í gömlum evrópskum borgum þar sem stæðin eru þröng og göturnar virðast enn þrengri. Ef eitthvað er við GranTurismo að athuga er það kannski einmitt að bíllinn er aðeins of stór fyrir evrópskar aðstæður. Fékk ég að reyna það á eigin skinni þegar ég hélt út fyrir bæinn til að reyna að taka nokkrar myndir af glæsikerrunni, og valdi í leiðsögukerfinu punkt af handahófi í fjallaþorpi norður af borginni.
Einhvern veginn tókst mér að missa af stóru skilti sem varaði mig við að ég væri að beygja inn á veg þar sem þrengsti kaflinn væri ekki nema tveir metrar á breiddina – á milli tveggja húsveggja, sem báðir voru alsettir rispum eftir ólánsama ökumenn. Hafi ég einhvern tíma verið með hjartað í buxunum þá var það þegar ég þurfti að bakka þessum liðlega 200.000 evra dreka nokkur hundruð metra þar til ég komst aftur upp á þjóðveginn. Eftir það hélt ég áfram sem leið lá upp að Como-vatni og oft gerðist það að ég óskaði þess heitast að vera frekar á pínulitlum smábíl. Fyrir þá sem hyggja á bíltúr um Ítalíu get ég vottað að það væri langtum þægilegra að aka um ítölsku smávegina á 50 ára gömlum Fiat 500 sem er ekki nema 1,3 metrar á breiddina, en á tveggja metra sportbíl með sáralitla veghæð. Ég fylltist aðdáun og undrun í hvert skipti sem ég mætti strætisvagni á veginum sem liggur umhverfis vatnið, því þar eru á ferð bílstjórar með taugar úr stáli og rýmisgreind í sérflokki.
Hvað er það annars sem veldur því að þessi ítalski rafmagnsbíll er svona ofboðslega aðlaðandi? Gæti það verið vegna þess að útlitið var ekki hannað með vindmótstöðuna eina í huga? Rafmagns- og bensínútgáfan líta nánast eins út, og helst hægt að þekkja bílana í sundur á því að rafmagns-GranTurismo fæst með öðruvísi felgum og að það vantar á hann púströrin. Það sést því ekki langar leiðir að þetta er rafmagnsbíll. Ég fann mér að lokum góðan stað til að mynda glæsikerruna – rétt í þann mund sem sólin var að setjast – og eins og við var að búast bar þar að nokkra forvitna karla sem urðu allir hissa þegar þeir áttuðu sig á að þetta væri rafmagnsbíll.
Að utan er hönnun bílsins næstum því fullkomin, en innréttingin er líka einkar vel heppnuð. Þegar sest er í ökumannssætið virkar bíllinn allur vandaður og „þéttur“ út í eitt. Sama hvað ég leitaði fann ég ekkert við innréttinguna sem pirraði mig sérstaklega, og aftursætin tvö eru meira að segja nothæf, svo fremi að farþegarnir séu hvorki háir í loftinu né langir til mittisins. Ekkert var að setja út á viðmót tölvunnar í bílnum, tengingin við snjallsímann gekk fumlaust, og þegar ég hafði átt aðeins við stillingarnar var hljómurinn úr Sonus Faber-hljómtækjunum alveg hreint prýðilegur, en með þyngsta bassann í botni mátti greina smá titring í innréttingunni og kannski mætti einhvers staðar herða skrúfu. Það er jú vandinn við rafmagnsbíla að þeir eru svo hljóðlátir að það má heyra hvert minnsta suð, tif og víbring.
Talandi um hljóð, þá þótti mér tifið í stefnuljósunum svolítið dapurlegt, sem segir kannski eitthvað um það hve langt ég þarf að seilast til að finna eitthvað til að kvarta yfir. Þá á ítalska tónskáldið Dardust heiðurinn af „vélarhljóðinu“, sem leikur samt algjört aukaatriði í akstursupplifuninni. Ég lét það pirra mig örlítið hvað bíllinn gat verið fljótur að vara mig við ef ég laumaðist ögn yfir leyfilegan hámarkshraða, en kannski er það kostur frekar en galli á svona öflugum rafmagnsbíl enda ekkert mál að raka inn hraðasektum með öll þessi hestöfl til afnota.
Það sem helst gæti staðið í vegi fyrir því að gera GranTurismo Folgere að heppilegum hversdagsbíl er hvað veghæðin er lítil, eða um 145 mm, en 205 mm ef ýtt er á takka sem hækkar bifreiðina tímabundið, og þyrfti að aka honum mjög varlega yfir íslenskar hraðahindranir. Skottið er líka afar smátt, og eflaust er þar einhver rafbúnaður undir sem saxar á plássið. Með smávegis lagni mætti koma þar fyrir heilu golfsetti, eða kannski einni stórri farangurstösku, en samtals er skottið 270 lítrar að stærð (og 310 lítrar í bensínútgáfunni).
Drægnin er alveg ágæt: 450 km á einni hleðslu, og hægt að bæta á rafhlöðuna úr 10% í 80% á 18 mínútum, en á hraðhleðslustöð tekur 5 mínútur að bæta við 100 km af drægni. Ekki reyndi á það að ég þyrfti að hlaða bílinn, þessa þrjá daga sem ég hafði hann til afnota, og þrátt fyrir að hafa stillt bifreiðina á kappaksturs-ham nær allan tímann var nóg eftir af orku þegar ég skilaði henni.
Ef ég þyrfti endilega að kaupa mér rafmagnsbíl, og ekki væri spurt um verðið, þá þætti mér GranTurismo Folgore afar góður kostur. Þegar ég skilaði bílnum eftir þriggja daga lán hafði ég fallið kylliflatur fyrir honum og kvaddi hann með trega.
En þetta er alls ekki ódýr bifreið, og því eðlilegt að spyrja hvað annað mætti kaupa fyrir peninginn. Eins og kom fram hér að ofan kostar GranTurismo Folgore í kringum 200.000 evrur, kominn beint úr verksmiðjunni, og með íslenskum tollum og gjöldum myndi hann kosta frá 38 milljónum króna kominn á götuna í Reykjavík – áður en styrkur úr Orkusjóði hefur verið dreginn frá!
Til samanburðar kostar Lamborghini Temerario, í kringum 270.000 evrur og hægt að finna nokkurra ára gamla Lamborghini Huracán sem kosta minna en nýr GranTurismo Folgore. Að vísu myndu íslensk kolefnisgjöld gera tíu strokka sportbílinn frá Lamborghini meira en tvöfalt dýrari en rafmagns-sportbílinn frá Maserati, en hjá þeim siðuðu þjóðum sem stilla gjöldum á bíla í hóf er verðmunurinn ekki það mikill og þegar komið er upp í þennan verðflokk munar kaupendur yfirleitt ekki um nokkra tugi þúsunda evra til eða frá.
En hér erum við komin út í vangaveltur af þeim toga að við gætum allt eins reynt að svara því hvor væri betri félagsskapur; Monica Bellucci eða Sophia Loren.
Þess utan er Maserati ekki enn með umboð á Íslandi, þó að það standi örugglega ekki á þeim hjá Ísband að aðstoða við kaup og innflutning ef þess er óskað, enda eru þeir vel tengdir hjá Stellantis.
Aftur á móti væri það alveg ógalið fyrir áhugasama að fylgjast vel með hvernig verðið á GranTurismo Folgore kemur til með að þróast á notaða markaðinum. Það hefur plagað Maserati að bílarnir þeirra hafa átt það til að lækka hratt í verði, og það sama hefur átt við rafbíla almennt.
Eftir tvö eða þrjú ár verður því kannski hægt að gera reyfarakaup í þessum bílum ef þeir eru fluttir notaðir til Íslands, og þá hægt að spana um götur bæjarins á rafmagnaðri ítalskri kynbombu sem eftir verður eftir tekið.
Maserati GranTurismo Folgore
Rafmótor: 751 hö/1.350 Nm
Einn mótor að framan
og tveir að aftan.
Drægni: 450 km
Rafhlöðustærð: 92.5 kWst
0-100 km/klst á 2,7 sek.
Hámarkshraði 325 km/klst
Þyngd: 2.750 kg
Lengd: 4.960 mm
Breidd: 1.957 mm (án spegla)
Framdekk: 265/34 ZR20
Afturdekk: 295/30 ZR21
Farangursrými: 270 l
Áætlað verð: frá 38 m. kr.