Að fá að keyra Porsche Macan 4S heila helgi er góð skemmtun, því verður ekki neitað. Ekki skemmdi fyrir að hann var svo skemmtilega appelsínugulur á litinn en það er litur sem sést ekki oft á bílum. Það er mín kenning að konur spái meira í liti á bílum en karlar, enda þegar einhver vinkonan fær nýjan bíl er alltaf fyrsta spurningin; „hvernig er hann á litinn?“, frekar en „hvað er hann mörg hestöfl?“ eins og karlar gætu spurt hvor annan.
En alla vega var undirrituð beðin um að njóta Macan í nokkra daga og erfitt var að segja nei við því. Bíllinn er hin mesta glæsikerra, rafknúinn, fjórhjóladrifinn og að sjálfsögðu búinn öllum mögulegum aukabúnaði sem gerir hann svakalega öruggan en ekki síður þægilegan, bæði að vera í og keyra. Hver vill ekki smá lúxus í líf sitt?
Benni í Bílabúð Benna tók sjálfur á móti blaðamanni, settist inn í Macan og fór yfir helstu atriði. Eftir smá rúnt um hverfið fékk undirrituð sportjeppann til afnota. Eftir þægilegan innanbæjarakstur var næsta dag lagt af stað með vinkonu út fyrir bæjarmörkin og var stefnan sett á sjóböðin í Hvammsvík. Spáin var góð fyrir helgina en eitthvað höfðu veðurguðirnir annað í huga því það var nokkuð lágskýjað og smá súld, en það sem bjargaði var blankalognið. Sjórinn var spegilsléttur og mystíkin lá í loftinu í þokunni í Hvalfirði þegar undirrituð sveif þar eftir vegum sveitarinnar. Að keyra Porsche er svolítið eins og að svífa; hann er svo mjúkur í akstri. Og svo er auðvitað ekki annað hægt en að gefa duglega í annað slagið og finna þyngdaraflið toga mann þéttar í sætið. Algjör unun. Það verður bara að segjast að Porsche væri í hlaðinu heima hjá mér ef ég væri á aðeins betri launum.
Eftir að við dömurnar vorum búnar að baða okkur í sjóböðunum hjá Skúla var haldið af stað í kaffi í bústað við Meðalfellsvatn í Kjós. Þar úti í haga stóðu áreiðanlega fjörutíu hross á beit. Bústaðurinn er innan girðingar og opna þarf stórt og vígalegt hlið til að komast inn á lóðina, sem er þar einmitt til að halda hestunum frá. Þegar við vorum að fara stóðu nokkur hross þétt upp við hliðið og mændu á grasið hinum megin sem þeim hefur sjálfsagt þótt grænna. Þrátt fyrir köll og handahreyfingar voru hestarnir mjög tregir að færa sig en fóru þó aðeins út í kant. En um leið og ég keyrði í gegn, og stoppaði til að bíða eftir vinkonunni sem var að loka hliðina, þustu þeir nokkrir að bílnum og vildu smakka. Já, þið haldið kannski að ég sé að grínast en svo er ekki; hestar vilja sleikja eða narta í bíla og hafði einmitt einn bíll stórskemmst þarna fyrir utan eina nóttina þegar gleymst hafði að loka hliðinu.
Með það í huga magnaðist stressið, og nú voru góð ráð dýr því ekki gat ég bakkað nema tvo metra og þrátt fyrir að liggja á flautunni stóð þar einn svartur hestur og neitaði að færa sig. Það var ekkert góð tilfinning þar sem ég sat undir stýri á sextán eða sautján milljón króna bíl, sem ég átti ekkert í! Þrátt fyrir mikla geðshræringu í bílstjórasætinu dró ég upp símann og smellti af einni mynd sem ég sá svo síðar en mundi varla eftir að hafa tekið. En blaðaljósmyndarinn vissi í undirmeðvitundinni að þetta væri mynd sem ég yrði að ná til að sanna að þetta hefði gerst í raun.
Snoppa hestsins náði mögulega að skella einum blautum kossi á húddið, en eftir mikil öskur og læti, flaut og handapat hypjaði hann sig loks út í kant og við brunuðum í burtu. Eftir á að hyggja held ég að hann/hún hafi séð kærastann á húddinu en á Porsche-merkinu er jú svartur gæðingur.
Já, ástarævintýrin gerast í sveitinni.
Ef við ræðum svo aðeins þessa nýju uppfærðu útgáfu af Macan 4S, þá hefur hann verið nokkuð endurbættur. Hestöflin eru nú 516 sem þýðir að hraðinn er meiri; nú kemst hann í 240 og er líka sneggri í hundrað; aðeins 4,1 sekúndu en var áður 5,2 í hundrað. Bremsurnar hafa einnig verið stækkaðar.
Að sjálfsögðu er hiti í stýri og sætum og ef hitastigið úti er undir fimm gráðum kveikir hann sjálfkrafa á hitanum við að að kveikja á bílnum, sem jafnvel er þá hægt að gera sitjandi inni við eldhúsborðið. Með appi er einnig hægt að tímastilla forhitun, en það sama gildir ef þarf að kæla hann. Hægt er að stilla hann til dæmis í 20 gráður og nær Macan þá því hitastigi á nokkrum mínútum. Einnig er hægt að forstilla hann þannig að hiti í stýri og sæti kviknar og er bíllinn þá algjörlega tilbúinn þegar þú sest inn í hann. Ýmislegt fleira er hægt að sjá og stjórna með appinu.
Þegar farið er inn eða út úr bílnum þarf ekki að setja hann í gang eða drepa á honum, og ekki heldur læsa; hann sér um það sjálfur. Þá er bara að bakka út úr stæðinu og renna ljúflega af stað.
Ekki gleyma að setja í Sport plús þegar akstursskilyrði leyfa og finna kraftinn í báðum rafmagnsmótorunum. Á auðum vegi er hægt að ýta með vinstri fæti á bremsuna og hægri á gjöfina í botn. Þá kemur á skjáinn: „launch control activated“. Þá er að taka vinstri fót af bremsunni og finna hvernig hann skýst eins og skotið sé úr teygjubyssu.
Fleiri skemmtilegir „fídusar“ eru í bílnum. Hægt er að sjá hraðann í framrúðunni; það er að segja að tölurnar virðast fljóta í loftinu þegar horft er á götuna fram undan. Bæði sést hraðinn á bílnum og eins hvaða hraði er þar leyfilegur. Þegar keyrt er af stað herðist aðeins beltið að manni. Öryggið er að sjálfsögðu í fyrirrúmi og ef rásað er yfir miðlínu er manni snarlega kippt aftur á sína akrein, hann „urrar“ og sýnir rauðar línur á skjánum. Hægt er að slökkva á þessu ef þetta fer í taugarnar á fólki, en kannski er ágætt að venja sig á þetta, enda er þetta staðalbúnaður í nýjum evrópskum bílum. Eins „urrar“ hann ef hraðinn verður of mikill en með einum litlum takka á stýrinu getur maður slökkt á því hljóði, sem maður þarf þó að gera í hvert skipti sem maður sest inn í bílinn. Einnig fær bílstjóri viðvörun ef tölvunni þykir hann fara fullnálægt bílnum á undan og ef ekið er skuggalega nálægt bremsar bifreiðin fyrir mann.
Að innan er hann allur í leðri og eru skjáir og takkar auðveldir í notkun. Milli sætanna er hólf fyrir síma; þar leggur maður símann sinn og hann hleðst án nokkurra snúra, sem mér finnst algjör snilld.
Fyrir framan ökumann er 12,6“ skjár sem auðvelt er að stilla og nota eftir hentugleik og fyrir miðju er 10,9“ snertiskjár sem frekar auðvelt er að læra á. Farþegi er með sinn eigin 10,9“ skjá og getur horft á bíómyndir að vild, nú eða notað sem leiðsögukerfi, en um leið keyrt er af stað sér ökumaður ekkert á þann skjá. Hljómkerfið býður upp á að spila tónlist í hágæðum.
Bakkmyndavélin er æðisleg; bæði sér maður allt sem er fyrir aftan sig en eins eru teiknaðar línur til að hjálpa manna að „hitta“ betur. Eins fær maður loftmynd af bakkakstrinum, sem er ekki verra. Það er afar gott að stýra honum og hann hækkar og lækkar ljósin sjálfur þegar hann mætir bíl, en Macan kemst tæpa 600 km á hleðslunni þannig að vel er hægt að rúnta á honum út á land. Svo er hann fjórhjóladrifinn og hentar því vel í snjó og drullu.
Satt að segja er ekkert hægt að setja út á þennan bíl. Macan er svo fallegur með ávalar línur eins og kvenlíkami en um leið er hann líka svakalega töffaralegur. Þetta er bíll sem hæfir öllum, konum, körlum og kvárum sem leggja mikið upp úr bíl sem sameinar lúxus, gæði og útlit. Hann fær líka blautan koss frá mér, eins og frá hestinum í Kjósinni!
Porsche Macan 4S
Rafhlaða: 100 kWh
Fjórhjóladrifinn
516 hö / 820 Nm
Hámarkshraði: 240 km/klst
4,1 sek í 100 km hraða
Drægni: 606 km
Orkunotkun: 17,7 - 20,7kWst/100km
Losun Co2: 0 g.
Farangursrými: 540 lítrar
Farangursrými framan: 84 lítrar
Hámarksdráttarg.: 2.000 kg
Eigin þyngd: 2.420 kg
Verð frá 16.790 þús. kr.
Umboð: Bílabúð Benna