Loftpúðar í Volvo fyrir gangandi vegfarendur

Líknarbelgurinn á Volvo V40 veitir gangandi vegfarendum betri vernd fyrir …
Líknarbelgurinn á Volvo V40 veitir gangandi vegfarendum betri vernd fyrir húddi, framrúðu og fremstu gluggastólpum.

Í fyrsta skipti er kominn á markað loftpúði fyrir gangandi vegfarendur sem er staðalbúnaður í öllum nýjum Volvo V40. Honum er ætlað að hjálpa Volvo að ná markmiði sínu um að enginn látist eða slasist alvarlega í Volvo bíl framleiddum eftir árið 2020. Þessi byltingarkenndi loftpúði er innleiddur aðeins einu ári eftir að Volvo hóf að leggja meginlínur varðandi umferðaröryggi á breskum þjóðvegum með sérfræðingum í þjóðvegaöryggi og breskum þingmönnum. Sú vinna markar upphaf af áratug umferðaröryggis sem er verkefni sem Sameinuðu þjóðirnar ýttu úr vör. Vonast nefndarmenn og aðrir aðstandendur verkefnisins til að loftpúðinn stuðli að fækkun banaslysa á gangandi vegfarendum í umferðinni.

Á hverju ári látast 1,3 milljón manns í bílslysum. Í 85 ára sögu fyrirtækisins hefur umferðaröryggi verið í nokkru lykilhlutverki hjá Volvo. Árið 2008 setti Volvo sér það markmið að fyrir 2020 skyldi enginn sem ekur nýjum Volvo látast eða slasast í umferðinni. Mikilvægur liður í að ná þessu markmiði er innleiðing öryggisbúnaðs í nýjum bílum fyrirtækisins á við Borgaröryggi, Vegfarendaskynjara og loftpúða fyrir gangandi vegfarendur.  Loftpúði fyrir vegfarendur er byltingarkennd nýjung sem var fyrst kynnt í Volvo V40 á bílasýningunni í Genf fyrr á þessu ári. Loftpúðinn verður staðalbúnaður í öllum nýjum Volvo bílum. Kerfið virkjast sjálfkrafa þegar hraði ökutækis er á milli 20 og 50 km/klst enda leiða rannsóknir í ljós að 75 prósent ákeyrslna á gangandi vegfarendur verða þegar ferð ökutækja er undir 40km/klst.  

Alvarlegustu höfuðáverkarnir þegar slys verða á vegfarendum orsakast af hörðu yfirborði vélarhlífarinnar, fremsta hluta framrúðunnar og gluggapósti bílsins. Þess vegna beindi Volvo athyglinni á þessum svæðum þegar þróunarvinna við loftpúðann stóð yfir. Sjö skynjarar á framhlið bílsins senda merki til stjórnstöðvar. Lendi bílinn á fyrirstöðu, t.d. vegfaranda, berst neyðarmerki til stjórnstöðvar og loftpúðinn fyrir vegfarendur er virkjaður. Um leið og stjórnstöð móttekur neyðarmerkið losnar um hjöruliði vélarhlífarinnar og hún lyftist upp við framrúðu bílsins um leið og loftpúðinn fyllist á örfáum millisekúndum. Það dregur úr högginu sem myndast við að vegfarandi skelli á vélarhlífinni í kjölfar ákeyrslu. „Loftpúðinn hefur tvenns konar hlutverk. Í fyrsta lagi lyftir hann upp vélarhlíf að framan og í annan stað dregur hann verulega úr högginu þar sem vegfarendur lenda á uppblásnum loftpúða í stað þess að lenda á harðri vélarhlíf eða óvarinni framrúðu,“ útskýrir Thomas Broberg, ráðgjafi öryggissviðs hjá Volvo.

mbl.is

Bloggað um fréttina