Ford EcoBoost valin vél ársins

Hverfilblásna Ford Ecoboost 1,0 lítra bensínvélin er smá en kná.
Hverfilblásna Ford Ecoboost 1,0 lítra bensínvélin er smá en kná.

Ford hefur hlotnast sá heiður að þriggja strokka hverfilblásna Ecoboost bensínvélin, sem er með eins líters slagrými, hefur verið valin bílavél ársins. Hún knýr m.a. Ford Focus. Í fyrra varð önnur og smá en kná bensínvél fyrir valinu, TwinAir vélin frá Fiat.

Það var ekki aðeins að hún væri valin vél ársins, heldur var Ecoboostvélin einnig valin besta nýja vélin. Verðlaunin eru veitt árlega og byggjast úrslitin á kosningu fjölþjóðlegs hóps bílablaðamanna. 

Fordvélin smágerða er sköpunarverk verkfræðingasveitar á vegum Ford í Englandi. Henni er stefnt til höfuðs hinni hefðbundnu 1,6 lítra vél sem er að finna í flestum fjölskyldubifreiðum á markaði í dag.

Hún hefur verið fáanleg í Ford Focus, annað hvort sem 98 hestafla eða 123 hesta. Sú kraftmeiri fer með 4,2 lítra bensíns á 100 km og losar aðeins 114 g/km af gróðurhúsalofti. Sú minni er ögn langdrægari, þarf 4,0 lítra á hundraðið og losar aðeins 109 g/km. Til samanburðar losar 1,6 lítra bensínvél í Ford Focus 27 g/km meira af koltvíildi.

Verðlaunavélina er enn sem komið er aðeins að finna í Ford Focus en síðar á árinu verður hún einnig fáanleg í C-Max fjölnotabílnum og B-Max. Þá verður hún í boði í Ford Fiesta á næsta ári.

Frá smíði Ford Ecoboost 1,0 lítra vélarinnar.
Frá smíði Ford Ecoboost 1,0 lítra vélarinnar.
mbl.is