Bílaiðnaðurinn kaupir upp álið

Í lúxusbílinn Audi A8 er svo til eingöngu notað ál …
Í lúxusbílinn Audi A8 er svo til eingöngu notað ál og hefur verið svo í meira en áratug.

Þörf fyrir ál í bílaverksmiðjum í N-Ameríku mun þrefaldast til ársins 2015, samkvæmt nýjum spám. Ef þær rætast má búast við skorti á áli. Til að reyna að mæta þessari þörf hafa tveir af stærstu álframleiðendum heims ákveðið að auka framleiðslugetuna, þ.e. Alcoa og Novelis.

Stækka á bræðslur þessara fyrirtækja í Iowa- og New York-ríkjum fyrir samtals 500 milljónir dollara. Það er því víðar en í Straumsvík þar sem framleiðsla áls er aukin, en drifkrafturinn kemur frá bílaiðnaðinum. Þessari uppbyggingu á að vera lokið árið 2014 en búist er við álskorti í bílaiðnaðinum árið 2013.

Aukin er notkun áls í felgur, vélar og fjöðrunarbúnað á undanförnum árum en álnotkunin hefur á allra síðustu misserum einnig náð til hurða, bretta, húddloka og jafnvel burðargrindar. Þar hefur Audi rutt brautina og byggt heilu bílana svo til úr áli og Mercedes Benz hefur fylgt í kjölfarið.

Sá þáttur sem ýtir hvað mest undir þessa aukna notkun áls eru sífellt hertar reglur hins opinbera um allan heim um minni mengun bíla og þá vegur vigt þeirra mikið. Ál vegur þrisvar sinnum minna en stál, en kostar meira og er erfiðara og dýrara að móta. Eitt pund af áli kostar nú 1 dollar, um helmingi meira en pund af stáli.

Bandarískir bílaframleiðendur ganga svo langt að þeir ætla brátt að skipta út stáli fyrir ál í pallbíla sína, en umskipti úr stáli í ál er lengst komin í lúxusbíla því þar er helst hægt að réttlæta aukinn kostnað og koma honum út í verðlag þeirra. Mercedes Benz SL roadster er t.d. svo til alveg byggður úr áli og með því hefur hann lést um 150 kíló.

mbl.is

Bloggað um fréttina