Renault Alpine sportbíllinn snýr aftur

Franska herlögreglan brúkaði Renault Alpine á sínum tíma enda þurfti …
Franska herlögreglan brúkaði Renault Alpine á sínum tíma enda þurfti hún á hraðskreiðum bíl að ráða við umferðareftirlit.

Franski bílsmiðurinn Renault og breski sportbílasmiðurinn Caterham Group hafa ákveðið að blása sameiginlega lífi í hinn sögufræga Alpine sportbíl sem hreppti fjölda titla í ralli á áttunda áratug nýliðinnar aldar.

Hafa fyrirtækin tvö stofnað sameiginlegt félag um framleiðsluna og þau boða að sportbíllinn nýi – með sama nafni og forverinn – verði af ódýrari gerðinni, á viðráðanlegu verði, eins og þar segir. Spurt er jafnvel hvort þar verði sportbíll kreppunnar á ferðinni.

Forstjóri Renault, Carlos Ghosn, segir að þeir muni nútímavæða Alpine bílinn en „kjarnsýra“ hans (DNA) myndi halda sér. Á þessu stigi forðuðust bæði Ghosn og eigandi Caterham, Tony Fernandez, að upplýsa nokkuð um hönnun bílsins og hugsanlegt kaupverð; sögðust ekki vilja setja verkfræðingum neinar slíkar skorður.

Alpine-bíllinn verður smíðaður í sömu smiðju og forverar hans í Dieppe í norðurhluta Frakklands en ekki er búist við að hann renni fullskapaður úr smiðjunni og fari í almenna sölu fyrr en eftir þrjú til fjögur ár.

Þetta er ekki upphaf á samstarfi Renault og Caterham því franski bílsmiðurinn hefur séð formúlu-1 liði Fernandez, sem ber nafnið Caterham, fyrir vélum í keppnisbíla sína. Þau munu sameina krafta sína við hönnun Alpine-bílsins. Hvor aðili um sig mun eiga helming hlutafjár í samstarfsfyrirtækinu. Auk þess að smíða nýjan Alpine mun fyrirtækið framleiða sportbíl á sama undirvagni í nafni Caterham.

Renault Alpine var sigursæll í rallil á áttunda áratugnum.
Renault Alpine var sigursæll í rallil á áttunda áratugnum. mbl.is/renault
mbl.is

Bloggað um fréttina