Vildum bæta umferðarmenninguna

Eiríkur á ennþá gamla hjálminn sem hann notaði þegar hann …
Eiríkur á ennþá gamla hjálminn sem hann notaði þegar hann var formaður hins fornfræga vélhjólaklúbbs. Hann lét þá setja merki Eldingar framan á hjálminn og það prýðir hann enn. mbl.is/Golli

Það kannast eflaust margir við hann Eirík Gunnarsson í GG en hann rak Flutningaþjónustu GG ásamt föður sínum í meira en fjóra áratugi. Það sem færri vita er að Eiríkur var einn af stofnendum Bifreiðaklúbbs Reykjavíkur BKR.

Enn færri vita að áður en að því kom var Eiríkur formaður vélhjólaklúbbs, fyrsta skráða klúbbsins, sem bar nafnið Elding. Klúbburinn fór eftir ákveðnum lögum. Þar kom meðal annars fram að allir geta orðið meðlimir, bæði strákar og stelpur, 14 ára og eldri, sem hafa áhuga á viðgerðum og notkun vélhjóla.

Markmiðin voru meðal annars að koma á föstum fræðslu- og skemmtikvöldum fyrir meðlimi, fræðslu um umferðarmál, fá æfingasvæði og koma á æfingum. Gefa félögum færi á að gera við sín eigin hjól, efna til hæfnisprófa og ferðalaga. Umferðarlögreglan í Reykjavík og Æskulýðsráð Reykjavíkur voru með einn ráðunaut hvor á fundum, þeir voru með í ráðum hvað varðar klúbbinn og gæta hagsmuna hans út á við. Sá sem var ótvírætt driffjöður klúbbsins var lögreglumaðurinn Sigurður Emil Ágústsson, betur þekktur sem Siggi Palestína. „Jón Pálsson frá Æskulýðsráði var líka oft með okkur og saman reyndum við að bæta umferðina, en skellinöðrur voru litnar hornauga áður en Elding kom til,“ segir Eiríkur í viðtali við bílablaðamann Morgunblaðsins.

Vinsælt starf

„Hann Siggi var alveg ótrúlega duglegur að hjálpa okkur og sinna í þessu starfi. Strákarnir báru mikla virðingu fyrir honum og þá sérstaklega þeir sem voru ekki með allt sitt á hreinu, þeir voru skíthræddir við hann,“ segir Eiríkur og brosir. „Við hinir þurftum svo sem ekki að hafa áhyggjur enda var Siggi mjög sanngjarn maður.“ Eiríkur minnist þess sérstaklega hversu duglegur Siggi Palestína var að fara með þeim í ferðir út um allt. „Mest fórum við út á Reykjanes í þessum ferðum, til dæmis svokallaða Djúpavatnsleið áður en þar var kominn vegur að nokkru ráði.“ Elding var vinsæll klúbbur og voru 207 skráðir félagar frá 1962. Eiríkur var formaður Eldingar 1962-3 og að hans sögn eyddi hann nánast hverjum lausum degi sem hann átti með félögum sínum í Eldingu. Hins vegar dró úr hjólaæðinu þegar meðlimir fengu aldur til að taka bílpróf.

Frumkvöðlar í aksturskeppnum

Eiríkur var strax farinn að vinna hjá föður sínum við flutninga um leið og hann fékk bílpróf og áhuginn farinn að leita til stærri ökutækja en skellinaðra þess tíma. Fljótlega fóru nokkrir félagar að tala sig saman um að stofna klúbb og 16. nóvember 1964 var BKR svo stofnaður og stofnfundurinn haldinn í húsnæði Æskulýðsráðs við Fríkirkjuveg. „Við héldum síðan fundina eftir þetta í golfskálanum í Öskjuhlíð líkt og Elding gerði.“ Starfið tók fljótlega mikinn tíma og klúbburinn stækkaði ört. „Það voru nokkrir strákar með hóp sem var kallaður Vogabílagengið og runnu þeir saman við okkar klúbb.“ BKR fékk gefins gamla skotfærageymslu og eftir skamma leit fann Eiríkur grunn sem passaði undir geymsluna í Almannadal þar sem skálinn var reistur. „Fljótlega vorum við farnir að æfa okkur á bílunum þarna og næst lá því við að skipuleggja torfærukeppni sem við gerðum uppi við Bolöldu. Mér er það sérstaklega minnisstætt að fljótlega fylltist allt af bílum þarna og áhorfendur skiptu hundruðum,“ sagði Eiríkur. Á næstu árum stóð BKR fyrir óteljandi keppnum og er óhætt að segja að klúbburinn hafi verið brautryðjandi á þessu sviði. Klúbburinn stóð á sjöunda áratugnum fyrir fjölmörgum jeppakeppnum; fyrstu kvartmílukeppninni sem haldin var á Reykjavíkurflugvelli, sem og ískappaksturskeppnum á Leirtjörn svo eitthvað sé nefnt. Heyrst hefur af nýlegum áhuga á að endurvekja bæði þessi félög sem Eiríkur kom að en meira um það seinna.

njall@adalbraut.is

Merki vélhjólaklúbbsins Eldingar.
Merki vélhjólaklúbbsins Eldingar. mbl.is/Golli
Merki Bifreiðaklúbbs Reykjavíkur.
Merki Bifreiðaklúbbs Reykjavíkur. mbl.is/Golli
Eiríkur stillir sér upp ásamt bróður sínum.
Eiríkur stillir sér upp ásamt bróður sínum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: