Setti flugvélamótor í mótorhjól

Frank Ohle við flugvélina sí... mótorhjólið sitt.
Frank Ohle við flugvélina sí... mótorhjólið sitt.

Af hverju ekki að setja 9 strokka stjörnumótor úr flugvél í mótorhjól? Þjóðverjinn Frank Ohle gat greinilega ekki svarað þeirri spurningu, því það er nákvæmlega það sem hann gerði.

Mótorinn sem varð fyrir valinu heitir Rotec R3600, er 3,6 lítra og skilar 150 hestöflum. Það ætti að duga hvaða mótorhjóli sem er, í það minnsta fyrst það dugar í flugvél.

Hjólið hans Ohle er sérsmíðað og heitir „M ... von Richthofen“ og verður að teljast líklegt að hann sé að vísa í Manfred von Richthofen, betur þekktan sem Rauði baróninn.

Í frétt Jalopnik kemur fram að Ohle hafi verið eitt og hálft ár að klára hjólið, sem er með lítilli flugvélaskrúfu fremst á hreyflinum, til skrauts. 

Þrátt fyrir að mótorinn sé ætlaður til háloftaferða er helsta áhyggjuefni Ohle líklega að reka hann hvergi niður, því veghæð er ekki beinlínis sterka hlið þessa hjóls. 

mbl.is