Já-bíll tekur 360° myndir

Á næstu vikum byrjar fyrirtækið Já, sem rekur meðal annars vefinn ja.is, að setja á vefinn 360° myndir af helstu kennileitum og ferðamannastöðum á Íslandi. Í gær var kynntur sérútbúinn Toyota Yaris Hybrid sem verður notaður í myndatökurnar en það er fyrirtækið RP Media sem annast myndatökurnar og á heiðurinn af hugbúnaðinum sem er notaður til verksins.

Myndirnar verða svipaðar þeim sem hægt er að skoða í Google Street View og fanga útsýni til allra átta. Myndatökubíllinn er búinn 360° myndavél á þakinu og mun í upphafi taka myndir í miðborg Reykjavíkur og þekktum kennileitum á höfuðborgarsvæðinu, en eftir það ferðast hann til margra af helstu náttúruperla Íslands. Á endanum er gert ráð fyrir að flestir fjölfarnir staðir á landinu verði kortlagðir með þessum hætti.

Strax á næstu vikum verður byrjað að setja myndefnið inn á ja.is en í framhaldinu verður það samtengt kortaþjónustu ja.is og ferðavefinn planiceland.com, sem Já rekur fyrir erlenda ferðamenn.

Myndirnar munu því ekki aðeins gagnast Íslendingum við að rata um og skoða umhverfi sitt, heldur geta þær hjálpað erlendum ferðamönnum að skipuleggja heimsókn sína fyrirfram.

Nú þegar er hægt að skoða sýnishorn á tilraunavef verkefnisins, ja360.is. Hér fyrir ofan er hins vegar myndband sem Rósa Braga, ljósmyndari mbl.is, tók af myndatökubílnum og sést þar glögglega hvernig hann virkar. 

Sérútbúinn Toyota Yaris tvinnbíll verður notaður til verksins.
Sérútbúinn Toyota Yaris tvinnbíll verður notaður til verksins. mbl.is/Rósa
Myndavélin á þaki bílsins.
Myndavélin á þaki bílsins. mbl.is/Rósa
Frá kynningu verkefnisins í gær.
Frá kynningu verkefnisins í gær. mbl.is/Rósa
mbl.is