Nægjusamur páfi fær sér Benz

Nýr páfabíll er af gerðinni Mercedes Benz M-Class líkt og …
Nýr páfabíll er af gerðinni Mercedes Benz M-Class líkt og síðasti páfabíll

Frans páfi er nýbúinn að fá lyklana af nýjum Mercedes Benz M-Class og tók hann við lyklunum úr höndum framkvæmdastjóra Daimler, Dieter Zetsche. Páfinn hvetur þó kaþólska presta og nunnur til að keyra um á látlausum bílum.

Páfinn segist ekki vera hrifinn af því þegar hann sér kaþólska presta og nunnur aka um á glænýjum bílum. Páfinn segir að bíll sé nauðsynlegur til að sinna mörgum störfum en hann biður um að valinn sé látlaus bíll. „Ef þú vilt flottan bíl, hugsaðu þá um öll börnin í heiminum sem svelta.“

Nýi páfinn er orðinn þekktur fyrir að hafna ýmsum íburði sem fylgir páfadómi. Hann býr t.d. í látlausri íbúð í stað þess að búa í íburðarmikilli svítu sem fylgir embættinu. Hann keyrir um á Ford Focus í páfagarði en mun nota Benz M-Class í júlílok þegar hann fer í sína fyrstu opinberu heimsókn til Brasilíu.

Mercedes-Benz hefur framleitt bíla fyrir páfaembættið í meira en 80 ár. Mercedes-Benz G-Class hefur verið kallaður páfabíllinn eftir að Jóhannes Páll annar ók um Péturstorgið í páfagarði í slíkum bíl árið 1980. En frá árinu 2002 hefur páfabíllinn verið af gerðinni Mercedes-Benz M-Class.

Frans páfi tók við lyklunum að nýja bílnum úr höndum …
Frans páfi tók við lyklunum að nýja bílnum úr höndum framkvæmdastjóra Daimler, Dieter Zetsche
mbl.is