Fjarstýrður jeppi fyrir ljósmyndara

Marga ljósmyndara dreymir um að fara til Afríku og mynda villt ljón í sínu náttúrulega umhverfi. Í slíkum ferðum er gjarnan farið á jeppa inn á yfirráðasvæði ljónanna og þeirra beðið. Nýsjálenski ljósmyndarinn Chris McLennan kann aðra leið.

Hann fékk vin sinn til að breyta myndavélahlíf (sem er hönnuð til að deyfa öll hljóð frá myndavélini) til að nota á sléttum Botsvana. Í raun er um jeppabreytingu að ræða, því myndavélahlífin er nú fjórhjóladrifin, á grófum torfærudekkjum og fjarstýrð.

Apparatinu, sem er kallað Car-L og inniheldur Nikon D800E myndavél, fjarstýrði McLennan svo úr öruggri fjarlægð að villtum ljónum, án þess að setja sig í hættu eða styggja þau.

Ljónin virðast mjög forvitin og bregða á leik við myndavélina, sem tekur ljósmyndir í gríð og erg sem hæpið er að hægt sé að ná öðruvísi.

McLennan, sem ferðast einnig með ljósmyndurum um allan heim, birti afraksturinn, myndbandið hér að neðan, á Youtube-síðu sinni í síðustu viku.

mbl.is