Fjórhjóladrifinn rafbíll frá Tesla

Loksins lítur út fyrir að framleiðsla fari að hefjast á Tesla Model X, sjö manna fjórhjóladrifnum rafjepplingi sem verður undir sex sekúndum í hundrað.

Tesla hefur lýst því yfir að fyrstu bílarnir verði til sölu innan árs. Hægt er að panta sér eintak fyrirfram, á heimasíðu Tesla, og borga inn á það. Ekki hefur verið gefið út endanlegt verð, en líklegt er talið að grunngerðin muni kosta ögn meira en grunngerð Model S, eða rúmar sjö milljónir króna í Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir kraftmikla mótora, fullkomið fjórhjóladrif og sjö sæti eru það líklega afturhurðirnar sem vekja mesta athygli á bílnum, en Tesla kallar þær „fálkavængi“.

Þær líkjast „mávavængjum“ Mercedes-Benz, en þökk sé lömum fyrir ofan rúðurnar er hægt að opna afturhurðir Tesla í þröngum bílastæðum, og fá þannig einstaklega gott aðgengi að farþegarýminu.

Sætin í miðjuröðinni eru á sleðum og hægt er að færa þau fram til að opna fyrir gott aðgengi að þriðju röðinni.

Model X verður í boði með 60 og 85 kílóvattstunda rafhlöðum. Þær duga Model S bílnum í 320 og 420 km akstur, en búast má við að Model X klári rafhlöðurnar eitthvað fyrr, bæði vegna stærðar og vegna fjórhjóladrifsins.

Uppfært 11. febrúar kl. 14.00: Einnig er hægt að panta Model X á íslensku heimasíðunni Tesla.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina