Smíðaði „japanskan Batmanbíl“ og kynntist konu sinni

Pointer 1, úr Urutora Sebun-sjónvarpsþáttunum.
Pointer 1, úr Urutora Sebun-sjónvarpsþáttunum.

Japaninn Yasushi Shiroi er sáttur við lífið og tilveruna, enda hefur hann átt draumabílinn sinn í rúm 20 ár og, þökk sé bílnum, er líka í hamingjusömu hjónabandi.

Bíllinn hans Shiroi er líklega sá eini sinnar tegundar, en hann er nákvæm eftirlíking af bíl sem lék stórt hlutverk í sjónvarpsþáttunum Urutora Sebun, seint á sjöunda áratug síðustu aldar.

Þættirnir, sem voru vísindaskáldskapur af bestu sort, voru svo vinsælir að varla er til það mannsbarn í Japan sem ekki hefur séð þá. Bandaríska sjónvarpsstöðin TNT lét talsetja þættina á níunda áratugnum og voru þeir kallaðir Ultra 7. Með því að smella hér getur þú horft á einn slíkan, þar sem bílnum bregður fyrir (þ.e.a.s. fyrirmyndinni).

Bíllinn vekur því gríðarlega athygli hvar sem hann fer, og segir Shiroi hann vera japönsku útgáfuna af Batmanbílnum.

Pointer 1, eins og hann er kallaður, er smíðaður úr 1958-árgerðinni af Chrysler Imperial og heilmiklu stáli. Bíllinn vegur enda um 2,5 tonn og þó að yfirbyggingin fái stöðuga athygli hefur gangverkið verið í lamasessi meira og minna frá upphafi.

Skoðaðu myndbandið hér að neðan til að sjá hvernig Shiroi hafði efni á að smíða bílinn, þrátt fyrir að vera staurblankur, og hvernig bíllinn leiddi til þess að hann kynntist konu sinni.

mbl.is