Ný metanstöð í Reykjavík og á Akureyri

Metangasið er unnið í Álfsnesi. Þaðan er það flutt í …
Metangasið er unnið í Álfsnesi. Þaðan er það flutt í hylkjum til Olís sem innan skamms verður með tvær metanafgreiðslustöðvar í Reykjavík. mbl.is/Styrmir Kári

Sumarið 2011 og 2012 nutu metanbílar sérlega mikilla vinsælda og var tugum bíla breytt í metanbíla í hverjum mánuði. Tölulega dreifingu má sjá á samgönguvef Orkusetursins.

Nokkuð hefur dregið úr breytingunm af þessu tagi og eflaust má rekja það til þess hversu fáar metanafgreiðslustöðvarnar hafa verið. Síðasta haust bættist ný metanstöð við á afgreiðslustöð Olís í Mjódd og á næstu vikum og mánuðum verða tvær til viðbótar opnaðar. Önnur í Álfheimum í Reykjavík en hin á Akureyri.

„Við opnum stöðina á Akureyri á vordögum í samvinnu við Norðurorku sem er framleiðandi á metani fyrir norðan,“ segir Jón Ó. Halldórsson, framkvæmdastjóri smásölu- eldsneytissviðs Olís.

Samstarf Olís og Norðurorku

Engin metanafgreiðslustöð hefur verið á Akureyri til þessa en Norðurorka hefur verið að undirbúa framleiðslu á metangasi um nokkurn tíma.

„Við höfum skrifað undir samning við þá þar sem við tökum að okkur sölu og markaðssetningu á metangasinu þeirra og það verður í sjálfu sér bara lögð lögn frá gasstöðinni þeirra í dæluna og síðan mun sú dæla vera hluti af okkar sölukerfi í tengslum við annað sem við erum að gera á þessu sviði,“ segir Jón.

Hann segir að fyrirtækið fagni þessum grænu skrefum sem stigin hafa verið. „Þetta er hluti af umhverfisstefnu okkar. Við fórum að blanda VLO, lífrænni vetnismeðhöndlaðri dísilolíu, saman við dísilolíuna okkar í fyrra og vorum nánast ári á undan öðrum í því. Við uppfylltum þá þegar þessi lagaákvæði sem tóku gildi núna um áramótin.“ Lögin sem um ræðir kveða á um skyldu olíufélaganna til að tryggja að hluti af eldsneyti til samgangna verði af endurnýjanlegum uppruna. Markmið laganna er að hrinda af stað markvissum aðgerðum til að stuðla að orkuskiptum í samgöngum með aukinni notkun endurnýjanlegs eldsneytis. Lögin fela í sér þau nýmæli að lögð er sú skylda á söluaðila eldsneytis hér á landi að minnst 3,5% orkusölunnar verði af endurnýjanlegum uppruna (t.d. etanól, metanól, lífdísill/VLO) frá og með árinu 2014. Ári síðar hækkar þessi hlutur í 5%. Lögin gera kröfu um að allt endurnýjanlegt eldsneyti til samgangna á landi verði framleitt með sjálfbærum hætti.

Horft til framtíðar

Vinsældir bíla með aðra orkugjafa en bensín og dísil njóta nú vaxandi vinsælda. Hekla hefur selt metanbíla, til dæmis Passat Variant. Tvinnbílar eru einnig vinsælir eins og sést af sölutölum Toyota og Lexus sem eru framarlega í framleiðslu á tvinnbílum. Rafmagnsbílar á borð við Nissan Leaf og Tesla eru farnir að sjást á götunum og nú verður áhugavert að sjá hvort metanbreytingar á bílum fari aftur á skrið þegar þjónustustöðvunum fjölgar.

„Okkur finnst að þetta sé hluti af framtíðinni að bjóða viðskiptavinum upp á ýmsa valkosti og þá er mjög gott að geta haft þá af endurnýtanlegum toga,“ segir Jón sem er bjartsýnn á að Akureyringar taki þessari viðbót vel.

„Eins og stendur eru ekki margir metanbílar á Akureyri en ég geri nú ráð fyrir að þetta veki áhuga Akureyringa á að fjölga metanbílum. Ég á fastlega von á því að við eigum eftir að sjá eitthvað gerast í þeim efnum á Akureyri,“ segir hann.

Aukin afköst

Búnaðurinn sem settur var upp á stöðinni í Mjóddinni hefur reynst vel að sögn Jóns. „Þeir viðskiptavinir sem nýttu sér metangas hér á liðnum árum urðu oft og tíðum fyrir vonbrigðum með afgreiðsluhraðann og fleira í þeim dúr en þessi afgreiðslubúnaður sem við höfum sett upp og þjónar okkar viðskiptavinum hefur reynst mjög vel. Við gerum ráð fyrir að við getum þjónað sex til tíu viðskiptavinum á klukkutíma á dælu. Það tekur örlítið lengri tíma en bensínafgreiðsla en samt er þessi afgreiðsluhraði með okkar búnaði orðinn allt annar en áður þekktist.“

Gasið er ekki leitt gegnum lögn úr Álfsnesi heldur er það flutt í hylkjum þaðan á stöðina. „Þetta þýðir að okkur tekst að halda fullum þrýstingi á dælunni,“ segir Jón Ó. Halldórsson.

malin@mbl.is

Metanstöð Olís í Mjódd var opnuð í lok september á …
Metanstöð Olís í Mjódd var opnuð í lok september á síðasta ári. Afköst þeirrar stöðvar eru töluverð, eða allt að tíu bílar á klst.
Jón Ó. Halldórsson, framkvæmdastjóri smásölu- eldsneytissviðs Olís.
Jón Ó. Halldórsson, framkvæmdastjóri smásölu- eldsneytissviðs Olís.
Metan, CH4, er lofttegund sem m.a. myndast á urðunarstöðum sorps …
Metan, CH4, er lofttegund sem m.a. myndast á urðunarstöðum sorps við niðurbrot á lífrænum úrgangi. mbl.is/Friðrik Tryggvason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina