Flottasti Subaru-tunguspaða-kappakstur sem þú hefur séð

Það hljómar kannski ólíklega, en þetta myndband af fjarstýrðum Subaru WRX STI að keppa við „spýtusprengju“ úr tunguspöðum er mjög góð skemmtun. Myndbandið er metnaðarfullt á alla kanta og án efa það flottasta sinnar tegundar.

Það þarf varla að kynna Subaru WRX STI fyrir lesendum bílavefsins, en „spýtusprengja“ er ef til vill ekki eins vel þekkt fyrirbæri.

Í grunninn er um einfalda eðlisfræðiæfingu að ræða. Tunguspöðum (eða öðrum álíka spýtum) er raðað þannig að þeir læsast hver við annan undir spennu. Spýtunum er svo raðað upp í alls konar mynstur og þegar fyrsta spýtan er losuð frá veldur spennan í kerfinu því að stöðuorka breytist í hreyfiorku og spýturnar þeytast upp í loftið með tilfæringum.

Hafi spýtunum verið rétt raðað upp verður úr eins konar sprengi-bylgja, og það er við slíka bylgju sem fjarstýrði bíllinn keppir í myndbandinu hér fyrir neðan.

Samkvæmt Wikipedia er hraði bylgjunnar um 35 km/klst, ef notaðir eru tunguspaðar. Með sérstökum föndurspýtum er hins vegar hægt að ná allt að 145 km hraða á stofugólfinu heima hjá sér. 

Eins og bent er á í þessu kennslumyndbandi er ráðlegt að nota öryggisgleraugu þegar unnið er með spýtusprengjur.

mbl.is